Stefán Árni Auðólfsson lögmaður hefur unnið skýrslu fyrir þá fimm lífeyrissjóði sem fjárfestu í félaginu United Silicon, sem tekið var til gjaldþrotaskipta í fyrra. Í skýrslunni segir að eðlilegt sé að lífeyrissjóðirnir kanni rétt sinn gagnvart þeim opinberu aðilum og verkfræðistofum sem komu að einhvern hátt að verkefninu. Stefán segir jafnframt að afla verði frekari gagna svo hægt verði að leggja skýrara mat á mögulega bótaskyldu. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Möguleg bótaskylda verkfræðistofa
Stefán segir það ljóst að höfuðábyrgðin virðist liggja í höndum framkvæmdastjóra United Silicon. Hann segir að þá hafi margt einnig brostið hjá opinberum aðilum og ráðgjöfum í verkefninu. „Þá kemur bara til skoðunar hvort þessir aðilar gætu hafa bakað sér bótaskyldu með atferli sínu eða jafnvel athafnaleysi,“ segir Stefán í samtali við Fréttablaðið.
Í skýrslunni leggur Stefán Árni til að frekari gagna verði aflað til að hægt verði að leggja skýrara mat á mögulega bótaskyldu þeirra verkfræðistofa sem fengnar voru til að leggja mat á áætlanir, og endurskoðenda félagsins. Þar sem ákvarðanir um fjárfestingar hafi að hluta til verið teknar á grundvelli vinnu og gagna þessara aðila.
Stefán segir jafnframt að það verði ekki hjá því komist, að virtum athugasemdum Ríkisendurskoðunar, að skoða frekar þá þætti sem snúa að opinberum aðilum. Þar á meðal vinnu við mat á umhverfisáhrifum, útgáfu starfsleyfa og gerð fjárfestingarsamninga um ríkisaðstoð og ívilnanir. Eðlilegt sé að lífeyrissjóðirnir kanni rétt sinn gagnvart þessum opinberu aðilum enda hafi umrædd atriði verið meðal lykilforsendna fjárfestinganna.
Geir Gestsson, skiptastjóri þrotabús United Silicon, segir í samtali við Fréttablaðið, að tvö skaðabótamál séu í gangi gegn Magnúsi Garðasyni. Auk þess sé verið höfða mál á hendur endurskoðenda fyrirtækisins vegna hlutfjárhækkana. Geir segir jafnframt önnur mál vera í gangi hjá þrotabúinu en hann telur að töluvert sé eftir af þessu ferli öllu.
Hluthafar og kröfuhafar þurft að afskrifa stórar upphæðir
United Silicon, félagið utan um rekstur kísilmálmverksmiðju, var sett í gjaldþrot í janúar í fyrra. Hluthafar og kröfuhafar félagsins hafa þurft að afskrifa stórar upphæðir vegna United Silicon. Arion banki hefur til að mynda þegar afskrifað 4,8 milljarða króna vegna verkefnisins. Bankinn tók yfir hlutafé í United Silicon í febrúar í fyrra og bókfærði virði eignanna á 5,4 milljarða króna. Auk þess eru útistandandi lánsloforð og ábyrgðir upp á um 900 milljónir króna. Arion banki ábyrgðist rekstur United Silicon frá því að félagið var sett í greiðslustöðvun og fram að gjaldþroti og borgaði um 200 milljónir króna á mánuði vegna rekstur þess á því tímabili.
Aðrir hluthafar töpuðu einnig stórum fjárhæðum. Frjálsi lífeyrissjóðurinn, sem fjárfesti 1.178 milljónum króna í United Silicon, hefur fært niður virði þeirra hlutabréfa og skuldabréfa sem sjóðurinn á í félaginu um 100 prósent. Sömu sögu er að segja af Eftirlaunasjóði félags íslenskra atvinnuflugmanna en þar nemur niðurfærslan einnig 100 prósentum. Lífeyrissjóð starfsmanna Búnaðarbanka Íslands fjárfestir einnig í verkefninu. Arion banki rekur alla sjóðina þrjá, starfsfólk bankans gegnir stjórnunarstöðum í þeim og þeir eru til húsa í höfuðstöðvum hans í Borgartúni. Þá setti lífeyrissjóðurinn Festa 875 milljónir króna í United Silicon. Hann hefur einnig framkvæmt varúðarniðurfærslu vegna verkefnisins.
Magnús grunaður um að hafa dregið að sér um 600 milljónir
Í mars lögðu stjórnir þeirra fimm lífeyrissjóða sem fjárfest höfðu í United Silicon fram kæru til héraðssaksóknara þar sem óskað var eftir það að embættið tæki til rannsóknar nokkur alvarleg tilvik sem grunur leikur á að feli í sér refsiverð brot af hálfu Magnúsar Ólafs Garðarssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra og stjórnarmanns United Silicon hf., og eftir atvikum annarra stjórnenda, stjórnarmanna og starfsmanna félagsins. Áður hafði stjórn United Silicon og Arion banki, stærsti kröfuhafi félagsins, sent kærur vegna gruns um refsiverða háttsemi Magnúsar til yfirvalda. Þetta var því þriðja kæran sem berst vegna gruns um brot hans.
Samkvæmt skýrslu sem KPMG vann fyrir þrotabúið, og Kjarninn greindi ítarlega frá í janúar síðastliðnum í röð fréttaskýringa, kom fram að alls sé Magnús grunaður um að hafa dregið að sér 605 milljónir króna. Samkvæmt skýrslunni er rökstuddur grunur um að Magnús hafi, í starfi sínu sem forstjóri United Silicon, falsað reikninga og undirskriftir, átt við lánasamninga og búið til gervilén í viðleitni sinni til að draga að sér fé úr fyrirtækinu.