Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, vissi ekki af endurkomu Gunnars Braga Sveinssonar og Bergþórs Ólasonar, þingmanna Miðflokksins, fyrr en hún sá þá í þingsal í morgun. Þetta kom fram í útvarpsfréttum RÚV í dag.
Gunnar Bragi og Bergþór tilkynntu í morgun að þeir myndu taka sæti á þingi og tóku þeir þátt í þingstörfum í dag. Meðal annars voru þeir viðstaddir óundirbúnar fyrirspurnir.
Lilja segir í samtali við RÚV afar mikilvægt að þingstörf haldi áfram og þeir sem hlut eigi að máli í Klausturmálinu fari ekki með dágskrárvaldið þar.
Athygli vakti á Alþingi í morgun þegar Lilja stóð upp úr sæti sínu tvisvar, með tæplega tveggja mínútna millibili, og hvíslaði einhverju að Gunnari Braga. Skömmu seinna yfirgaf Lilja þingsalinn, eins og sjá má á myndbandi í frétt RÚV frá því fyrr í dag.
Í samtali við RÚV í dag segir hún að skilaboð hennar til Gunnars Braga hefðu verið að hún væri ekki sátt við þessa framkomu. „Það sem ég segi er að það sé mikilvægt að störf þingsins haldi áfram.“
Þegar hún var spurð hvort störf þingsins getu haldið áfram þá segir hún: „Fyrir mitt leyti er brýnt að fólk standi með sjálfu sér. Ég veit hvernig mér líður með þetta mál og ég segi bara enn og aftur: „Þeir eiga ekki að hafa dagskrárvaldið í þessu samfélagi.““
Bergþór og Gunnar Bragi viku báðir sæti á Alþingi eftir að birtar voru upptökur af samræðum þeirra á Klausturbar þann 20. nóvember síðastliðinn. Í samtalinu viðhöfðu þeir niðrandi ummæli um Lilju.
Hún sagðist í Kastljósviðtali í byrjun desember upplifa samtal Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Gunnars Braga Sveinssonar og Bergþórs Ólasonar um hana sem árás. „Ég upplifi þetta sem algjört ofbeldi. Þeir eru ofbeldismenn. Ég segi bara að þetta er alveg skýrt í mínum huga. Ofbeldismenn hafa ekki dagskrárvald í íslensku samfélagi,“ sagði hún.