Oddný Harðardóttir, þingmaður og formaður þingflokks Samfylkingarinnar, segir í stöðuuppfærslu á Facebook í dag að Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna og nefndarmaður umhverfis- og samgöngunefnd, sé ekki talsmaður minnihlutans á Alþingi, ekki frekar en ógreiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslum. „Samkomulag um formennsku í nefndum var um að stjórnarandstaðan fengi þrjá formenn og við ákváðum að stærsti fengi að velja fyrstu nefndina og svo koll af kolli,“ segir Oddný á Facebook.
Í frétt Fréttablaðsins í morgun kom fram að fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sem sitja í umhverfis- og samgöngunefnd hefðu lýst því yfir að þau vildu ekki að Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, yrði áfram formaður nefndarinnar.
Oddný segir aftur á móti að flokkarnir ráði því algjörlega sjálfir hvaða þingmenn séu valdir í formannssætið. Það sé því Miðflokkurinn sem ræður því hver sé formaður í umhverfis- og samgöngunefnd. Hinn valkosturinn sé að rifta samkomulaginu og þá sé allt undir og allir flokkar þurfi að setjast niður og finna aðra umgjörð um störf þingsins.
Ari Trausti er ekki talsmaður minnihlutans á Alþingi (ekki frekar en ógreiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslum)....
Posted by Oddný Harðardóttir on Thursday, January 24, 2019
Sagði fulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar og VG ekki vilja hafa Bergþór áfram sem formann
Á þingflokksformannafundi síðdegis í gær voru málefni þingsins og vinnufriður rædd. Meðal þess sem rætt var á fundinum voru málefni umhverfis- og samgöngunefndar en Bergþór er formaður nefndarinnar. Ari Trausti sagði í samtali við Fréttablaðið í dag að Bergþóri væri ljóst að hann hafi ekki stuðning til áframhaldandi setu sem formaður í nefndinni.
„Bergþór kemur og hefur rétt til að ganga inn í nefndina og rétt til að taka sitt sæti sem hann hafði. Við getum ekki sagt nei. Málið er að hann er þarna samkvæmt samkomulagi minnihlutaflokkanna,“ sagði Ari Trausti.
Hann sagði það vera staðreynd að stjórnarandstaðan hefði fengið þrjá formannsstóla í nefndir þingsins og raðað þar niður eftir þingstyrk. „Þau fengu þrjá formenn nefnda eftir ákveðnu samkomulagi og því er það þeirra að leysa þetta mál og nú hefur bæði fulltrúi Viðreisnar og Samfylkingar og einnig fulltrúi Vinstri grænna lýst yfir að þau vilji ekki að hann leiði þetta áfram og það er honum alveg ljóst,“ sagði Ari Trausti.
Smári McCarthy, þingmaður Pírata, segir í athugasemd við færslu Oddnýjar að Ari Trausti virðist hafa augastað á sérstökum verðlaunum fyrir hrútskýringar í næstu þingveislu.
Í takt við aðra upplifun af starfsháttum meirihluta nefndarinnar í vetur
Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar og þingflokksformaður flokksins, fjallar einnig um málið í stöðuuppfærslu á Facebook í morgun en þar segir hún að Ari Trausti sé ekki sérskipaður talsmaður hennar eða annarra þingmanna Viðreisnar.
„Sem fulltrúi í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, kann ég honum litlar þakkir fyrir að þykjast þess umkominn að túlka skoðanir mínar og fyrirætlan í fjölmiðlum. Ég verð þó því miður að segja að þetta er í takt við aðra upplifun mína af starfsháttum meirihluta nefndarinnar í vetur,“ segir hún.
Hún bætir því við að mál sem varða formennsku í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis verði útkljáð á vettvangi stjórnarandstöðuflokkanna og niðurstaða kynnt þegar hún liggi fyrir.
Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður VG og 2. varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis er ekki sérskipaður...
Posted by Hanna Katrin Friðriksson on Friday, January 25, 2019