Fjármálaeftirlitið og Landsbankinn hafa gert með sér samkomulag um að ljúka með sátt máli vegna brota bankans um verðbréfaviðskipti. Með samkomulaginu viðurkennir Landsbankinn að hafa brotið gegn lögum um verðbréfaviðskipti en bankanum láðist að tilkynna í þremur tilvikum um breytingu á verulegum hlut atkvæðisréttar í Heimavöllum. Landsbankinn féllst á að greiða sekt að fjárhæð 15 milljónum. Þetta kemur fram í sátt bankans við fjármálaeftirlitið.
Láðist að tilkynna um viðskiptin
Hinn 21. desember síðastliðinn gerðu Fjármálaeftirlitið og Landsbankinn með sér samkomulag um að ljúka með sátt máli vegna brota Landsbankans um brot á verðbréfa viðskipti. Meginatriði samkomulagsins fela það í sér að Landsbankinn viðurkennir að hafa í tveimur tilvikum brotið gegn 1. mgr. 78. gr. laga um verðbréfaviðskipti, með því að hafa láðst að tilkynna um breytingu á verulegum hlut atkvæðisréttar í Heimavöllum hf. Einnig viðurkennir bankinn að hafa í einu tilviki brotið gegn 1. mgr. 86. gr. sömu laga, með því að hafa láðst að tilkynna um breytingu á verulegum hlut atkvæðisréttar í Heimavöllum hf. innan lögbundins tímafrests.
Þann 31. maí 2018 fór eignarhlutur Landsbankans yfir 5 prósent af útgefnu hlutafé í Heimavöllum hf. án þess að tilkynnt væri um viðskiptin. Jafnframt fór eignarhlutur málsaðila undir 5 prósent af útgefnu hlutafé í Heimavöllum, þann 7. júní 2018, án þess að tilkynnt væri um viðskiptin. Hinn 11. júní 2018 fór eignarhlutur málsaðila yfir 5 prósent af útgefnu hlutafé í Heimavöllum en málsaðili tilkynnti um viðskiptin hinn 27. júní 2018 og láðist því að tilkynna innan tímamarka sem tilgreind eru.
Landsbankinn óskaði eftir að ljúka málinu með sátt
Í sáttinni segir að Landsbankinn óskaði eftir að ljúka málinu í sátt og þá hafi bankinn gripið til ráðstafana til að stuðla að því að atvik sem þessi eigi sér ekki stað á ný. Landsbankinn féllst samkvæmt sáttinni á að greiða sekt að fjárhæð 15.000.000 krónur. Við ákvörðun sektarfjárhæðar var litið til þess að málsaðili tilkynnti Fjármálaeftirlitinu að eigin frumkvæði um öll brotin. Við greiðslu sektarfjárhæðar er málinu lokið.