Alþingismenn fá mun hærri endurgreiðslur vegna aksturskostnaðar á þeim tímabilum þar sem kosningar fara fram en öðrum. Þetta má lesa út úr svari Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, við fyrirspurn Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata, um aksturskostnað þingmanna fyrir kosningar.
Björn Leví vildi fá upplýsingar um akstur þingmanna í hverri viku í apríl og maí annars vegar og september og október hins vegar frá árinu 2013 og þar til nú. Forseti gat ekki tekið saman slíkar upplýsingar innan gefins tímafrests en birti þess í stað hver endurgreiddur kostnaður vegna aksturs þingmanna var frá janúar og út júní ár hvert annars vegar og frá júlí og út desember hins vegar. Þær upplýsingar gefa, að mati forseta, „sæmilega mynd af því sem spurt er um“.
Niðurstaðan er nokkuð afgerandi. Í einu vorkosningunum sem fram fóru á þeim árum sem spurt var um fengu þingmenn mun hærri endurgreiðslur en á öðrum sambærilegum tímabilum þegar slíkar áttu sér ekki stað. Það varð augljós aukning á kröfum um endurgreiðslur kostnaðar á þeim haustmánuðum þar sem prófkjör og kosningar hafa farið fram.
Miklu meiri kostnaður í kringum kosningarnar 2013
Kosið var til Alþingis í apríl 2013. Á fyrri hluta þess árs voru endurgreiðslur 5,8 milljónir króna að meðaltali á mánuði eða alls 35 milljónir króna yfir hálfs árs tímabil.
Ólíkar haustkosningar
Síðustu tvær þingkosningar hafa farið fram að hausti til, þ.e. í október 2016 og 2017.
Árið 2013 fengu þingmenn 24 milljónir króna í endurgreiðslur vegna aksturskostnaðar á síðari hluta árs og ári síðar var sú tala afar svipuð, eða 24,7 milljónir króna. Árið 2015 lækkaði hún í 21,1 milljón króna en 2016, þegar kosningar voru haldnar, hækkaði hún í 24,1 milljón króna, eða um þrjár milljónir króna. Það var aukning um 14,2 prósent milli árs þar sem kosningar áttu sér ekki stað og árs þar sem slíkar voru haldnar.
Árið 2017 var svo boðað til kosninga með rúmlega mánaðar fyrirvara. Flestir flokkar slepptu því að halda prókjör fyrir þær kosningar og kosningabaráttan var mjög knöpp. Endurgreiddur kostnaður þingmanna vegna aksturs lækkaði því umtalsvert milli ára og var 17.6 milljónir króna. Athyglisvert er þó að bera saman endurgreiddan aksturskostnað á seinni hluta ársins 2018 og ársins á undan, en á síðustu fimm mánuðum síðasta árs nam endurgreiðslan 11,6 milljónum króna. Hlé var gert á þingfundum 14. desember, sem er mjög snemmt í öllum samanburði, og því má ætla að kostnaður vegna réttmætra endurgreiðslna ætti einungis að eiga við um hálfan þann mánuð. Ef miðað er við meðaltalsendurgreiðslur fyrstu fimm mánaða tímabilsins þá má því ætla að heildarendurgreiðslu fyrir síðari hluta árs 2018 væru um 14 milljónir króna. Það þýðir að kostnaður vegna endurgreiðslu dróst saman um 20 prósent frá síðari hluta kosningaársins 2017 og sama tímabils ári síðar.
Leynd hvíldi yfir árum saman
Fjölmiðlar hafa árum saman reynt að fá upplýsingar um hvaða þingmenn fái endurgreiðslu vegna aksturs, en án árangurs. Kjarninn fjallaði til að mynda um málið í fréttaskýringu árið 2015 þar sem fram kom að alls 28 þingmenn hefðu fengið endurgreiðslu á árinu 2014, þar af 18 yfir eina milljón króna. Ekki var hins vegar hægt að fá upplýsingar um hvaða þingmenn var að ræða. Þær upplýsingar þóttu þá of persónulegar.
Skömmu síðar opinberaði Ásmundur í viðtali að hann væri sá sem hefði þegið hæstu greiðslurnar.
Ákveðið að breyta reglum og birta upplýsingar
Upplýsingarnar vöktu upp mikla reiði og ásakanir um mögulega sjálftöku þingmanna. Augljóst væri að það stæðist illa skoðun að Ásmundur væri að keyra 47.644 kílómetra á einu ári, líkt og hann sagðist vera að gera, einungis vegna vinnu sinnar sem þingmaður. Þess utan var sýnt fram á það með útreikningum frá Félagi íslenskra bifreiðareigenda að rekstrarkostnaður bifreiðar sem keyrð er þá vegalengd er einungis um tvær milljónir króna, ekki 4,6 milljónir króna. Af þeim tölum var ljóst að þingmenn gátu hagnast umtalsvert umfram kostnað af því að fá endurgreiðslur vegna aksturs.
Í kjölfarið varð það krafa þings, þjóðar og fjölmiðla að allar greiðslur vegna aksturs yrðu gerðar opinberar og að þær yrðu persónugreinanlegar. Þá varð það einnig krafa að allar aðrar greiðslur sem þingmenn fá vegna starfa sinna yrðu gerðar opinberar, sundurliðaðar og mörg ár aftur í tímann. Hvort sem um væri að ræða húsnæðisstyrk, greiðslur vegna flugs eða kostnaður vegna bílaleigubíla. Allt ætti að koma upp á borðið.
Forsætisnefnd ákvað að bregðast við og allar upplýsingar um kostnað sem fylgir störfum þingmanna er nú birtur mánaðarlega. Auk þess var ákvæði í reglum um þingfarakostnað, sem fjallar um bílaleigubíla, gert skýrara til að tryggja að slíkir séu frekar teknir en að þingmenn séu að nota eigin bifreiðar. Breytingarnar náðu einkum til þingmanna sem falla undir svokallaðan heimanakstur, þ.e. akstur til og frá heimili daglega um þingtímann. Það eru þingmenn sem búa í nágrenni Reykjavíkur (á Suðurnesjum, Vesturlandi, Árnessýslu o.s.frv.). Akstur á eigin bifreiðum, sem kemur til endurgreiðslu, varð eftir breytingarnar bundinn hámarki við 15.000 km. Eftir þann kílómetrafjölda á skrifstofa Alþingis láta umræddum þingmanni í té bílaleigubíl.