Tveir dómar féllu í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem ummæli um Hlíðamálið svokallaða voru dæmd dauð og ómerk. Annars vegar eru ummæli Tryggva Viðarsson dæmd dauð og ómerk og hann dæmdur til að greiða tveimur mönnum miskabætur vegna málsins.
Hins vegar eru ummæli sem birtust á netmiðlinum Hringbraut dæmd dauð og ómerk en Sigmundur Ernir Rúnarsson er hinn stefndi í því máli. Hann er dæmdur til að greiði hvorum stefnenda 250.000 krónur í miskabætur. Þetta kemur fram í dómnum sem Kjarninn hefur undir höndum.
Einnig ber Hringbraut að birta forsendur og dómsorð dómsins eigi síðar en sjö dögum eftir dómsuppkvaðningu á netmiðlinum www.hringbraut.is, á þeim stað að eftir verði tekið, eigi síðar en sjö dögum eftir dómsuppsögu, að viðlögðum 50.000 króna dagsektum fyrir hvern dag án birtingar umfram áðurgreindan frest. Sigmundur Ernir þarf einnig að greiða hvorum stefnenda 500.000 krónur í málskostnað.
Mikil reiðialda reis
Forsaga málsins er sú að Fréttablaðið birti forsíðufrétt í nóvember 2015 undir fyrirsögninni: „Íbúð í Hlíðunum útbúin til nauðgana“. Áður hafði verið sagt frá rannsókn lögreglu á tveimur aðskildum kynferðisbrotamálum vegna meintra árása í fjölbýlishúsi í Hlíðahverfi í Reykjavík í október. Tvær konur kærðu tvo karlmenn fyrir kynferðisbrot í málinu og í frétt Fréttablaðsins sagði að „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar“. Fram kom í fréttinni að mönnunum hafði svo verið sleppt að lokinni skýrslutöku.
Mikil reiðialda reis í kjölfar fréttarinnar, boðað var til mótmæla fyrir utan lögreglustöðina á Hverfisgötu og mennirnir voru nafngreindir á samfélagsmiðlum og birtar af þeim myndir.
Rannsóknir á nauðgunarkærunum fóru á borð héraðssaksóknara og lét hann bæði málin niður falla. Annar maðurinn hafði einnig kært aðra konuna fyrir kynferðisbrot en það mál var líka látið niður falla.
Sex ummæli dæmd dauð og ómerk
Tryggvi Viðarsson er dæmdur til að greiða stefnendum hvorum um sig 350.000 krónur, sem og málskostnað upp á 800.000 krónur.
Ummælin sem dæmd eru dauð og ómerk eru:
- Hér eru helvítis ógeðin sem voru að nauðga og misþyrma með sérútbúna íbúð í Hlíðunum.
- Þessi viðrini voru ekki nafngreind eða myndbirt í blöðunum eins og aðrir með réttarstöðu grunaðra og ekki látnir sæta gæsluvarðhaldi á meðan á rannsókn stendur samt stafar samfélaginu meiri ógn af þessum gerpum en þeim sem eru með nokkrar plöntur heima hjá sér.
- Endilega deilið svo stelpur geti varað sig á þessum stórhættulegu einstaklingum.
- Ef þið sjáið þessa fávita endilega hifive a þá í smettið ... Menn sem gera svona eru ekki að byrja sinn nauðgaraofbeldisferil.
- Í frétt Pressunnar: ... Ef það tekst að hindra þó það væri ekki nema eina nauðgun í viðbót af hálfu þessara manna þá er markmiðinu náð.
- Athugasemd við Facebook-færslu: Magnús ég hef sögur frá fyrstu hendi frá fleiri en þessum stelpum sem þeir náðu að nauðga og misþyrma og á meðan þeir ganga lausir eru þeir hættulegir.
Þrenn ummæli dæmd dauð og ómerk á Hringbraut
Ummælin sem birtust á netmiðlinum Hringbraut sem dæmd eru dauð og ómerk:
- „Komið í veg fyrir þriðju nauðgunina“
- „Sú saga gengur meðal nemenda Háskólans í Reykjavík að mennirnir sem grunaðir eru um að hafa nauðgað tveimur konum hafi haft fleiri fólskuverk í hyggju. Naumlega hafi verið komið í veg fyrir þriðju nauðgunina.“
- „Þriðja unga konan hafi sloppið naumlega þegar hennar kærasti hafi náð að sækja hana.“