„Í kvöld var dyrabjöllunni hringt heima hjá mér og mér fært stórt pappírsumslag með nafninu mínu handskrifuðu á. Glaðningurinn reyndist svo vera hótun um lögsókn frá starfsmannaleigunni Mönnum í vinnu. Þar eru talin upp ýmis ummæli sem ég hef látið falla í fjölmiðlum um starfsemi fyrirtækisins. Ég er krafinn um afsökunarbeiðni og 1.000.000 í skaðabætur.“
Frá þessu greinir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri stéttarfélagsins Eflingar, á Facebook síðu sinni.
Starfsmannaleigan Menn í vinnu hefur verið ítrekað til umfjöllunar í fjölmiðlum, bæði í fréttaskýringaþættinum Kveiki á RÚV sem og í öðrum fjölmiðlum, og hafa starfsmenn þar kvartað undan aðstæðum, launum og hvernig staðið hefur verið að málum gagnvart þeim.
Á vef Eflingar var fyrirtækið gert að umtalsefni 8. febrúar, og segir þar meðal annars að Efling hafi gögn undir höndum sem sýni að ekki sé verið að fara að settum lögum og reglum gagnvart starfsfólki.
Í umfjölluninni á vef Eflingar segir meðal annars:
„Í fréttum í gær var sagt frá ömurlegum aðstæðum fólks hjá starfsmannaleigunni Menn í vinnu. Tugir starfsmanna frá Rúmeníu hírast í herbergjum, allt að tíu saman, en borga þó fimmtíu þúsund krónur á mánuði fyrir. Í ráðningarsamningi frá fyrirtækinu sem Efling-stéttarfélag hefur undir höndum er klausa sem segir að undirritaður skuldi leigu sem Menn í vinnu megi draga frá launum, án þess að upphæð eða nokkurs konar leiguvernd sé tiltekin.
Efling hefur lengi beitt sér gegn margítrekuðum brot á kjarasamningum, sem framin eru í skjóli óljósra samninga, útleigu á starfsfólki og skorts á sektarheimildum. Kröfugerð Eflingar, sem samin var af almennum félagsmönnum í haust, benti á mörg úrræði og hafa þau verið rædd við Samtök atvinnulífsins í yfirstandandi kjaraviðræðum. Í kröfugerð er þess meðal annars krafist að heimilt sé að innheima sektir vegna alvarlegra brota á kjarasamningi.“
„Þessi fyrirtæki fara út í svona ótrúlega ósvífni meðal annars vegna þess Efling hefur staðið sig ágætlega í að sækja mál á hendur þeim. Efling knúði stóra starfsmannaleigu í gjaldþrot með metfjölda launakrafna – áttatíu launakröfur – í maí á síðasta ári. Núna koma sömu aðilar til baka eins og stökkbreyttur vírus undir nýjum kennitölum. Núna gera þau þetta nánast rétt á pappírnum, gefa kannski út réttan launaseðil, en hafa fundið nýjar leiðir til að féfletta fólkið framhjá lögum og reglum,“ er meðal annars haft eftir Viðari á vef Eflingar.