Skrifstofa eigna og atvinnuþróunar, fjármálaskrifstofa og skrifstofa þjónustu og reksturs verða lagðar niður þann 1. júní næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg í dag.
Tillaga formanns borgarráðs, Þordísar Lóu Þórhallsdóttur, um stjórnsýslubreytingar hjá Reykjavíkurborg voru samþykktar í borgarráði í dag. Breytingarnar sem taka gildi 1. júní næstkomandi hafa það að meginmarkmiði að einfalda, skýra og skerpa stjórnarhætti og bæta þjónustu við borgarbúa, samkvæmt Reykjavíkurborg.
Til verða þrjú ný kjarnasvið, svið þjónustu og nýsköpunar, svið mannauðs og starfsumhverfis og svið fjármála og áhættustýringar.
Í tilkynningunni kemur fram að innkauparáð fái aukið hlutverk auk þess sem starf regluvarðar Reykjavíkurborgar verði eflt. Með þessum breytingum sé lögð áhersla á vandaða, skilvirka framkvæmd og ákvarðanatöku ásamt skipulegu og skýru eftirliti.
Skrifstofa eigna og atvinnuþróunar hefur farið með málefni eignasjóðs Reykjavíkurborgar jafnframt því að vinna að verkefnum á sviði atvinnuþróunar. Á vefsíðu Reykjavíkurborgar kemur fram að skrifstofustjórinn sé Óli Jón Hertervig og heyri skrifstofan undir embætti borgarritara.
Skrifstofan hefur verið í sviðsljósinu undanfarið, meðal annars vegna aðkomu að framkvæmdum við endurbyggingu á byggingunum við Nauthólsveg 100. Skrifstofan sætti harðri gagnrýni í skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar sem birt var í desember síðastliðnum.
Þar komst innri endurskoðun að því að skrifstofa eigna og atvinnuþróunar hefði verið setta á „eins konar sjálfstýringu“ sem hefði bitnað á innra eftirliti og verklagi skrifstofunnar. Þá var Hrólfur Jónsson, þáverandi skrifstofustjóri, ekki sagður hafa fylgst með verkefnum skrifstofunnar og ekki gefið upplýsingar um stöðu mála. Enn fremur hefði Hrólfur verið í miklum samskiptum við borgarstjóra en ekki við sinn næsta yfirmann samkvæmt skipuriti, sem er borgarritari.