Gunnar Bragi Sveinsson, varaformaður Miðflokksins, mun snúa aftur til þingstarfa í dag. Frá þessu greinir hann í tilkynningu. Hann segir að stundum sé ákvarðanir teknar fyrir menn. „Fremur óvænt – en samt ekki - blasir svarið við því hvenær rétt sé að snúa til baka. Fyrstu dagar þingfunda á nýju ári, og framganga forseta Alþingis að undanförnu, er með þeim hætti að annað er óhjákvæmilegt en að nýta sér allan rétt til þess að vera inni á þeim leikvelli þar sem að mér er sótt og svara fyrir mig á þeim vettvangi en ekki utan hans. Þess vegna mæti ég á nýjan leik til starfa minna á Alþingi í dag.“
Í tilkynningunni segir hann að í kjölfar „óviðeigandi og særandi orða og ólögmætrar upptöku á þeim þá tók ég þá ákvörðun að taka mér launalaust leyfi frá þingstörfum eftir að hlerunarmálið umtalaða komst í hámæli. Ég vildi skoða hug minn, safna kröftum og ræða síðan við bakland mitt. Ég iðrast og hef beðist fyrirgefningar á orðum mínum og geri það enn á ný.
Ég hef leitað ráðgjafar og um leið notið mikils skilnings og stuðnings ættingja, vina og félaga innan flokks og utan. Þakka ég þeim hvatninguna og traustið.“
Ástæða þess að Gunnar Bragi fór í leyfi er Klausturmálið svokallaða. Það snýst um það þegar samtöl fjögurra þingmanna Miðflokksins, þar með talin öll stjórn hans, og tveggja þingmanna Flokks fólksins voru tekin upp. Í samtölunum var fjölmörgum stjórnmálamönnum og ýmsum öðrum nafngreindum einstaklingum úthúðað með niðrandi orðalagi. Tveir þingmenn Miðflokksins, Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason, voru í kjölfarið sendir í leyfi en hinir tveir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Kolbrún Árnadóttir, sögðu fljótt að þeir ætlauðu ekki að segja af sér.
Hinir tveir þingmennirnir sem voru á Klaustri, Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason, voru reknir úr Flokki fólksins og sitja nú sem óháðir. Þeir ætla heldur ekki að segja af sér þingmennsku.
Bergþór ætlar líka að snúa til baka
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Kolbrún Árnadóttir, sögðu fljótt að þeir ætluðu ekki að segja af sér.
Bergþór Ólason greindi frá því í morgun að hann ætli að halda áfram að starfa sem þingmaður. Hann mun því snúa aftur til starfa innan tíðar. Þetta kom fram í grein sem hann skrifar í Morgunblaðið í dag.
Þar fór hann yfir Klausturmálið svokallaða og eftirmála þess. Bergþór sagði margt hafa komið illilega við sig í málinu. „Mér fannst vond þróun að legið væri á hleri þegar annað fólk talar saman á veitingahúsum. Mér fannst vont að fjölmiðlar teldu sjálfsagt að birta slíkt drykkjuraus opinberlega og eiginlega enn verra hversu margir voru ánægðir með hvorttveggja. En verst af öllu fannst mér að heyra í sjálfum mér.“