„Ég finn fyrir mjög miklum áhuga og ég er auðvitað búinn að eiga fjölda tvíhliða funda frá því að ég tók við sem ráðherra, sem er mikilvægt til þess að fá að heyra frá fyrstu hendi hvaða áherslur þjóðríki hafa og stefnur og straumar.“
Þetta sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut þegar þeir ræddu um málefni norðurslóða. Guðlaugur Þór sagði að áhugi Kínverja og Rússa á málaflokknum væri þekktur en auk þess væri mikill áhugi í Asíu í heild. Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Guðlaugur Þór segir í þættinum að hann hafi hafa lagt áherslu á að vekja athygli á norðurslóðarmálum víðar, bæði gagnvart Evrópu og stærstu ríkjum Norður-Ameríku, Bandaríkjunum og Kanada. Hann segir flestar þjóðir heims vera að líta til svæðisins og fylgjast með þeirri þróun sem á sér stað á því. Þar af leiðandi sé litið til Íslands vegna staðsetningar landsins.
Utanríkisráðherra segir að þegar ný siglingaleið opnist, líkt og sé að gerast í gegnum norðurskautið, þá þýði það óhjákvæmilega aukin tækifæri til viðskipta.
Til þeirra tækifæra sé litið um allan heim. „Flestir, ef ekki allir vonandi, nálgast þetta með þeim hætti að vilja sjá þarna sjálfbærni og vilja ekki sjá þarna þætti eins og umhverfisslys eða mengunarslys eða neitt slíkt, sem er ein ógnun gagnvart okkur og við verðum að líta sérstaklega til. Til þess að svo megi verða þá verður að vera samstaða á milli ríkja að það séu alþjóðalög sem þarna gilda og að þetta sé svæði sem við sjáum ekki neina slíka hluti gerast sem við viljum ekki sjá.“
Í þættinum ræddi Guðlaugur Þór einnig samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES), þriðja orkupakkann og Brexit, svo fátt eitt sé nefnt.
Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni hér að neðan.