Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur sent bréf til Bankasýslu ríkisins þar sem hann óskar þess að hún komi því með afdráttarlausum hætti á framfæri við stjórnir ríkisbankanna Íslandsbanka og Landsbankans að „ráðuneytið telji að bregðast eigi við þeirri stöðu sem upp er komin með tafarlausri endurskoðun launaákvarðana og undirbúningi að breytingum á starfskjarastefnum, sem lagðar verði fram á komandi aðalfundum bankanna.“
Í bréfi Bjarna, sem var sent í dag, segir að það sé ennfremur mat ráðuneytisins að bankarnir hafi með launaákvörðunum fyrir æðstu stjórnendur ekki virt þau tilmæli sem beint var til þeirra í upphafi árs 2017 og sem ítrekuð voru gagnvart nýkjörnum stjórnum síðar það sama ár, þar sem lögð var áhersla á hófsemi og varfærni um launaákvarðanir.
Bjarni segir að af þeim svörum sem borist hafi frá bankaráði Landsbankans og stjórn Íslandsbanka til Bankasýslunnar í síðustu viku megi ráða að túlkun þeirra á viðmiðum vegna launaþróunar sé „þröng og einhliða og að ákvarðanir um launasetningu séu ekki settar í samhengi við og taki ekki tillit til annarra mikilvægra þátta eigandastefnunnar frá 2017. Þannig hafa laun æðstu starfsmanna sem fjallað er um í svarbréfum bankanna verið ákveðin úr hófi og leiðandi.
5,3 og 3,8 milljónir króna á mánuði
Bjarni sendi bréf til stjórna beggja bankanna 12. febrúar síðastliðinn. Sama dag hafði Bankasýsla ríkisins, sem fer með eignarhlut ríkisins í þeim, einnig sent þeim bréf og óskað skýringa á ákvörðunum um laun bankastjóra, hvernig þær samrýmdust eigendastefnu og tilmælum sem beint hafði verið til ríkisfyrirtækja um að sýna hófsemi í launaákvörðunum.
Bankaráð Landsbankans svaraði 19. febrúar og sagði að 82 prósenta hækkun á launum Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra bankans, um mitt ár 2017 væri tilkomin vegna þess að að laun bankastjóra hefðu dregist „langt aftur úr þeim launum sem greidd voru fyrir sambærileg störf“ á árunum 2009 til 2017. Þetta hefði gert það að verkum að laun bankastjórans hafi ekki verið samkeppnishæf og ekki í samræmi við starfskjarastefnu bankans. Þá taldi bankaráðið sig hafa sýnt bæði hófsemi og varkárni þegar samið var um að hækka laun bankastjórans.
Stjórn Íslandsbanka svaraði sama dag og sagðist telja að launakjör Birnu Einarsdóttur, bankastjóra bankans, væri í samræmi við setta starfskjarastefnu bankans. Stjórnin taldi einnig að Birna hafi staðið sig afar vel í starfi og að heildarlaun hennar, sem voru 5,3 milljónir króna á mánuði í fyrra en 4,8 milljónir króna í ár, séu ekki leiðandi eftir að hafa gert samanburð við gögn annarra bankastjóra og forstjóra á Íslandi sem birst hafi í gögnum úr tekjublaði Frjálsrar verslunar og ýmsum ársreikningum.
Áhrif á stöðugleika á vinnumarkaði
Ljóst er að fjármála- og efnahagsmálaráðherra er ekki ánægður með svörin sem honum bárust. Í bréfinu sem hann skrifaði Bankasýslu ríkisins í dag rekur hann ákvæði eigendastefnu ríkisins í fjármálafyrirtækjum og þau tilmæli sem beint var til félaga í eigu ríkisins að sýna hófsemi í launahækkunum forstjóra þegar slíkar ákvarðanir færðust undan kjararáði um mitt ár 2017.
Í bréfinu segir: „Í bréfi ráðuneytisins frá 6. janúar 2017, sem sent var Bankasýslunni og hún kynnti fyrir stjórnum beggja fyrirtækja, var sérstaklega vakin athygli á mikilvægi þess að stjórnir hefðu í huga áhrif launaákvarðana á stöðuleika á vinnumarkaði og ábyrgð félaganna í því sambandi. Fram kom að ráðuneytið teldi æskilegt að launaákvarðanir væru varkárar og forðast ætti að ákvarða miklar launabreytingar á stuttu tímabili en þess í stað gætt að því að laun væru hækkuð með reglubundnum hætti til samræmis við almenna launaþróun. Jafnframt kom fram að æskilegt væri að laun og kjör væru eins einföld og gagnsæ og kostur væri. Ekki á að vera þörf á að útskýra sérstaklega hvað í þessum orðum felst og farið var fram á.“
Virtu ekki tilmælin og eiga að lækka launin
Það sé ennfremur mat ráðuneytisins að bankarnir hafi með launaákvörðunum fyrir æðstu stjórnendur ekki virt þau tilmæli sem beint var til þeirra í upphafi árs 2017 og sem ítrekuð voru gagnvart nýkjörnum stjórnum síðar það sama ár, þar sem lögð var áhersla á hófsemi og varfærni um launaákvarðanir. „Við þá stöðu sem upp er komin verður ekki unað. Traust og trúnaður verður að geta ríkt milli þeirra sem falin er stjórn mikilvægra félaga og þeirra stjórnvalda er bera ábyrgð á starfsemi þeirra sem eigandi. Launaákvarðanir bankanna hafa nú þegar haft veruleg neikvæð áhrif á orðspor þeirra og þannig valdið þeim skaða, auk þess sem þær sendu óásættanleg skilaboð inn í þær kjaraviðræður sem nú standa yfir.“
Bjarni óskar eftir því að Bankasýsla ríkisins komi ofangreindri afstöðu ráðuneytisins á framfæri við viðkomandi stjórnir „með afdráttarlausum hætti og ennfremur því, að ráðuneytið telji að bregðast eigi við þeirri stöðu sem upp er komin með tafarlausri endurskoðun launaákvarðana og undirbúningi að breytingum á starfskjarastefnum, sem lagðar verði fram á komandi aðalfundum bankanna.“