Isavia veitir ekki upplýsingar um hverjar skuldir flugfélaga við fyrirtækið sem komnar væru fram yfir gjalddaga og/eða eindaga 1. nóvember síðastliðinn. Þetta kemur fram í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, við fyrirspurn Jóns Steindórs Valdimarssonar, þingmanns Viðreisnar, um málið sem birt hefur verið að vef Alþingis.
Í svari Sigurðar Inga segir að samkvæmt upplýsingum frá Isavia séu „eingöngu gefnar upp fjárhagslegar upplýsingar miðað við dagsetningar í árs- og árshlutareikningum félagsins.“
Jón Steindór spurði ráðherrann einnig hvort hann teldi það ásættanlegt að Isavia veitti einstökum flugfélögum greiðslufrest án trygginga á háum fjárhæðum sem væru í vanskilum. Í svari Sigurðar Inga er rakið hvernig almennt greiðslufyrirkomulag Isavia sé í þessum efnum og greint frá því að hvert flugfélag hafi mánuð í gjaldfrest eftir að gjaldfallinn gjöls séu tekin saman í lok fyrri mánaðar. Innheimta t.d. lendingagjalda geti því spannað allt að tvo mánuði.
Siðan segir í svarinu: „Alltaf geta komið upp tilvik eða aðstæður sem leiða til þess að ekki er greitt á réttum tíma, enda er flugrekstur sveiflukenndur rekstur. Alla jafna kemur það ekki að sök og greiddir eru dráttarvextir af því sem gjaldfallið er. Eðlilegt þykir að tilvik sem þessi geti komið upp og er brugðist við því í samræmi við það sem hér hefur verið sagt. Síðan ber að líta til þess að félagið hefur ríkar stöðvunarheimildir til að tryggja greiðslur ef því er að skipta.“
Undir lok svarsins segir að Isavia sé fyrirtæki í rekstri á markaði með sérstaka stjórn. Fyrirtækið sjálft taki því ákvarðanir um það sem spurt sé um. „Ráðherra hefur ekki sérstaka skoðun á fyrirkomulagi fyrirtækisins í þessum efnum.“
Því haldið fram að WOW air skuldaði Isavia
Isavia er opinbert hlutafélag og að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins. Fyrirtækið annast rekstur og uppbyggingu allra flugvalla á Íslandi auk þess sem það stýrir flugumferð á íslenska flugstjórnarsvæðinu. Isavia á fjögur dótturfélög. Þau eru Fríhöfnin ehf., TernSystems ehf., Domavia ehf. og Suluk APS.
Á síðari hluta ársins 2018 var erfið staða íslenskra flugfélaga mikið til umfjöllunar. Rekstur Icelandair gekk illa vegna ytri aðstæðna og rangra viðskiptaákvarðana sem teknar höfðu verið, en félagið átti umtalsvert eigið fé til að takast á við þær aðstæður. Staða WOW air var sýnu alvarlegri, enda félagið í miklum lausafjárerfiðleikum vegna þrenginga í rekstri.
Um miðjan september 2018 greindi Morgunblaðið frá því að WOW air skuldaði Isavia um tvo milljarða króna í lendingargjöld. Þar af er um helmingur skuldarinnar þegar gjaldfallinn samkvæmt fréttinni.
Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, brást við með stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann sagði að frétt Morgunblaðsins sé röng. Í stöðuuppfærslunni er hins vegar ekki borið til baka að WOW air hefði skuldað Isavia fé né að sú skuld væri gjaldfallinn heldur einungis að sú skuld hafi aldrei verið yfir tvo milljarða króna.
Kjarninn spurði Isavia í kjölfarið um hversu mikið WOW air skuldaði fyrirtækinu. Í svari þess sagði að Isavia veiti ekki upplýsingar um það hverjar tekjur fyrirtækisins eru af viðskiptum við einstök flugfélög. Það veiti heldur ekki upplýsingar um hvort einhver flugfélög séu í vanskilum með lendingargjöld sín við Isavia en tók fram að félagið vinni „með viðkomandi félögum að lausn mála ef upp koma tilvik þar sem vanskil verða á lendingargjöldum með hagsmuni Isavia að leiðarljósi.“