Mikil íbúðauppbygging er fyrirhuguð hér á landi á næstu árum en áætlað er að um tíu þúsund íbúðir verði byggðar á árunum 2019 til 2021. Már Guðmundsson seðlabankastjóri segist þó ekki hafa stórar áhyggjur af offramboði á fasteignamarkaði ennþá, í samtali við Ríkisútvarpið í dag. Már segir jafnframt að fasteignaverð geti hæglega lækkað en það fari meðal annars eftir því hvernig rauntekjur þróist og gengi krónunnar. Seðlabankastjóri segir að kólnun á fasteignamarkaði sé viðbúin eftir uppsveifluna.
10.000 íbúðir á næstu þremur árum
Á undanförnum árum hefur íbúðauppbygging hér á landi ekki verið í takt við þörf og á tímabilinu 2009 til 2017 var fjöldi fullgerðra íbúða undir langtímameðaltali á hverju ári. Átakshópur sem forsætisráðherra skipaði um húsnæðismarkaðinn lét greina þörf fyrir íbúðir á landsvísu. Niðurstaðan var sú að óuppfyllt íbúðaþörf á landinu öllu sé nú á bilinu fimm til átta þúsund íbúðir. Nú má hins vegar segja að vatnaskil séu að verða á íbúðamarkaði þar sem nýbyggingum hefur fjölgað mikið og útlit er fyrir að sú þróun haldi áfram á næstu árum. Spá Íbúðalánasjóðs segir að byggðar verða rúmlega 3.000 íbúðir hér á landi í ár og samtals um 10.000 íbúðir á árunum 2019 til 2021. Til samanburðar voru byggðar um 6.000 íbúðir á landsvísu á árunum 2016 til 2018.
Aftur á móti liggur það fyrir að mikið af þeim íbúðum sem nú eru í byggingu henta ekki þeim hópum sem eru í mestum vandræðum á húsnæðismarkaði, þ.e. tekju- og eignalágum. Til merkis um það er til að mynda stór hluti lítilla íbúða sem eru í byggingu á höfuðborgarsvæðinu í hverfum þar sem fermetraverð er hvað hæst. Í sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins þar sem fermetraverð er lægra eru hins vegar byggðar stærri íbúðir, sem henta viðkvæmasta hópnum ekki heldur. Á fyrstu 10 mánuðum ársins 2018 var meðalstærð nýrra seldra íbúða 103 fermetrar og meðalfermetraverð um 521 þúsund krónur. Verð meðalíbúðar var því um 54 milljónir.
Rúv greindi frá því í síðustu viku að offramboð sé á gæðaíbúðum í miðborg Reykjavíkur. „Á miðsvæði er örugglega offramboð á íbúðum. Íbúðirnar eru dýrar og það er ekki mjög mikil eftirspurn. Þetta er náttúrulega staða sem er ekkert sérstaklega góð fyrir marga að það sé verið að byggja mjög mikið af einhvers konar íbúðategundum sem fáir vilja,“ sagði Ari Skúlason, hagfræðingar í hagfræðisdeild Landsbankans í samtali við Rúv.
Seðlabankastjóri segir þó aðspurður ekki enn hafa áhyggjur af offramboði af íbúðum hér á landi.. „Ég hef svo sem ekki stórar áhyggjur af því ennþá. Við áttum alltaf von á því þegar kæmi að því að það færi að hægja á í þjóðarbúinu og þá gæti hið sterka gengi eitthvað gefið eftir, að fasteignamarkaðurinn kæmi þar með mótvægi og það dragi verulega úr hækkunum fasteignaverðs. Og það hefur gerst. Og verðbólgan færi þar af leiðandi minna upp en ella þó að gengið hefði gefið eitthvað eftir,“ segir Már í samtali við RÚV.
Fasteignaverð geti hæglega lækkað
Jafnframt segir Már að fasteignaverð geti hæglega lækkað. „En auðvitað fer það svolítið eftir því hvað gerist varðandi rauntekjur, gengi krónunnar og annað því um líkt. Ég ætla ekki að spá neinu nákvæmlega um það en bara: Það er gert ráð fyrir því að hækkun fasteignaverðs myndi hjaðna verulega og kannski kannski verulega lág sem þýðir að raunverðið gæti kannski verið byrjað að lækka en við erum kannski ekki alveg komin þangað,“ segir Már.
Samkvæmt uppfærðri þjóðhagsspá Íslandsbanka spáir bankinn 1,6 prósent hækkun raunverðs íbúðarhúsnæðis á þessu ári og 1,2 prósent raunverðshækkun árið 2020. Til samanburður hækkaði íbúðaverð að jafnaði um 5,2 prósent á síðasta ári. Í spánni segir að helstu skýringar á hægrari hækkun íbúðaverðs séu hægari kaupmáttaraukning, minni fólksfjölgun og áframhaldandi aukning á framboði nýrra íbúða.