Fórnarlambið Miðflokkurinn öskrar pólitískt samsæri

Auglýsing

Nú liggur fyrir að allir þeir sex þingmenn sem teknir voru upp á Klausturbar 20. nóvember 2018 við umræðu sem í fólst að atyrða með niðurlægjandi hætti meðal annars nafngreinda samþingmenn, konur, samkynhneigða og fatlaða munu halda áfram störfum sínum sem þingmenn. Umræðu þar sem hluti hópsins stærði sig af spilltum hrossakaupum með sendiherrastöður og augljós umræða átti sér stað um baktjaldamakk sem í átti að felast að ná tveimur þingmönnum Flokks fólksins yfir í Miðflokksskútuna.

Sömuleiðis liggja fyrir væntingar um að þingmaður Samfylkingar sem er í leyfi eftir að hafa sýnt af sér kynferðislega áreitni muni snúa aftur til starfa eftir mánaðamót. Að minnsta kosti hefur formaður flokksins gefið það út opinberlega að hann búist við honum aftur.

Ljóst má vera af þessum tíðindum, og þeim skýringum sem gefnar hafa verið fyrir endurkomunni, að umræddir einstaklingar telja sig mikilvægari en stofnunina sem þau voru kosin til að starfa á. Þetta er, að þeirra eigin mati, ómissandi fólk og heildarhagsmunir eins og trúverðugleiki stjórnmála eða boðlegar starfsaðstæður fólksins sem varð fyrir barðinu á þeim verða að víkja fyrir rétti þeirra til að starfa áfram í stjórnmálum.

Traustið horfið og augljóst af hverju

Í könnun sem Félagsvísindastofnun gerði 4. til 17. desember 2018 kom fram að 68 prósent landsmanna treysta Alþingi lítið eða ekkert. Þar kom líka fram að 65 prósent landsmanna töldu að margir eða nánast allir stjórnmálamenn væru spilltir.

Auglýsing
Þá sagði að 62 prósent landsmanna myndi telja að það myndi auka traust þeirra til Alþingis mikið ef meira væri um afsagnir þingmanna í kjölfar mistaka. Engin ein ástæða er meira ráð­andi í traust­leysi á Alþingi í dag en sú að þing­menn segi ekki af sér þegar þeir verða upp­vísir af mis­tök­um. Sú ástæða sem er í öðru sæti er að þingmenn sýni hver öðrum meiri virðingu. Alls segja 57 prósent landsmanna að það myndi auka traust þeirra til Alþingis.

Þá var gerð könnun sem sýndi 74-91 prósent landsmanna töldu að sexmenningarnir á Klaustri ættu að segja af sér. Flestir, eða 91 prósent, töldu að Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins ætti að gera það, 90 prósent töldu að félagi hans Bergþór Ólason ætti að segja af sér og 86 prósent að formaðurinn þeirra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, ætti að víkja.

Eitraðar starfsaðstæður

Varla er til sá einstaklingur sem getur haldið því fram að orðræðan og viðhorfin sem birtust á upptökunum af Klausturbar feli í sér virðingu fyrir öðrum þingmönnum. Og afleiðingar þeirra á þá sem urðu fyrir barðinu á orðum Miðflokksmanna sérstaklega hafa auðvitað komið fram. Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sagði í viðtali við Kastljós 5. desember að tal um hana hafi verið „algjört ofbeldi“ og að hún hefði orðið fyrir „stórkostlegri árás“. Hún sagði að sér hafi þótt óþægilegt að sjá andlitið á Bergþóri Ólasyni, þingmanni Miðflokksins, sem hafði viðhaft klámfengin ummæli um hana, á samfélagsmiðlum eftir að upptökurnar voru gerðar opinberar. Að mati Lilju hafi trúnaðarbrestur átt sér stað milli þingmannnanna, þjóðarinnar og þingsins.

Annað fórnarlamb orðræðunnar á Klausturbar var Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason sögðu meiðandi sögur um hana. Atburðirnir hafa augljóslega haft mikil áhrif á Albertínu.

Þessar konur þurfa nú að starfa áfram með þeim mönnum sem viðhöfðu þetta andlega ofbeldi í þeirra garð. Lilja þarf til að mynda að svara óundirbúnum fyrirspurnum þeirra. Þær sitja uppi með afleiðingar gjörða þeirra. Og þjóðin situr uppi með það að vera þeirra á þingi rýrir traust á mikilvægustu stofnun lýðveldisins. Setur allt starf hennar niður.

Pólitískt samsæri

Því var spáð á þessum vettvangi, í leiðara sem birtist 6. desember 2018, að þegar fjarlægð myndi skapast frá atburðunum á Klaustri, og opinberunar á þeirri orðræðu sem þar var viðhöfð og þeim viðhorfum sem þátttakendur virðast hafa, myndi Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og lærisveinar hans frekar draga stjórnmálin niður í sitt svað frekar en að stíga til hliðar og gefa þeim tækifæri til að batna. Þeir myndu forherðast og benda á sökudólga allstaðar í kringum sig.

Það hefur gengið að öllu leyti eftir. Fyrstu yfirlýsingar Sigmundar Davíðs gengu út á að ýja að því að aðrir væru í raun miklu verri enn hann og hefðu sagt ljótari hluti. Hann nefndi þó engin dæmi, og hefur ekki nefnt nein slík síðan. Tilgangurinn var að reyna að gera málið almennt frekar en sértækt.

Næstu skref voru að gera pólitískan samsærismann úr Báru Halldórsdóttur, 42 ára hinsegin konu og öryrkja, sem tók upp samtöl þeirra á Klaustri. Miðflokksmennirnir fjórir réðu sér lögmann sem lagði kröfu fyrir domstóla um að gagnaöflunarvitnaleiðslur yrðu framkvæmdar fyrir dómi vegna hugsanlegrar málsóknar á hendur henni. Kröfunni var hafnað á tveimur dómstigum.

Auglýsing
Miðflokkurinn setti einnig fram ásakanir um að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd væri misnotuð í pólitískum tilgangi og neituðu að mæta fyrir hana til að ræða tal sitt um meint pólitísk hrossakaup við skipun sendiherra. Gunnar Bragi sagði síðar í yfirlýsingu að boðað hafi verið til fundar nefndarinnar í „annarlegum tilgangi“.

Um miðjan desember birtist pistill á heimasíðu Sigmundar Davíðs þar sem gefið var í skyn að fjöl­miðlar og stjórn­mála­menn hefðu farið öðru­vísi með Klaust­ur­upp­tök­urnar svoköll­uðu ef þeir sem teknir væru upp væru úr vinstri­flokk­um. Þar var klifað á því hversu ólöglegar upptökurnar af Klausturssamtalinu hafi verið, að flokkspólitískt skipulag lægi á bak við upptöku Báru Halldórsdóttur á drykkjutalinu á Klaustri og gefið í skyn að viðtalið við Lilju D. Alfreðsdóttur í Kastljósi hafi verið sýning „sem er enn betur æfð en upp­setn­ing Leik­fé­lags Garða­bæj­ar. Sýn­ingin er þó ekki und­ir­búin af leik­stjóra heldur PR-­mönnum og snýst um að koma út til­heyr­andi frösum og stikkorð­um.“

Allt gekk þetta út á að hér væri verið að fremja stórkostlegt pólitískt samsæri gagnvart heiðarlegum, og eiginlega stórkostlegum, stjórnmálamönnum sem hefðu ekki til annarra saka unnið en að atyrða fjölda fólks og hreykja sér að pólitískri spillingu í opinberu rými haldandi að enginn væri að hlusta á þá.

Það væru bara eitt sett af fórnarlömbum í þessu máli: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Miðflokkurinn.

Fyrirsjáanleg leikjafræði

Í Kryddsíld Stöðvar 2 á gamlársdag opinberaðist svo sú leikjafræði Miðflokksmanna sem þeir ætluðu að nýta sér í þeirri stöðu sem upp var komin. Þeir eru búnir að finna þann einstakling sem er hinn raunverulegi gerandi í þessu máli. Sá einstaklingur er uppáhaldsandstæðingur þeirra frá Icesave- og Leiðréttingarárunum, Steingrímur J. Sigfússon, nú forseti Alþingis. Hinn fullkomni strámaður er auðvitað landráðamaðurinn sem ætlaði að selja íslensku þjóðina í skuldafangelsi og hirti öll heimilin af íslensku þjóðinni til að færa erlendum kröfuhöfum bankana.

Í þættinum talaði Sigmundur Davið opinskátt um að meðferð forsætisnefndar, sem vill að Klaustursmálið verði fyrsta málið í sögunni sem vísað verður til siðanefndar Alþingis, væru „pólitísk réttarhöld“ þar sem Steingrímur ætlaði sér sjálfur að vera í dómarasæti. Steingrímur hefur síðar, ásamt allri forsætisnefnd, lýst sig vanhæfan til að taka ákvörðun í málinu og tveir nýir varaforsetar hafa verið skipaðir til að taka hana.

Viðspyrnan hófst svo fyrir alvöru á mánudag, þegar Sigmundur Davíð birti grein í Morgunblaðinu. Þar endurtók hann ásakanir um pólitísk réttarhöld og sagði Steingrím vera að hefna sín á sér persónulega.

Hann sagði ­jafn­fram­t að þing­menn­irnir sex í Klaust­ur­mál­inu hafi nú þegar tekið út íþyngj­andi refs­ingu vegna máls­ins. „Fyrir atvikið hafa þeir enda liðið sál­arkvalir og þegar þolað grimmi­legri refs­ingu en nokkur dóm­stóll myndi telja við­eig­andi.“ Auk þess væru upptökurnar vitanlega ólögmætar.

Degi síðar mætti hann í viðtal á sinn helsta fjölmiðlavettvang, Bítið á Bylgjunni, og sagði forseta Alþingis ranglega vera að brjóta þingskapalög með því að skipa nýja forsætisnefnd. Viðhorf Steingríms í sinn garð væru vel þekk og hann teldi að póli­tík, popúlismi og per­sónu­leg óvild ­Stein­gríms væru ástæða þess að for­seti þings­ins noti nú aðstöðu sína til að fara í prí­vat her­ferð ­gegn Sig­mund­i.

Snúa aftur og sýna sitt rétta andlit

Þingstörf hófust af alvöru í vikunni. Í morgun birtist grein eftir Bergþór Ólason þar sem hann boðaði endurkomu sína. Þar sagðist hann miður sín yfir mörgu sem hann sagði en að sér þætti það líka „vond þróun að legið væri á hleri þegar annað fólk talar saman á veit­inga­hús­um. Mér fannst vont að fjöl­miðlar teldu sjálf­sagt að birta slíkt drykkju­raus opin­ber­lega og eig­in­lega enn verra hversu margir voru ánægðir með hvorttveggja.“ Hann sagðist ekki erfa það við aðra þingmenn ef þeir vildu ekki eiga samstarf við hann.

Auglýsing
Gunnar Bragi fylgdi í kjölfarið með mun herskárri tilkynningu um endurkomu. Stundum væri ákvarðanir einfaldlega teknar fyrir menn. „Fremur óvænt – en samt ekki - blasir svarið við því hvenær rétt sé að snúa til baka. Fyrstu dagar þing­funda á nýju ári, og fram­ganga for­seta Alþingis að und­an­förnu, er með þeim hætti að annað er óhjá­kvæmi­legt en að nýta sér allan rétt til þess að vera inni á þeim leik­velli þar sem að mér er sótt og svara fyrir mig á þeim vett­vangi en ekki utan hans. Þess vegna mæti ég á nýjan leik til starfa minna á Alþingi í dag.“

Hinir brottviknu þingmenn Flokks fólksins, Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason, hafa tekið virkan þátt í þessum leik. Og við blasir að þeir eru andlega þegar gengir í Miðflokkinn, þótt formleg félagaskipti úr óhæði eigi enn eftir að tilkynnast.

Pólitísk einangrun

Allt var þetta frekar viðbúið. Miðflokkurinn hefur málað sig pólitískt langt út í horn og á ekki sýnilega endurkomu, þótt ekkert megi auðvitað útiloka í landlægri tækifærismennsku íslenskra stjórnmála.

Fylgi flokksins er hrunið og Framsóknarflokkurinn hefur náð tilbaka stórum hluta þess fylgis sem fór frá honum með Sigmundi Davíð haustið 2017. Stór könnun Gallup í byrjun árs sýndi að fylgi Miðflokksins myndi helmingast frá því sem það var í síðustu kosningum ef kosið yrði í dag. Þingmannafjöldi hans færi úr sjö í þrjá og formaðurinn sjálfur, það sem flokkurinn snýst um, næði ekki inn sem kjördæmakjörinn.

Þá blasir við að enginn flokkur, utan mögulega Sjálfstæðisflokksins, mun starfa með Miðflokknum í meirihluta. Sú draumsýn íhaldsmanna að hægt yrði að friðþægja Framsóknarflokkinn í slíkt samstarf, með því að koma Sigurði Inga Jóhannssyni úr embætti formanns og láta varaformanninn Lilju taka við, varð að engu með ummælunum um hana á Klaustri í nóvember.

Flokkur fólksins hefur nú bæst við hóp hinna stjórnarandstöðuflokkanna sem telja Miðflokkinn svo geislavirkan að þeir munu ekki einu sinni vinna með honum í stjórnarandstöðu, hvað þá mynda stjórn með honum. Flokkurinn er orðinn pólitískt úrhrak. Og hann veit það.

Forherðing í kortunum

Sigmundi Davíð hefur áður tekist að snúa til baka úr slíkri stöðu og sýnt að hann getur verið klókur popúlisti með því að lofa tilkomumiklum og einföldum lausnum á flóknum vandamálum.

Sigmundur Davíð hefur líka lært mjög vel að nýta sér hræðsluáróður til að auka fylgi og að viðurkenna aldrei mistök heldur öskra samsæri annarra gegn sér, yfirburðamanninum, þegar hann þó augljóslega gerir slík. Hann, og framlína Miðflokksins.

Sigmundi Davíð er bersýnilega alveg sama hvort hann segi satt og leggur lítið upp úr því að undirbyggja það sem hann segir með vísun í staðreyndir, á sama tíma og hann segist iðka „róttæka skynsemishyggju“.

Leiðin upp úr holunni verður auðvitað erfiðari með hverju skiptinu sem Sigmundur Davíð, og fylgitungl hans, detta ofan í hana. Afleiðing þess er að pólitíkin verður á sama tíma ljótari og forhertari.

Þeir hafa engu að tapa. Nema auðvitað trúverðugleika íslenskra stjórnmála og Alþingis.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari