Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, lagði fram tillögu þess efnis á fundi umhverfis- og samgöngunefndar í dag að greidd yrðu atkvæði um formann nefndarinnar Bergþór Ólason, þingmann Miðflokksins. Helga Vala lagði fram tillöguna með stuðningi Hönnu Katrínar Friðriksson, þingmanns Viðreisnar og Rósu Björk Brynjólfsdóttur þingmanns Vinstri grænna. Þeirri tillögu var hins vegar vísað frá af meirihluta nefndarinnar. Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, og Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna, studdu frávísun tillögunnar vegna þess að þau telja að kosningin hefði verið brot við þingskapalög.
Lá ekki fyrir tillaga um nýjan formann
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði fram frávísunartillöguna en hún var studd af Líneik Önnu, Vilhjálmi Árnasyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, Ara Trausta , og þeim Bergþóri og Karli Gauta Hjaltasyni. Jón Gunnarsson sagði í samtali við Morgunblaðið að þetta væri ekki mál sem leyst væri á vettvangi nefndarinnar. „Þetta þarf að leysa á vettvangi þingflokksformanna. Þetta byggir á samkomulagi þingflokka og það er ekki nefndarinnar að taka á því máli,“ útskýrir Jón. Í kjölfar frávísunartillögu meirihlutans var tillögu Helgu Völu vísað til þingflokksformanna.
Líneik Anna segir í samtali við Kjarnann að tillaga Helgu Völu hafi snúist um að kjósa um að setja af starfandi formann en að ekki hafi legið fyrir tillaga um nýjan formann. Hún segir að slík kosning samræmist ekki þingskapalögum og því hefði hún stutt frávísunartillöguna. Aðspurð segir Líneik ekki vilja tjá sig um það opinberlega hvort hún styðji Bergþór sem formann nefndarinnar.
Alvarlegt skref ef nefndin hefði brotið þingskapalög
Ari Trausti tekur í sama streng og Líneik í samtali við Kjarnann. Hann segir að nefndinni sé heimilt að kjósa nýjan formann en hefði atkvæðagreiðsla farið fram um hvort að víkja ætti sitjandi formanni án þess að tillaga lægi fyrir um nýjan formann væri það brot á þingskapalögum. Hann segir að ef nefndin hefði brotið þingskapalög þá hefði það verið alvarlegt skref. Hann segir því frávísunartillöguna hafa snúist um réttaróvissuna um þingsköpin.
Ari Trausti segir það jafnframt hafa komið skýrt fram í hans máli að það sé í höndum minnihlutans að ákveða hvort að samkomulaginu sem stjórnarandstöðuflokkarnir gerðu með sér verði sagt upp. Hann bætir þó við að hans mati sitji Bergþór ekki í skjóli meirihlutans.
Þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar verða að ákveða hvort samkomulaginu verði breytt
Stjórnarandstöðuflokkarnir gerðu með sér samkomulag varðandi þau þrjú formannssæti sem stjórnarandstöðunni féllu í skaut. Miðflokkurinn fer með formennsku í umhverfis- og samgöngunefnd, Samfylkingin með formennsku í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og Píratar í velferðarnefnd.
Miðflokkurinn getur því valið annan þingmann úr sínum röðum í stað Bergþórs en ef ekki þá situr Bergþór áfram í formannsstólnum. Annars geta stjórnarandstöðuflokkarnir sagt upp samkomulaginu en þá má reikna með því að formennsku annarra stjórnarandstöðuflokka komi einnig til skoðunar í því samhengi.
Þolandinn þarf alltaf víkja en aldrei gerandinn
Björn Leví Gunnarson, þingmaður Pírata, situr í umhverfis- og samgöngunefnd sem áheyrnarfulltrúi. Það þýðir að hann geti tekið undir bókanir en hann getur ekki kosið með tillögum. Greint var frá því í dag að Björn Leví hefði farið af fundi nefndarinanr áður en honum lauk í morgun. Björn Leví segir í samtali við Kjarnann að hann geti alveg starfað með fólki sem sé honum ósammála upp að einhverju marki en hann segist ekki enn vita hvernig hann geti háttað sínu samstarfi við Bergþór.
Björn Leví segir jafnframt að afstaða hans gagnvart ofbeldismálum sé svipuð og gagnvart eineltismálum. Hann segir það óþolandi að í þeim málum virðist þolandinn alltaf þurfa að víkja en gerandinn aldrei.
Uppfært: Helga Vala Helgadóttir áréttar í samtali við Kjarnann að hún hafi fengið upplýsingar frá skrifstofu Alþingis um að kosningin væri tæk áður en hún lagði fram tillöguna á fundi nefndarinnar. Hún segir jafnframt að minnihlutinn hafi lagt til tvo aðra möguleika, að nýr formaður yrði kosinn á fundinum eða í þriðja lagi að fundinum yrði slitið og mögulegar lausnir skoðaðar fyrir næsta fund. Helga Vala segir að í stað þeirra tillagna hafi meirihlutinn lagt fram frávísunartillögu.