Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, er sjálfkjörinn formaður til næstu tveggja ára en önnur framboð til formanns bárust ekki til kjörstjórnar VR. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu í dag. Framboðsfrestur vegna formanns- og stjórnarkjörs VR rann út á hádegi í dag.
Kjörstjórn VR hefur úrskurðað eitt einstaklingsframboð til formanns VR fyrir kjörtímabilið 2019 til 2021 löglega fram borið en það er framboð Ragnars Þórs og er hann því sjálfkjörinn formaður VR til næstu tveggja ára, segir í tilkynningunni.
Þá hefur kjörstjórn VR fengið 16 einstaklingsframboð til stjórnar VR fyrir kjörtímabilið 2019 til 2021 og vinnur í að kanna lögmæti þeirra.
Fundur verður haldinn með frambjóðendum miðvikudaginn 13. febrúar næstkomandi og verða nöfn frambjóðenda birt á vef VR að honum loknum.
Alls verður kosið til sjö sæta í stjórn og þriggja í varastjórn, segir í tilkynningu VR.
Búinn að sinna embættinu í tæp tvö ár
Ragnar Þór var kjörinn nýr formaður VR í mars árið 2017. Kosningaþátttaka var 17,09 prósent, sem þýddi að ríflega 5.700 af þeim tæplega 34 þúsund sem höfðu kosningarétt greiddu atkvæði.
Ragnar Þór hlaut 62,98 prósent atkvæða, eða 3.480 atkvæði alls. Ólafía B. Rafnsdóttir, þáverandi formaður VR, hlaut 37 prósent atkvæði, eða 2.046 atkvæði.
Ólafía varð formaður fyrir sex árum, árið 2013, þegar hún sigraði kosningu til formanns með 76 prósent atkvæða gegn þáverandi sitjandi formanni, Stefáni Einari Stefánssyni. Hún var endurkjörin árið 2015.