Einn alvarlegast vandinn í húsnæðismálum um þessar mundir er fjölgun heimilislausra á Íslandi samkvæmt skýrslu Velferðarráðuneytisins og Íbúðalánasjóðs frá því október í fyrra. Fjöldi heimilslausra hefur farið vaxandi en árið 2017 voru 349 manns skráðir utangarðs og/ eða heimilislausir í borginni, en það eru 95 prósent fleiri en þegar sambærileg mæling var síðast gerð árið 2012.
Umboðsmaður Alþingis telur að úrræði fyrir húsnæðisvanda utangarðsfólks séu ekki nægileg en umboðsmaður segir að í raun standi félagsleg leiguhúsnæði utangarðsfólki sem glímir við áfengis eða vímuefnavanda ekki til boða. Auk þess hefur verið vakin athygli á því að í dag er engin dagdvöl í boði fyrir utangarðsfólk í Reykjavík. Félags- og jafnréttismálaráðherra skipaði stýrihóp um málefni utangarðsfólks í desember 2018 en gert er ráð fyrir að hópurinn skili tillögum til ráðherra í maí 2019.
Flestir heimilislausir í lengur en tvö ár
Í skýrslu Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um hagi utangarðsfólks í Reykjavík árið 2017 kom fram að af þeim 349 sem skráðir eru utangarðs voru 153 einstaklingar sagðir búa við ótryggðar aðstæður, 118 voru sagðir gista í gistiskýli og 76 einstaklingar voru sagðir hafast við á götunni að einhverju leyti. Jafnframt voru 97 einstaklingar að ljúka stofnanavist og 58 einstaklingar voru skráðir í langtímabúsetuúrræði.
Tæplega helmingur þeirra sem skilgreinast utangarðs í Reykjavík eru á aldrinum 21 til 40 ára, samkvæmt skýrslunni. Flestir hafa verið heimilislausir lengur en í 2 ár, eða um 40 prósent. Í könnunni kemur fram að meirihluti utangarðsfólks er af íslenskum uppruna eða um 86 prósent árið 2017.
Áfengisvandi og misnotkun annarra vímuefna eru talin helsta orsök þess að einstaklingar lendi utangarðs en næstalgengasta orsökin eru geðræn vandamál, samkvæmt skýrslunni. En um áttatíu prósent þeirra 142 utangarðsmanna sem eru með geðrænan vanda glíma einnig við áfengis- og vímuefnavanda.
Vilja að opnuð verði dagdvöl
Í mars árið 2018 lagði Velferðarvaktin fram tillögur um bættar aðstæður utangarðsfólks. Í tillögum vaktarinnar er meðal annars kallað eftir því að komið verði upp dagdvöl fyrir utangarðsfólk sem opin yrði allan daginn, en ekkert slíkt er fyrir hendi í dag. Í dagdvöl væri snyrtiaðstaða og sturtur, matur, fataúthlutun, hvíldaraðstaða, virkni og launuð verkefni, félagsráðgjöf og heilbrigðisþjónusta.
Á sínum tíma var opið dagsetur fyrir utangarðsfólk á Grandanum á vegum Hjálpræðishersins en rekstri var hætt í lok ágúst 2015 þegar þau misstu húsnæðið. Næturskýlin eru lokuð milli tíu til fimm á daginn og því er nær engin hús að venda á daginn. Velferðarvaktin segir að það valdi álagi á einstaklingana, heilbrigðiskerfið og borgarsamfélagið.
Ábyrgðin liggur hjá ríki og sveitarfélögum
Staða utangarðsfólks varð umboðsmanni Alþingis tilefni til frumkvæðisathugunar í fyrra. Í áliti umboðsmanns í máli kemur fram að utangarðsfólk sem glímir við áfengis- og/eða vímuefnavanda kemur í raun ekki til greina við úthlutun almenns félagslegs leiguhúsnæðis. Þau sértæku búsetuúrræði sem eru í boði fyrir utangarðsfólk eru rekin í anda hinnar svokölluðu „Heimili fyrst “ hugmyndafræðinni. Sú hugmyndafræði byggir á því aðgangur að húsnæði séu grunnréttindi sem setja þarf í skýran forgang og að öruggt þak yfir höfuðið, án skilyrða um að einstaklingur sé vímuefnalaus, auðveldi heimilislausum að einbeita sér að því að vinna á öðrum vanda sem glímt er við.
Í dag eru í boði 24 „Heimili fyrst“ íbúðir í Reykjavík. Önnur úrræði fyrir heimilislausa og utangarðsfólk í Reykjavíkurborg eru eru áfangaheimilið fyrir 37 einstaklinga, stuðningsheimili fyrir 8 karlmenn og 5 konur. Ásamt því eru til staðar tvö neyðarskýli í Reykjavíkurborg en hið þriðja á að bætast við á þessu ári á Grandagarði. Niðurstaða umboðsmanns Alþingis er hins vegar að úrræðin séu ekki nægjanleg, borgin tryggi utangarðsfólki ekki lausn við bráðum húsnæðisvanda.
„Heimilisleysi er alvarlegt lýðheilsuvandamál og mikilvægt að veitendur húsnæðis og heilbrigðisþjónustu vinni saman að úrlausn þessa mála þar sem öruggt húsnæði getur verið veigamikill þáttur í endurkomu fólks inn í samfélagið eftir veikindi. Rúmur fjórðungur þeirra sem eru utangarðs hér á landi var að ljúka við stofnanavist.“ segir í skýrslu Velferðarráðuneytisinsog Íbúðalánasjóðs segir að
Í tillögum Velferðarvaktin er lagt til að borgin fjölgi talsvert „Heimili fyrst“ íbúðum. Ásamt því bendir vaktin á að koma þurfi upp fleiri áfangaheimilum þar sem stutt er við utangarðsfólk. Enn fremur þurfi að útvega atvinnutækifæri þ.e. lágþröskuldsvinnu sem gæti hentað utangarðsfólki. Að lokum segir í skýrslu Velferðarvaktarinnar segir að tillögurnar séu þess eðlis að bæði ríki og sveitarfélög þurfi að koma að þeim og vinna að lausnum sameiginlega, ekkert sveitarfélag sé „stikkfrí“ í því sambandi.
Starfshópur um málefni utangarðsfólks skilar af sér tillögum í maí á þessu ári
Í desember 2018 skipaði Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, stýrihóp um málefni utangarðsfólks meðal annars vegna tillagna Velferðarvaktarinnar. Í skipunarbréfinu kemur fram hlutverk hópsins sé að skoða þær ábendingar, hugmyndir og tillögur sem borist hafa frá Umboðsmanni Alþingis, Velferðarvaktinni og Reykjavíkurborg varðandi málefni utangarðsfólks.
Þar á meðal tillögur um að koma upp dagdvöl, bæta aðgengi að meðferð við vímuefnavanda, fjölga áfangaheimilum, útvega atvinnutækifæri, hjúkrunarrými fyrir eldra utangarðsfólk, húsnæðisvanda utangarðsfólks og skoða leiðir til að bæta málsmeðferðartíma. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili tillögum til ráðherra í maí 2019.