Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður Miðflokksins segir að hann sjái einna mest eftir því að hafa ekki látið Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra vita af því að hann hygðist snúa aftur á Alþingi í dag. Þetta kemur fram í frétt Vísis í dag.
Lilja vissi ekki af endurkomu Gunnars Braga og Bergþórs Ólasonar, þingmanna Miðflokksins, fyrr en hún sá þá í þingsal í morgun.
„Andrúmsloftið hefur oft verið erfitt á þingi síðan ég byrjaði fyrir um tíu árum síðan. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem er lágskýjað á Alþingi. Við hins vegar þurfum að vinna hér að ákveðnum málum, það er það sem við eigum að gera, við eigum að hafa okkur yfir það hvað okkur finnst um hvort annað. Ég get örugglega sagt það að það eru ekki allir þingmenn sem ég er sérstaklega hrifinn af hér, andstæðingar mínir, en ég ætla samt að vinna með þeim því það er okkar skylda,“ segir Gunnar Bragi í samtali við fréttastofu Stöðvar 2.
Gunnar Bragi og Bergþór tilkynntu í morgun að þeir myndu taka sæti á þingi og tóku þeir þátt í þingstörfum í dag. Meðal annars voru þeir viðstaddir óundirbúnar fyrirspurnir.
Lilja segir í samtali við RÚV í dag afar mikilvægt að þingstörf haldi áfram og þeir sem hlut eigi að máli í Klausturmálinu fari ekki með dágskrárvaldið þar.
Athygli vakti á Alþingi í morgun þegar Lilja stóð upp úr sæti sínu tvisvar, með tæplega tveggja mínútna millibili, og hvíslaði einhverju að Gunnari Braga. Skömmu seinna yfirgaf Lilja þingsalinn, eins og sjá má á myndbandi í frétt RÚV frá því fyrr í dag.
Í samtali við Stöð 2 vildi Gunnar Bragi ekki gefa upp hvað honum og Lilju fór á milli á þingfundinum en fyrr í dag hafði hún sagt við RÚV að skilaboð hennar til Gunnars Braga hefðu verið að hún væri ekki sátt við þessa framkomu.