Reykjavíkurborg og rannsakendur við Háskóla Íslands notuðu persónuupplýsingar frá Þjóðskrá Íslands um unga kjósendur, erlenda ríkisborgara og konur 80 ára og eldri til að senda þeim skilaboð og bréf fyrir sveitastjórnarkosningarnar í maí 2018, með að það fyrir augum að auka kjörsókn þessara hópa. Í ákvörðun Persónuverndar sem birt var í gær kemur fram að notkun og vinnsla Reykjavíkurborgar og rannsakanda við Háskóla Ísalnds hafi ekki í samræmi við lög um persónuvernd. Að mati Persónuverndar voru skilaboð í þessum sendingum gildishlaðin og til þess fallin að hafa áhrif á hegðun þessara kjósenda í kosningunum.
Gildishlaðin skilaboð
Reykjavíkurborg óskaði eftir heimild Persónuverndar til að senda ungum kjósendum smáskilaboð og bréf fyrir kosningarnar í því skyni að auka kjörsókn. Fram kom í erindinu þetta væri liður í aðgerðum til að auka kosningaþátttöku tiltekinna hópa sem hefðu í undanförnum kosningum átt undir högg að sækja með tilliti til kjörsóknar. Skilaboðin áttu einnig að vera hluti af rannsókn Háskóla Íslands á því hvaða þættir hefðu áhrif á kjörsókn. Texti smáskilaboðanna yrði ákveðinn af Reykjavíkurborg og rannsakendum sameiginlega og þess gætt að ekki mætti túlka innihaldið sem hvatningu til að kjósa á tiltekinn hátt. Borgin fékk svar frá Persónuvernd um miðjan maí, í svarinu kom fram fram að það væri undir þeim komið sem sendi skilaboðin að sjá til þess að það væri gert í samræmi við persónuverndarlög.
Bréf voru síðan send til ungra kjósenda, til kvenna 80 ára og eldri og erlendra ríkisborgurum. Helmingur ungra kjósenda fékk jafnframt smáskilaboð, meðal annars með upplýsingum um kjörstaði. Í ákvörðun Persónuvernd segir að sms-skilaboðin og bréfin sem send voru ungu fólki hafi verið gildishlaðin. Gagnrýnt er að í bréfunum var rætt um skyldu til að kjósa en hvergi sé minnst á kosningaskyldu í íslenskum lögum. Þá segir Persónuvernd að bæði smáskilaboðin og bréfin hafi verið til þess fallin að hafa áhrif á hegðun unga fólksins í kosningunum. Öll bréfin og skilaboðin hafi eingöngu verið merkt Reykjavíkurborg og því ekki gefið til kynna að einhverjir aðrir, eins og Háskóli Íslands, stæðu á bak við sendinguna. Uppruni þeirra og tilgangur hafi því ekki verið skýr.
Persónuvernd segir jafnframt að bréfin sem voru send til kvenna 80 ára og eldri og erlendra ríkisborgara hafi ekki einungis verið til upplýsinga og fræðslu heldur hafi þau einnig verið hvatning til að kjósa. Persónuvernd telur engin rök standa til þess að upplýsa þurfi konur á þessum aldri um kosningarétt þeirra. Þá geti það ekki samrýmst kröfum að opinberir aðilar sendi tilteknum hópum kjósenda hvatningu um að nýta kosningarétt sinn í aðdraganda kosninga.
Ámælisvert að Reykjavíkurborg hafi ekki veitt fullnægjandi upplýsingar
Niðurstaða Persónuverndar var að við framangreinda vinnslu persónuupplýsinga hefðu Reykjavíkurborg og rannsakendur við Háskóla Íslands ekki gætt að ákvæðum þágildandi persónuverndarlaga, meðal annars um að við vinnslu persónuupplýsinga beri að gæta að gagnsæi og fyrirsjáanleika, og hafi því brostið heimild til vinnslunnar
Persónuvernd komst einnig að þeirri niðurstöðu að Þjóðskrá Íslands hefði ekki gætt að meginreglu þágildandi persónuverndarlaga, um að þess skuli gætt við vinnslu persónuupplýsinga að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar, þegar stofnunin afhenti Reykjavíkurborg upplýsingar um kyn og ríkisfang erlendra ríkisborgara.
Auk þess kom fram í ákvörðun Persónuverndar að Reykjavíkurborg hafi verið veittar átölur fyrir að hafa veitt Persónuvernd ófullnægjandi upplýsingar um alla þætti málsins eftir að hafa óskað eftir því sérstaklega. Það sé alvarlegt að ábyrgðaraðili, sem vinni með persónuupplýsingar og sé auk þess stærsta sveitarfélag landsins, skuli láta undir höfuð leggjast að svara fyrirspurnum eftirlitsvalds. Í niðurstöðunum segir að slíkt sé ámælisvert.