VR, Efling, Verkalýðsfélag Akraness og Verkalýðsfélag Grindavíkur lýsa reiði og sárum vonbrigðum með þær tillögur sem ríkisstjórnin lagði fram á fundi með forseta og varaforsetum Alþýðusambands Íslands í dag.
Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu. frá þeim. Þar segir að viðræður hafi staðið tæpt eftir að Samtök atvinnulífsins hefðu lagt fram tilboð í síðustu viku sem leitt hefði til kaupmáttarrýrnunar fyrir stóra hópa launafólk. Samtök atvinnulífsins hefðu í kjölfarið hafnað það sem félögin töldu vera sanngjarnt gagntilboð.
„Vonir stóðu til að aðkoma stjórnvalda gæti hleypt glæðum í viðræður. Ljóst er að tillögur stjórnvalda gera þær vonir að engu. Fundað verður í baklandi stéttarfélaganna á næstu sólarhringum og á fimmtudag funda formenn félaganna með SA hjá Ríkissáttasemjara. Samflotsfélögin standa sameinuð og staðföst í kröfunni um að launafólk geti lifað af launum sínum og að stjórnvöld geri löngu tímabærar kerfisbreytingar í réttlætisátt,“ segir enn fremur í yfirlýsingunni sem er undirrituð af formönnum allra stéttarfélaganna fjögurra.
Tillögur ríkisstjórnarinnar, sem snýast um húsnæðismál, félagslega kerfið og skattamál, verða kynntar síðar í dag.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra kynntu þær fyrir forystumönnum vinnumarkaðarins á fundum fyrr í dag.