Rakel Sveinsdóttir, formaður stjórnar Félags kvenna í atvinnulífinu, segir að lögin um kynjakvóta í stjórnum félaga, sem tóku gildi haustið 2013, hafi náð tilætluðum árangri í félögum sem eru í eigu hins opinbera. Þar séu hlutföll bæði stjórna og framkvæmdastjóra þannig að um 60 prósent séu karlar og um 40 prósent konur.
Þau lög hafi hins vegar ekki náð tilgangi sínum í einkageiranum, sérstaklega þegar horft er til skráðra félaga á markað, 100 stærstu fyrirtækja landsins og í fjármálageiranum.
Í morgun greindi Kjarninn frá niðurstöðum úttektar sinnar á því hver kynjahlutföll séu á meðal þeirra sem stýra peningum á Íslandi. Sjötta árið í röð er niðurstaðan nánast sú sama: Karlar stýra nær öllum peningum á Íslandi. Og halda þar með um valdaþræðina, en einungis um 11 prósent af þeim sem halda um stóru veskin í íslensku atvinnulífi eru konur.
Aðspurð hvort hún hafi áhyggjur af því að þetta leiði til þess að viðskiptahugmyndir kvenna eigi erfiðara um vik að verða að veruleika, í ljósi þess að langflestir sem sitji við ákvörðunartökuborðið þegar fjárfestingar eru ákveðnar eru karlar, segir Rakel það bersýnilegt að þannig sé hlutunum háttað. „Að sjálfsögðu er það þannig. Við erum með sögur af því að konur mæta öðru viðmót við ákvörðunartökuborðið. Þær fá að heyra orðfæri eins og „vina“ eða „elskan“ sem karlar fá síður að heyra. En það er líka mannlegt að samsvara sér betur við hluti, hugmyndir og verkefni sem við skiljum og tengjum við. Þegar raunin er sú að karlar og konur sitja ekki saman við það að stýra fjármagninu þá endspeglar sú einsleitni þær ákvarðanir sem teknar eru. Karlar velja frekar verkefni og fjárfestingar sem eru leiddar af öðrum karlmönnum.“
Lífeyrissjóðir landsins eru stærstu fagfjárfestar á Íslandi og eiga um helming allra skráðra hlutabréfa annað hvort beint eða óbeint. Rakel segir það sjálfsagða kröfu að þeir fari að beita sér fyrir breytingum á kynjasamsetningu í þeim félögum sem þeir eiga í. „Það er einkennandi að lífeyrissjóðirnir eru svolítið að fría sig af allra eigendaábyrgð. Til dæmis þegar það koma upp óánægjuraddir um laun ákveðins forstjóra þá fylgja þeir alltaf í kjölfarið með sínar óánægjuathugasemdir. Þeir eru ekki að beita sér sem virkir eigendur. Svo má benda á að í lögunum um kynjakvóta er fjallað um hlutfall kynja við ráðningu í framkvæmdastjórnir. Þetta er nú ekki erfiðara en svo að lífeyrissjóðirnir ættu að vera í farabroddi þeirra sem eiga í skráðum félögum við að fara betur eftir lögum.“