Alþingi hefur á síðustu mánuðum orðið umhverfisvænni vinnustaður í kjölfar ýmissa breytinga á vinnustaðnum eftir innleiðingu á fyrsta græna skefinu í október síðastliðnu. Alþingi hefur meðal annars dregið verulega úr innkaupum á einnota plastflöskum, innleitt stefnu um minni fjölpóst og starfsmenn hafa verið hvattir til að nota umhverfisvænni samgöngur.
Færri plastflöskur, minni fjölpóstur og fleiri nota umhverfisvænar samgöngur
Í október síðasliðnum fékk Alþingi viðurkenningu verkefnisins Græn skref í ríkisrekstri fyrir innleiðingu á fyrsta Græna skrefinu. Grænu skrefin eru í hópi ábyrgðarverkefna Umhverfisstofnunar en það er hvatakerfi fyrir ríkisstofnanir til að stuðla að aukinni sjálfbærni í rekstri og bættri umhverfisvitund meðal starfsmanna. Við innleiðingu Grænna skrefa er einföldum gátlistum fylgt og veittar eru viðurkenningar fyrir hvert grænt skref sem tekið er. Í tilkynningu frá Alþingi segir að með aukinni umhverfisvitund og innleiðingu aðgerða í umhverfismálum hafa ýmsar breytingar orðið sem gera Alþingi að umhverfisvænni vinnustað.
Eitt af þessum aðgerðum er að Alþingi hefur dregið verulega úr innkaupum á sódavatni í einnota plastflöskum eða um 2.500 færri plastflöskur árlega. Í stað þess að kaupa einnota flöskur nota þingmenn og aðrir starfsmenn nú sódavatnsvél og fylla á margnota flöskur sem Alþingi gaf þeim. Í kjölfarið hafa innkaupin á sódavatnsflöskum dregist saman um 87 prósent.
Auk þess hefur forsætisnefnd ákveðið að draga úr móttöku á fjölpósti til þingmanna og innleiddu stefnu þess efnis í síðasta mánuði. Nú er einungis tekið á móti átta eintökum af skýrslum, einni fyrir hvern þingflokk, og fjórum eintökum af blöðum. Fyrir þessa breytingu bárust um 40 kíló af fjölpósti til Alþingis í hverjum mánuði sem jafngildir um hálfu tonni af pappír árlega. Jafnframt hefur nefndin óskað eftir því að blöð og skýrslur séu ekki pakkaðar í plast og að þingmenn fái í stað þess sendan hlekk á skýrslur.
Í tilkynningunni segir að enn fremur hafi verið lögð áhersla á umhverfisvænni samgöngur á Alþingi. Starfsmenn og þingmenn hafi tekið vel í að hjóla og ganga í vinnuna. Nú komi fleiri starfsmenn á hjólum í vinnunni en einnig hafa verið settar upp rafmagnshleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla.
Ný reglugerð um rafræna reikninga
Fleiri skref hafa verið stigin í átt að umhverfisvænni stjórnsýslu en fjármála- og efnahagsráðuneytið vinnur nú að því að samræma kröfur til rafrænna reikninga vegna opinberra innkaupa í því augnamiði að einfalda viðskipti fyrirtækja við hið opinbera og draga úr hindrunum og kostnaði í viðskiptum jafn innanlands sem og milli landa.
Í þessu skyni hefur tekið gildi ný reglugerð, sem felur í sér að tekinn er upp staðall sem ríki og sveitarfélög skulu styðja og einfaldar sendingu rafrænna reikninga til opinberra aðila. Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að innleiðingu skal vera lokið fyrir 18. apríl á þessu ári. Jafnframt segir í tilkynningunni að rafrænir reikningar séu umhverfisvænir og skapi hagræði.
Í gildandi viðskiptaskilmálum ríkisins kemur fram að allir reikningar til ríkisstofnana skulu vera með rafrænum hætti nema um annað sé samið og hefur hlutfall rafrænna reikninga farið hækkandi ár frá ári. Innleiðing rafrænna reiknigna hófs árið 2007 en samkvæmt ráðuneytinu hefur mikil hagræðing náðst fram bæði hjá kaupendum og seljendum síðan. Hlutfall reikninga sem berast með rafrænum hætti er komið upp í 70 prósent innan stjórnsýslunnar. Ríkið stefnir að því að á komandi árum verði þrengt enn frekar að notkun pappírs með það að markmiði að allir reikningar til hins opinbera verði rafrænir.