Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna, og Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, harma það að Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, telji að þau séu ekki heil í afstöðu gagnvart lítilsvirðandi framkomu í garð kvenna og ofbeldi gegn þeim. Slíku sé ekki hægt að taka með þögn.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem þingmennirnir tveir, sem báðir sitja í umhverfis- og samgöngunefnd, hafa sent frá sér vegna greinar sem Helga Vala, sem situr einnig í nefndinni, birti á Kjarnanum fyrir skemmstu. Í greininni sagði Helga Vala að svo virtist sem þingheimi væri ómögulegt að senda skýr skilaboð út til samfélagsins um að kynbundið ofbeldi og áreiti sé ólíðandi með öllu og setti það í samhengi við það að meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar hafi frekar stutt tillögu Miðflokksins um gera Jón Gunnarsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, að formanni hennar frekar en tillögu minnihlutans um að gera Hönnu Katrínu Friðriksson, þingmann Viðreisnar, að formanni hennar. „Af hverju völdu nefndarmenn að styðja frekar tillögu Miðflokks í stað þess að standa við áður gerðan samning sem og standa gegn ofbeldi?,“ spurði Helga Vala.
Ari Trausti og Líneik Anna segja að þau kjósi að leiða hjá sér þá söguskýringu sem Helga Vala setti fram í greininni, um „aðdraganda þess að óumflýjanleg formannsskipti urðu í umhverfis- og samgöngunefnd eftir að hún hafði verið óstarfhæf um hríð.“ Það sé einfaldlega hluti af ábyrgð þeirra sem starfi í meirihluta á Alþingi að tryggja að störf þingsins geti gengið eðlilega fyrir sig og að því vinni þau.
„Hinu sem felst í skrifum þingmannsins, þegar vel er að gáð og við getum ekki tekið með þögn, eru þau skilaboð að við séum ekki heil í okkar afstöðu þegar kemur að lítilsvirðandi framkomu í garð kvenna, hvað þá ofbeldi gegn þeim. Við hörmum það mjög að samstarfsmaður okkar á þingi, Helga Vala Helgadóttir, skuli reyna að setja okkur ómaklega í slíkt ljós.“