Fórnarlambið Miðflokkurinn öskrar pólitískt samsæri

Auglýsing

Nú liggur fyrir að allir þeir sex þing­menn sem teknir voru upp á Klaust­ur­bar 20. nóv­em­ber 2018 við umræðu sem í fólst að atyrða með nið­ur­lægj­andi hætti meðal ann­ars nafn­greinda sam­þing­menn, kon­ur, sam­kyn­hneigða og fatl­aða munu halda áfram störfum sínum sem þing­menn. Umræðu þar sem hluti hóps­ins stærði sig af spilltum hrossa­kaupum með sendi­herra­stöður og aug­ljós umræða átti sér stað um bak­tjalda­makk sem í átti að fel­ast að ná tveimur þing­mönnum Flokks fólks­ins yfir í Mið­flokks­skút­una.

Sömu­leiðis liggja fyrir vænt­ingar um að þing­maður Sam­fylk­ingar sem er í leyfi eftir að hafa sýnt af sér kyn­ferð­is­lega áreitni muni snúa aftur til starfa eftir mán­aða­mót. Að minnsta kosti hefur for­maður flokks­ins gefið það út opin­ber­lega að hann búist við honum aft­ur.

Ljóst má vera af þessum tíð­ind­um, og þeim skýr­ingum sem gefnar hafa verið fyrir end­ur­kom­unni, að umræddir ein­stak­lingar telja sig mik­il­væg­ari en stofn­un­ina sem þau voru kosin til að starfa á. Þetta er, að þeirra eigin mati, ómissandi fólk og heild­ar­hags­munir eins og trú­verð­ug­leiki stjórn­mála eða boð­legar starfs­að­stæður fólks­ins sem varð fyrir barð­inu á þeim verða að víkja fyrir rétti þeirra til að starfa áfram í stjórn­mál­um.

Traustið horfið og aug­ljóst af hverju

Í könnun sem Félags­vís­inda­stofnun gerði 4. til 17. des­em­ber 2018 kom fram að 68 pró­sent lands­manna treysta Alþingi lítið eða ekk­ert. Þar kom líka fram að 65 pró­sent lands­manna töldu að margir eða nán­ast allir stjórn­mála­menn væru spillt­ir.

Auglýsing
Þá sagði að 62 pró­sent lands­manna myndi telja að það myndi auka traust þeirra til Alþingis mikið ef meira væri um afsagnir þing­manna í kjöl­far mis­taka. Engin ein ástæða er meira ráð­andi í traust­­leysi á Alþingi í dag en sú að þing­­menn segi ekki af sér þegar þeir verða upp­­­vísir af mis­­tök­­um. Sú ástæða sem er í öðru sæti er að þing­menn sýni hver öðrum meiri virð­ingu. Alls segja 57 pró­sent lands­manna að það myndi auka traust þeirra til Alþing­is.

Þá var gerð könnun sem sýndi 74-91 pró­sent lands­manna töldu að sex­menn­ing­arnir á Klaustri ættu að segja af sér. Flest­ir, eða 91 pró­sent, töldu að Gunnar Bragi Sveins­son, þing­maður Mið­flokks­ins ætti að gera það, 90 pró­sent töldu að félagi hans Berg­þór Óla­son ætti að segja af sér og 86 pró­sent að for­mað­ur­inn þeirra, Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, ætti að víkja.

Eitr­aðar starfs­að­stæður

Varla er til sá ein­stak­lingur sem getur haldið því fram að orð­ræðan og við­horfin sem birt­ust á upp­tök­unum af Klaust­ur­bar feli í sér virð­ingu fyrir öðrum þing­mönn­um. Og afleið­ingar þeirra á þá sem urðu fyrir barð­inu á orðum Mið­flokks­manna sér­stak­lega hafa auð­vitað komið fram. Lilja D. Alfreðs­dótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­mála­ráð­herra, sagði í við­tali við Kast­ljós 5. des­em­ber að tal um hana hafi verið „al­gjört ofbeldi“ og að hún hefði orðið fyrir „stór­kost­legri árás“. Hún sagði að sér hafi þótt óþægi­legt að sjá and­litið á Berg­þóri Óla­syni, þing­manni Mið­flokks­ins, sem hafði við­haft klám­fengin ummæli um hana, á sam­fé­lags­miðlum eftir að upp­tök­urnar voru gerðar opin­ber­ar. Að mati Lilju hafi trún­að­ar­brestur átt sér stað milli þing­mann­nanna, þjóð­ar­innar og þings­ins.

Annað fórn­ar­lamb orð­ræð­unnar á Klaust­ur­bar var Albertína Frið­björg Elí­as­dótt­ir, þing­maður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. Gunnar Bragi Sveins­son og Berg­þór Óla­son sögðu meið­andi sögur um hana. Atburð­irnir hafa aug­ljós­lega haft mikil áhrif á Albertínu.

Þessar konur þurfa nú að starfa áfram með þeim mönnum sem við­höfðu þetta and­lega ofbeldi í þeirra garð. Lilja þarf til að mynda að svara óund­ir­búnum fyr­ir­spurnum þeirra. Þær sitja uppi með afleið­ingar gjörða þeirra. Og þjóðin situr uppi með það að vera þeirra á þingi rýrir traust á mik­il­væg­ustu stofnun lýð­veld­is­ins. Setur allt starf hennar nið­ur.

Póli­tískt sam­særi

Því var spáð á þessum vett­vangi, í leið­ara sem birt­ist 6. des­em­ber 2018, að þegar fjar­lægð myndi skap­ast frá atburð­unum á Klaustri, og opin­ber­unar á þeirri orð­ræðu sem þar var við­höfð og þeim við­horfum sem þátt­tak­endur virð­ast hafa, myndi Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son og læri­sveinar hans frekar draga stjórn­málin niður í sitt svað frekar en að stíga til hliðar og gefa þeim tæki­færi til að batna. Þeir myndu for­herð­ast og benda á söku­dólga all­staðar í kringum sig.

Það hefur gengið að öllu leyti eft­ir. Fyrstu yfir­lýs­ingar Sig­mundar Dav­íðs gengu út á að ýja að því að aðrir væru í raun miklu verri enn hann og hefðu sagt ljót­ari hluti. Hann nefndi þó engin dæmi, og hefur ekki nefnt nein slík síð­an. Til­gang­ur­inn var að reyna að gera málið almennt frekar en sér­tækt.

Næstu skref voru að gera póli­tískan sam­sær­is­mann úr Báru Hall­dórs­dótt­ur, 42 ára hinsegin konu og öryrkja, sem tók upp sam­töl þeirra á Klaustri. Mið­flokks­menn­irnir fjórir réðu sér lög­mann sem lagði kröfu fyrir dom­stóla um að gagna­öfl­un­ar­vitna­leiðslur yrðu fram­kvæmdar fyrir dómi vegna hugs­an­legrar mál­sóknar á hendur henni. Kröf­unni var hafnað á tveimur dóm­stig­um.

Auglýsing
Miðflokkurinn setti einnig fram ásak­anir um að stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd væri mis­notuð í póli­tískum til­gangi og neit­uðu að mæta fyrir hana til að ræða tal sitt um meint póli­tísk hrossa­kaup við skipun sendi­herra. Gunnar Bragi sagði síðar í yfir­lýs­ingu að boðað hafi verið til fundar nefnd­ar­innar í „ann­ar­legum til­gang­i“.

Um miðjan des­em­ber birt­ist pist­ill á heima­síðu Sig­mundar Dav­íðs þar sem gefið var í skyn að fjöl­miðlar og stjórn­­­mála­­menn hefðu farið öðru­­vísi með Klaust­­ur­­upp­­tök­­urnar svoköll­uðu ef þeir sem teknir væru upp væru úr vinstri­­flokk­­um. Þar var klifað á því hversu ólög­legar upp­tök­urnar af Klaust­urs­sam­tal­inu hafi ver­ið, að flokkspóli­tískt skipu­lag lægi á bak við upp­töku Báru Hall­dórs­dóttur á drykkju­tal­inu á Klaustri og gefið í skyn að við­talið við Lilju D. Alfreðs­dóttur í Kast­ljósi hafi verið sýn­ing „sem er enn betur æfð en upp­­­setn­ing Leik­­fé­lags Garða­bæj­­­ar. Sýn­ingin er þó ekki und­ir­­búin af leik­­stjóra heldur PR-­­mönnum og snýst um að koma út til­­heyr­andi frösum og stikkorð­­um.“

Allt gekk þetta út á að hér væri verið að fremja stór­kost­legt póli­tískt sam­særi gagn­vart heið­ar­leg­um, og eig­in­lega stór­kost­leg­um, stjórn­mála­mönnum sem hefðu ekki til ann­arra saka unnið en að atyrða fjölda fólks og hreykja sér að póli­tískri spill­ingu í opin­beru rými hald­andi að eng­inn væri að hlusta á þá.

Það væru bara eitt sett af fórn­ar­lömbum í þessu máli: Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son og Mið­flokk­ur­inn.

Fyr­ir­sjá­an­leg leikja­fræði

Í Krydd­síld Stöðvar 2 á gaml­árs­dag opin­ber­að­ist svo sú leikja­fræði Mið­flokks­manna sem þeir ætl­uðu að nýta sér í þeirri stöðu sem upp var kom­in. Þeir eru búnir að finna þann ein­stak­ling sem er hinn raun­veru­legi ger­andi í þessu máli. Sá ein­stak­lingur er upp­á­halds­and­stæð­ingur þeirra frá Ices­a­ve- og Leið­rétt­ing­ar­ár­un­um, Stein­grímur J. Sig­fús­son, nú for­seti Alþing­is. Hinn full­komni strá­maður er auð­vitað land­ráða­mað­ur­inn sem ætl­aði að selja íslensku þjóð­ina í skulda­fang­elsi og hirti öll heim­ilin af íslensku þjóð­inni til að færa erlendum kröfu­höfum bank­ana.

Í þætt­inum tal­aði Sig­mundur Davið opin­skátt um að með­ferð for­sætis­nefnd­ar, sem vill að Klaust­urs­málið verði fyrsta málið í sög­unni sem vísað verður til siða­nefndar Alþing­is, væru „póli­tísk rétt­ar­höld“ þar sem Stein­grímur ætl­aði sér sjálfur að vera í dóm­ara­sæti. Stein­grímur hefur síð­ar, ásamt allri for­sætis­nefnd, lýst sig van­hæfan til að taka ákvörðun í mál­inu og tveir nýir vara­for­setar hafa verið skip­aðir til að taka hana.

Við­spyrnan hófst svo fyrir alvöru á mánu­dag, þegar Sig­mundur Davíð birti grein í Morg­un­blað­inu. Þar end­ur­tók hann ásak­anir um póli­tísk rétt­ar­höld og sagði Stein­grím vera að hefna sín á sér per­sónu­lega.

Hann sagði ­jafn­­fram­t að þing­­menn­irnir sex í Klaust­­ur­­mál­inu hafi nú þegar tekið út íþyngj­andi refs­ingu vegna máls­ins. „Fyrir atvikið hafa þeir enda liðið sál­­arkvalir og þegar þolað grimmi­­legri refs­ingu en nokkur dóm­­stóll myndi telja við­eig­and­i.“ Auk þess væru upp­tök­urnar vit­an­lega ólög­mæt­ar.

Degi síðar mætti hann í við­tal á sinn helsta fjöl­miðla­vett­vang, Bítið á Bylgj­unni, og sagði for­seta Alþingis rang­lega vera að brjóta þing­skap­a­lög með því að skipa nýja for­sætis­nefnd. Við­horf Stein­gríms í sinn garð væru vel þekk og hann teldi að póli­­tík, popúl­ismi og per­­són­u­­leg óvild ­Stein­gríms væru ástæða þess að for­­seti þings­ins noti nú aðstöðu sína til að fara í prí­vat her­­ferð ­gegn Sig­­mund­i.

Snúa aftur og sýna sitt rétta and­lit

Þing­störf hófust af alvöru í vik­unni. Í morgun birt­ist grein eftir Berg­þór Óla­son þar sem hann boð­aði end­ur­komu sína. Þar sagð­ist hann miður sín yfir mörgu sem hann sagði en að sér þætti það líka „vond þróun að legið væri á hleri þegar annað fólk talar saman á veit­inga­hús­­um. Mér fannst vont að fjöl­miðlar teldu sjálf­­sagt að birta slíkt drykkju­raus opin­ber­­lega og eig­in­­lega enn verra hversu margir voru ánægðir með hvorttveggja.“ Hann sagð­ist ekki erfa það við aðra þing­menn ef þeir vildu ekki eiga sam­starf við hann.

Auglýsing
Gunnar Bragi fylgdi í kjöl­farið með mun her­skárri til­kynn­ingu um end­ur­komu. Stundum væri ákvarð­anir ein­fald­lega teknar fyrir menn. „Fremur óvænt – en samt ekki - blasir svarið við því hvenær rétt sé að snúa til baka. Fyrstu dagar þing­funda á nýju ári, og fram­­ganga for­­seta Alþingis að und­an­­förnu, er með þeim hætti að annað er óhjá­­kvæmi­­legt en að nýta sér allan rétt til þess að vera inni á þeim leik­velli þar sem að mér er sótt og svara fyrir mig á þeim vett­vangi en ekki utan hans. Þess vegna mæti ég á nýjan leik til starfa minna á Alþingi í dag.“

Hinir brott­viknu þing­menn Flokks fólks­ins, Ólafur Ísleifs­son og Karl Gauti Hjalta­son, hafa tekið virkan þátt í þessum leik. Og við blasir að þeir eru and­lega þegar gengir í Mið­flokk­inn, þótt form­leg félaga­skipti úr óhæði eigi enn eftir að til­kynn­ast.

Póli­tísk ein­angrun

Allt var þetta frekar við­bú­ið. Mið­flokk­ur­inn hefur málað sig póli­tískt langt út í horn og á ekki sýni­lega end­ur­komu, þótt ekk­ert megi auð­vitað úti­loka í land­lægri tæki­fær­is­mennsku íslenskra stjórn­mála.

Fylgi flokks­ins er hrunið og Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn hefur náð til­baka stórum hluta þess fylgis sem fór frá honum með Sig­mundi Davíð haustið 2017. Stór könnun Gallup í byrjun árs sýndi að fylgi Mið­flokks­ins myndi helm­ing­ast frá því sem það var í síð­ustu kosn­ingum ef kosið yrði í dag. Þing­manna­fjöldi hans færi úr sjö í þrjá og for­mað­ur­inn sjálf­ur, það sem flokk­ur­inn snýst um, næði ekki inn sem kjör­dæma­kjör­inn.

Þá blasir við að eng­inn flokk­ur, utan mögu­lega Sjálf­stæð­is­flokks­ins, mun starfa með Mið­flokknum í meiri­hluta. Sú draum­sýn íhalds­manna að hægt yrði að frið­þægja Fram­sókn­ar­flokk­inn í slíkt sam­starf, með því að koma Sig­urði Inga Jóhanns­syni úr emb­ætti for­manns og láta vara­for­mann­inn Lilju taka við, varð að engu með ummæl­unum um hana á Klaustri í nóv­em­ber.

Flokkur fólks­ins hefur nú bæst við hóp hinna stjórn­ar­and­stöðu­flokk­anna sem telja Mið­flokk­inn svo geisla­virkan að þeir munu ekki einu sinni vinna með honum í stjórn­ar­and­stöðu, hvað þá mynda stjórn með hon­um. Flokk­ur­inn er orð­inn póli­tískt úrhrak. Og hann veit það.

For­herð­ing í kort­unum

Sig­mundi Davíð hefur áður tek­ist að snúa til baka úr slíkri stöðu og sýnt að hann getur verið klókur popúlisti með því að lofa til­komu­miklum og ein­földum lausnum á flóknum vanda­mál­um.

Sig­mundur Davíð hefur líka lært mjög vel að nýta sér hræðslu­á­róður til að auka fylgi og að við­ur­kenna aldrei mis­tök heldur öskra sam­særi ann­arra gegn sér, yfir­burða­mann­in­um, þegar hann þó aug­ljós­lega gerir slík. Hann, og fram­lína Mið­flokks­ins.

Sig­mundi Davíð er ber­sýni­lega alveg sama hvort hann segi satt og leggur lítið upp úr því að und­ir­byggja það sem hann segir með vísun í stað­reynd­ir, á sama tíma og hann seg­ist iðka „rót­tæka skyn­sem­is­hyggju“.

Leiðin upp úr hol­unni verður auð­vitað erf­ið­ari með hverju skipt­inu sem Sig­mundur Dav­íð, og fylgitungl hans, detta ofan í hana. Afleið­ing þess er að póli­tíkin verður á sama tíma ljót­ari og for­hert­ari.

Þeir hafa engu að tapa. Nema auð­vitað trú­verð­ug­leika íslenskra stjórn­mála og Alþing­is.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Úlfar Þormóðsson
Uppvakningar
Kjarninn 25. júní 2022
Ingrid Kuhlman
Að hlakka til einhvers er næstum jafn gott og að upplifa það
Kjarninn 25. júní 2022
Niðurhal Íslendinga stóreykst milli ára
Íslendingar notuðu 25 prósent meira gagnamagn á farsímaneti í fyrra en árið áður og 21 prósent meira gagnamagn í gegnum fastanet. Tæplega 76 prósent notenda á fastaneti eru nú með ljósleiðaratengingu, en þeir voru þriðjungur 2016.
Kjarninn 25. júní 2022
Af kosningavöku Framsóknarflokksins í fyrrahaust.
Framsókn hirti kjósendur í stórum stíl frá hinum stjórnarflokkunum og Miðflokki
Fylgisaukning Framsóknar í síðustu kosningum var tekin frá samstarfsflokkunum í ríkisstjórn og klofningsflokki. Átta hverjum tíu kjósendum Sjálfstæðisflokks voru úr kjarnafylginu. Framboð Sósíalista hafði neikvæð áhrif á fylgi Vinstri græna og Pírata.
Kjarninn 25. júní 2022
Hraðtíska nær nýjum hæðum með tilkomu tískurisans Shein
Kínverska fatafyrirtækið Shein hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum og er í dag eitt stærsta tískuvörufyrirtæki í heimi. Umhverfissinnar benda á að fötin séu úr svo litlum gæðum að oft séu þau aðeins notuð í eitt skipti áður en þau enda í ruslinu.
Kjarninn 25. júní 2022
Auður Önnu Magnúsdóttir
Af hverju nýta Íslendingar raforkuna sína svo illa?
Kjarninn 25. júní 2022
Sjö molar um seðlabankavexti úti í heimi
Verðbólga veldur því að vaxtalækkanir faraldursins eru að ganga til baka, víðar en hér á Íslandi. Kjarninn tók saman nokkra fróðleiksmola um þróun mála í ríkjum bæði nær og fjær.
Kjarninn 25. júní 2022
Flokkur Sigurðar Inga Jóhannssonar andar ofan í hálsmál flokks Bjarna Benediktssonar samkvæmt síðustu könnunum.
Framsókn mælist næstum jafn stór og Sjálfstæðisflokkurinn
Stjórnarflokkarnir hafa tapað umtalsverðu fylgi á kjörtímabilinu. Sjálfstæðisflokkurinn nær mun verr til fólks undir fertugu en annarra á meðan að Framsókn nýtur mikilla vinsælda þar. Vinstri græn mælast með þriðjungi minna fylgi en í síðustu kosningum.
Kjarninn 24. júní 2022
Meira úr sama flokkiLeiðari