Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, segir að hann og aðrir þingmenn séu þjóðkjörnir af „ákveðnu fólki“ til að sitja á Alþingi. „Ef það er þannig að einhver getur ekki starfað með okkur, alveg sama hvað það er, þá getum við ekki bara vikið út af þingi af því að pólitískir andstæðingar telja vont að vera nálægt okkur.“
Þetta kom fram í viðtali við hann og Bergþór Ólason í viðtali við Lindu Blöndal í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut á fimmtudagskvöld þegar Gunnar Bragi ræddi hvort hann ætti að segja af sér eða ekki vegna Klausturmálsins.
Hann sé þrátt fyrir allt kosinn af sínum kjósendum. Gunnar Bragi sagði að í hans tilviki hafi alltaf legið ljóst fyrir að hann hafi ætlað að snúa til baka. Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Gunnar Bragi sagði að þeir væru búnir að vera mjög auðmjúkir vegna málsins. „Við erum búnir að biðjast afsökunar[...] ef menn eru hins vegar ekki tilbúnir að fyrirgefa okkur þá er það þeirra mál. Við erum kjörnir af ákveðnum hópi fólks til að sinna störfum okkar og ég hef meðals annars nýtt tímann til að tala við þetta fólk. Það er einróma áskorun þeirra að ég skuli aftur koma.“
Báðir viðmælendurnir sögðu tímasetningu endurkomu sinnar á Alþingi vera vegna þess að verið sé að reyna að koma máli þeirra til siðanefndar með hætti sem þeir telji óboðlegan.
Gunnar Bragi sagði:„Síðan gerist það vitanlega að það eiga sér stað atburðir í þinginu sem að við teljum að eigi sér fá dæmi ef nokkur þar sem forseti Alþingis fer fram með slíkum hætti að í fyrsta lagi að reyna að breyta lögum eftir á.“
Hann telji að Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sé að reyna að breyta lögum þannig að „hann gæti komið okkur með einhverjum bellibrögðum til þessarar siðanefndar. Fyrir okkur var enginn annar valkostur heldur en að koma inn á þing og þá að reyna að verjast þessum fyrirætlunum. Verjast forseta Alþingis sem fer fram með mjög miklu offorsi í þessu máli.“
Gunnar Bragi sagði enn fremur að Steingrímur J. virtist vera búinn að setja sér það heilaga markmið að málið skyldi fara til siðanefndar með öllum ráðum.