Tíu þingmenn Samfylkingarinnar, Vinstri Grænna, Viðreisnar og Pírata hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að bannað verði að nota pálmaolíu í framleiðslu lífdísils á Íslandi. Í tillögunni er lagt til að Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra verði falið að leggja fram frumvarp, eigi síður en í lok árs 2019, um að bannað verði að nota pálmaolíu í lífdísil. Í greinargerðinni segir að regnskógar séu ruddir þegar pálmaolía er unnin og að það hafi ill áhrif á umhverfið og valdi margvíslegum skaða sem brýnt er að girða fyrir með banni.
Pálmaolía með hærra kolefnisspor en jarðefnaeldsneyti
Í greinargerð tillögunnar, sem byggð er á umfjöllun Rannveigar Magnúsardóttur vistfræðings, segir að olíupálmi er fljótvaxinn hitabeltispálmi og upprunninn í Vestur- og Suðvestur-Afríku. Úr ávöxtum þessa pálma er unnin pálmaolía. Pálmaolía er ódýrasta jurtaolían á markaðinum í dag og er að finna í gríðarlegum fjölda neytendavara, jafnt í kexkökum sem í sápu og snyrtivörum. Evrópusambandið samþykkti reglugerð árið 2014 um að merkja þyrfti vörur með pálmaolíu sérstaklega.
Þó stærstur hluti þeirrar pálmaolíu sem framleidd er fari í matvörur og snyrtivörur hefur hún í auknum mæli undanfarinn áratug verið notuð sem eldsneyti eða íblöndun í eldsneyti. Áætlað er að árið 2014 hafi evrópsk farartæki brennt meira en þremur milljónum tonna af pálmaolíu, eða um bil þriðjungur af allri lífeldsneytisnotkun í Evrópusambandinu. Í greinargerðinni segir að hefð hafi verið fyrir því að líta á lífeldsneyti sem kolefnishlutlausa vöru en sú einföldun hefur í raun blekkt stjórnvöld til að trúa því að pálmaolía í lífeldsneyti sé betri fyrir loftslagið en jarðefnaeldsneyti en því miður sé raunin þveröfug.
Lífdísill framleiddur á þremur stöðum hér á landi
Aukin eftirspurn í Evrópu eftir lífeldsneyti hefur orsakað enn meiri framleiðslu á pálmaolíu í Malasíu og Indónesíu, og því fylgir aukin eyðing regnskóga, þurrkun á mólendi, minni líffræðilegur fjölbreytileiki og aukin losun gróðurhúsalofttegunda.
Lífdísill er algengasta lífeldsneyti í Evrópuen en hráefnið sem notað er til framleiðslu lífdísil getur verið margskonar, þar á meðal dýrafita, fiskúrgangur og jurtaolíu. Lífsdísillinn er hægt að nota á allar dísilvélar, þó að í sumum tilfellum þurfi að leggjast í breytingar á eldsneytiskerfinu.Reiknað hefur verið út að lífeldsneyti frá jurtaolíu, sem er um 70 prósent af lífeldsneytismarkaði í Evrópu, losi 80 prósent meira af gróðurhúsalofttegundum en jarðefnaeldsneytið sem verið er að skipta út. Pálmaolía trónir þar hæst og er þrisvar sinnum verri en jarðefnaeldsneyti, en næst á eftir kemur sojaolía sem er tvisvar sinnum verri.
Í greinargerð tillögunnar segir að lífdísill sé framleiddur á þremur stöðum á Íslandi í dag og því sé það nýtt tækifæri til að framleiða eins umhverfisvænan lífdísil og mögulegt er. Í greinargerðinni segir að hægt að sé að nýta fjölmargt annað í framleiðslu lífdísill hér á landi en pálmaolíu, t.d. úrgangsmatarolíu og dýrafitu, endurnýta metanól og mögulega í framtíðinni þörunga. Því leggja þingmennirnir tíu til að bannað verði að nota pálmaolíu í framleiðslu lífdísill hér á landi.
Veldur eyðingu regnskóga
Í greinargerðinni segir að eftirspurn eftir pálmaolíu hafi aukist verulega undanfarna áratugi og til þessa anna henni séu regnskógar ruddir í stórum stíl. Lönd eins og Indónesía og Malasía, sem framleiða langmest af pálmaolíu, hafa nú þegar fellt stóran hluta af regnskógum sínum. Talið er að hið minnsta 15 milljónir hektara af regnskógi sé nú þegar búið að fella fyrir framleiðslu á pálmaolíu, aðallega í Indónesíu og Malasíu. Slíkt landflæmi jafnast á við eitt og hálft Ísland að stærð. Framleiðsla á pálmaolíu hefur tvöfaldast undanfarinn áratug og mun líklega vegna mikillar aukinnar eftirspurnar frá Asíu tvöfaldast aukast enn meira fram til ársins 2020.
Regnskógar eru mjög frjósamir og búa yfir miklum líffræðilegum fjölbreytileika. Á einum hektara í Amazon-frumskóginum hafa til dæmis fundist fleiri en 230 tegundir trjáa. Þar að auki er skógur miklu meira en aðeins tré og því miður tapast einnig margar dýra- og smádýrategundir þegar skógar eru ruddir.
Regnskógar eru auk þess gríðarlega stórar kolefnisgeymslur og sumir regnskógar, einkum í Suðaustur-Asíu, vaxa í kolefnisríkum mýrum. Þegar skógarnir eru ruddir og brenndir aukast áhrif loftslagsbreytinga, því bæði losnar kolefni út í andrúmsloftið þegar skógurinn sjálfur er brenndur og einnig þegar mýrin er ræst fram.
Að auki kviknar oft í þessum mýrum og árið 2015, sem var mjög þurrt ár, var mikill hluti Suðaustur-Asíu hulinn menguðu mistri sem rekja mátti að miklu leyti til skógarelda í Indónesíu vegna pálmaolíuframleiðslu. Við það að breyta regnskógum í plantekrur eru í raun búin til nær líflaus landsvæði þar sem dýr eins og órangútanar eiga sér enga von. Talið er að ef haldið verður áfram að eyðileggja regnskóga Indónesíu á sama hraða gætu órangútanar orðið útdauðir í náttúrunni innan örfárra áratuga. Ennfremur hafa samtökin Amnesty International nýlega komið upp um hræðilegan aðbúnað fólks og barna sem vinnur á pálmaolíuplantekrum þar sem börnum er þrælað út og konur veikjast við að úða skordýraeitri á skógarbotninn.
Síðustu ár hafa því náttúruverndarsamtök þrýst á framleiðendur í vestrænum ríkjum að minnka notkun pálmaolíu eða að minnsta kosti þá sjálfbæra pálmaolíu, þó skiptar skoðanir séu um hvort að það framleiðsla á pálmaolía geti í raun verið sjálfbær.