Mynd: Bára Huld Beck

Karlar halda þéttingsfast um veskið í íslensku efnahagslífi

Sjötta árið í röð framkvæmdi Kjarninn úttekt á því hver kynjahlutföll séu á meðal þeirra sem stýra peningum á Íslandi. Peningum fylgja enda mikil völd því með þeim er hægt að skapa tækifæri og láta hugmyndir verða að veruleika. Sjötta árið í röð er niðurstaðan nánast sú sama: Karlar stýra nær öllum peningum á Íslandi. Og halda þar með um valdaþræðina.

Í desember 2018 var greint frá því að Íslandi tróni á toppnum á lista Alþjóðaefnahagsráðsins yfir ríki þar sem kynjajafnfrétti er mest. Næst á eftir okkur á listanum eru önnur Norðurlönd: Noregur, Svíþjóð og Finnland, en alls nær úttektin yfir 149 lönd. Hún leggur mat á jafnrétti kynjanna í stjórnmálum, menntun, atvinnu og heilbrigði.

Samkvæmt niðurstöðu úttektarinnar mun það taka heiminn 108 ár að ná fullu jafnrétti karla og kvenna í heiminum. Ísland er, líkt og áður sagði, komið lengst á þeirri vegferð. 85,8 prósent af kynjaójafnréttisbilinu er þegar brúað samkvæmt mælikvörðunum sem miðað er við. Þrátt fyrir forystuhlutverk Íslands þá hefur líka átt sér stað neikvæð þróun hérlendis.

Þannig hafi konum á þingi fækkað í kosningunum 2017. Fjöldi þeirra fór úr mettölunni 30 í 24 og hlutfallið á meðal þingmanna allra úr 47,6 prósent í 38 prósent. Hlutfall kvenna á Alþingi hefur ekki verið lægra eftir hrun. Sigurvegarar þeirra kosninga voru miðaldra karlar, sem juku umfang sitt á meðal þjóðkjörinna fulltrúa umtalsvert.

Í úttekt Alþjóðaefnahagsráðsins segir enn fremur að konum í æðstu embættismannastöðum hafi einnig fækkað sem og hlutfall kvenna á meðal stjórnenda í fyrirtækjum.

Þá hafi þátttaka og tækifæri kvenna í efnahagslífinu líka dregist saman.

Stór skref stigin á ýmsum sviðum

Ísland hefur stigið stór skref í að búa til umgjörð sem á að ýta landinu í átt að meira kynjajafnrétti. Lög hafa verið sett til að tryggja ákveðið jafnfræði milli kynja í stjórnum stærri fyrirtækja landsins og jafnlaunavottun hefur annað hvort verið innleidd eða er í innleiðingarferli mjög víða. Unnið hefur verið út frá kynjaðri fjárlagagerð frá árinu 2009 og frá og með nýliðnum áramótum heyra janfréttismál nú undir forsætisráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur, annars kvennforsætisráðherrans í sögu þjóðarinnar, sem gefur ágætis vísbendingu um það hversu mikilvægan forsætisráðherra telur málaflokkinn vera. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur og þungavigtarmanneskja í stjórnmálum um árabil, var skipuð yfir skrifstofu jafnréttismála fyrr í mánuðinum.

Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi utanríkisráðherra, tekur við viðurkenningu vegna HeForShe-átaksins.
Mynd: Úr safni

Þá hafa íslenskir ráðamenn farið víða um heiminn til að berja sér á brjóst fyrir baráttu sína fyrir kynjajafnrétti, ofbeldi gagnvart konum og þess leiðangurs að karlmenn axli ábyrgð á því að vera hluti af lausninni frekar en kjarninn í vandamálinu. Þetta var meðal gert í gegnum Barbershop- verkfærakistuna og HeForShe-átakið, en Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi utanríkisráðherra, fékk verðlaun fyrir þátttöku sína í því árið 2015 og hélt í kjölfarið ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, meðal annars um málið. Ljóst má vera að orðræða Gunnars Braga um samþingkonur sínar á Klausturbar 20. nóvember 2018 hefur varpað skugga á þessa stöðu. Sú orðræða átti lítið sameiginlegt með markmiðum HeForShe. Þvert á móti.

11,1 prósent eru konur

Alþjóðaefnahagsráðið bendir á að tækifæri kvenna í efnahagstengdum málum séu frekar að versna en hitt. Í tilkynningu sem ríkisstjórnin sendi frá sér vegna úttektarinnar var haft eftir Katrínu Jakobsdóttur að það væri enn væri verk að vinna í málaflokknum. „Lykilatriðið er að skilja að jafnrétti kynjanna er ekki náð og að það kemur ekki af sjálfu sér,“ sagði forsætisráðherra.

Einn flötur samfélagsins þar sem þetta er sannarlega rétt er stýring peninga, og sérstaklega fjármálageirinn. Þar ráða karlar nær öllu sem þeir vilja ráða og hafa gert það alla tíð. Þar með halda þeir um taumanna á flestum buddum sem geta látið hugmyndir verða að tækifærum og tækifæri að stöndugum rekstri.

Kjarninn hefur framkvæmt úttekt á því hvers kyns þeir sem stýra fjármagni á Íslandi eru árlega frá 2014. Úttektin nú er því sú sjötta sem framkvæmd hefur verið.

Í ár nær hún, líkt og í fyrra, til 90 æðstu stjórnenda viðskiptabanka, sparisjóða, lífeyrissjóða, skráðra félaga, óskráðra tryggingafélaga, lánafyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og -miðlana, framtakssjóða, orkufyrirtækja, greiðslustofnana, Kauphallar og lánasjóða. Niðurstaðan nú er sú að 80 þeirra eru karlar en tíu eru konur. Konum fjölgar um eina á milli ára en hlutfall þeirra á meðal helstu stjórnenda fjármagns á Íslandi fer með því úr tíu prósentum í 11,1 prósent milli áranna 2018 og 2019.

Þessi hópur sem fellur undir úttektarskilyrðin stýrir þúsundum milljarða króna og velur í hvaða fjárfestingar þeir peningar rata hverju sinni.

Sjötta árið en nánast sama niðurstaðan

Þegar úttekt Kjarnans var fram­kvæmd fyrst, í febr­úar 2014, voru störfin sem hún náði yfir 88 tals­ins. Þá sátu 82 karlar í þeim störfum en sex kon­ur. Árið 2015 voru störfin 87, karl­arnir 80 og kon­urnar sjö. 2016 voru störfin 92, karlarnir 85 og konurnar sjö. Árið 2017 var niðurstaðan 80 karlar og átta konur. Í fyrra var hún 81 karl og níu konur. Og í ár fjölgaði konunum um eina en körlunum fækkaði um jafnmarga.

Niðurstaðan er sú að lítið sem ekkert hefur breyst á þessum árum sem þó eiga að teljast einhver þau framsæknustu í jafnréttismálum.

Fjöldi karla og kvenna sem stýra peningum á Íslandi:
2014: 82 karlar 6 konur
2015: 80 karlar 7 konur
2016: 85 karlar 7 konur
2017: 80 karlar 8 konur
2018: 81 karlar 9 konur
2019: 80 karlar 10 konur

Það vekur athygli að breytingarnar hafa ekki verið meiri þótt að lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja hafi verið í gildi allan þennan tíma. Þau tóku gildi hér á landi að fullu leyti í september 2013. Samkvæmt þeim ber fyr­ir­tækjum með 50 eða fleiri starfs­­menn að tryggja að hlut­­fall hvors kyns í stjórn sé ekki undir 40 pró­­sent­­um.

Árið eftir það náði hlut­­fall kvenna í stjórnum fyr­ir­tækja af þess­­ari stærð hámarki, fór upp í 33,2 pró­­sent. Það var mikil og þörf breyting frá árum eins og 1999, þegar hlutfallið var 9,5 prósent, og 2007, þegar það var 12,7 prósent. En síðan hefur hlutfallið nánast staðið í stað, og heldur farið lækkandi. Í árslok 2017 var það til að mynda 32,6 prósent.

Staðan einna skást innan viðskiptabankanna

Það er því ljóst að fjölgun kvenna í stjórnum hefur ekki orðið jafn mikil og vonir stóðu til um. Og það er kýrskýrt að sú fjölgun sem hefur átt sér stað hefur ekki skilað mikilli aukningu á kvennstjórnendum í fjármála- og viðskiptaheiminum.

Í úttekt Kjarnans eru talin til öll þau fyrirtæki og fjárfestar sem eru eftirlitsskyld hjá Fjármálaeftirlitinu. Í bönkum landsins er staðan skaplegust. Þar eru tvær konur, Birna Einarsdóttir og Lilja Björk Einarsdóttir, við stýrið á ríkisbönkunum tveimur, Íslandsbanka og Landsbanka. Hjá hinum tveimur bönkunum sem eru í eigu einkaaðila, Arion banka og Kviku banka, eru bankastjórarnir hins vegar karlarnir Höskuldur Ólafsson og Ármann Þorvaldsson. Þá er Íbúðarlánasjóði, sem er stór lánveitandi á Íslandi, stýrt af karlinum Hermanni Jónassyni.

Á Íslandi eru fjórir sparisjóðir enn starfandi. Þremur þeirra er stýrt af körlum en einum af konu. Það er Sparisjóður Suður-Þingeyinga sem er stýrt af sparisjóðsstjóranum Gerði Sigtryggsdóttur.

Þá lúta alls fimm lánafyrirtæki eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Einu þeirra, Lykli, er styrt af konu, Lilju Dóru Halldórsdóttur, en að öðru leyti halda karlmenn um þræðina innan þeirra. Um að ræða stór fyrirtæki og stofnanir. Hin fjögur eru Borgun, Valitor, Lánasjóður sveitarfélaga og Byggðastofnun.

Framtíðin lánasjóður er skráður eftirlitskyldur lánveitandi. Í byrjun mars 2018 var kona, Vala Halldórsdóttir, ráðinn sem framkvæmdastjóri hans í stað karls. Þá eru tvö hagnaðardrifinn leigufélög í landinu, Almenna leigufélagið og Heimavellir. Öðru er stýrt af konu en hinu karli.

Verðbréfafyrirtækin öllum stýrt af körlum

Að venju er kynjastaðan verst hjá verðbréfafyrirtækjum og rekstrarfélögum verðbréfasjóða, þeirra sem hagnast af því að flytja peninga frá þeim sem eiga þá og í þau viðskiptatækifæri sem skapast, og þiggja þóknanatekjur fyrir. Stærstu viðskiptavinir flestra þeirra eru íslenskir lífeyrissjóðir.

Samkvæmt yfirlitslista Fjármálaeftirlitsins eru níu verðbréfafyrirtæki starfandi á Íslandi. Þau eru ALM Verðbréf, Arctica Finance, Arev verðbréfafyrirtæki, Centra Fyrirtækjaráðgjöf, Fossar markaðir, Íslensk verðbréf, Íslenskir fjárfestar, Jöklar-Verbréf og T Plús. Öllum er stýrt af körlum.

Rekstrarfélög verðbréfasjóða eru líka níu talsins. Þau heita Akta sjóðir, GAMMA, Íslandssjóðir, ÍV sjóðir, Júpíter rekstrarfélag, Landsbréf, Rekstrarfélag Virðingar, Stefnir og Summa rekstrarfélag. Þeim er líka öllum stýrt af körlum.

Þá er til ein innlánsdeild samvinnufélaga á Íslandi, hjá Kaupfélagi Skagfirðinga sem stýrt ef af karlinum Þórólfi Gíslasyni. Þeirri deild verður reyndar lokað á þessu ári.

Hjá innheimtuaðilum (Aur app, Fjárvakur, Inkasso, Momentum, Motus og Premium) er staðan þannig að stjórnendurnir eru fimm karlar og ein kona, Ásta Rós Reynisdóttir. Einn skiptimarkaður með sýndarfé er eftirlitsskyldur á Íslandi, fyrirtækið Skiptimynt ehf. Því er stýrt af karli. Þá er ein skráð greiðslustofnun, Kortaþjónustan. Í byrjun árs 2018 var Björgvin Skúli Sigurðsson ráðinn forstjóri hennar en hann entist einungis tæpt ár í starfi. Í desember síðastliðnum var Jakob Ásmundsson ráðinn í hans stað.

Öll skráðu félögin með karla í forstjórastólnum

Ástandið á hlutabréfamarkaði er síðan nánast kostulegt. Markaðsvirði þeirra 18 félaga sem skráð eru á aðalmarkað og þeirra fimm sem skráð eru á First North markaðinn, var 960 milljarðar króna í lok síðasta árs. Um er að ræða stærstu þjónustufyrirtæki landsins á flestum sviðum, tvo banka, stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins, þrjú af fjórum stærstu tryggingafélögunum, stærstu fasteignafélögin og tvo banka af fjórum. Öllum þessum 23 félögum er stýrt af körlum.

Þær eru ekki margar konurnar sem hafa fengið að hringja kauphallarbjöllunni.
Mynd: Nasdaq Iceland

Frá því að íslenskur hlutabréfamarkaður var endurreistur eftir hrun, að mestu sem vettvangur til að koma fyrirtækjum sem bankar sátu með í fanginu vegna þess í nýtt eignarhald, þá hefur einungis ein kona stýrt skráðu félagi á Íslandi. Það var Sigrún Ragna Ólafsdóttir, sem var forstjóri VÍS frá 2011 til 2016, meðan annars í gegnum skráningarferli þess félags. Henni var sagt upp störfum síðla sumars 2016. Ekkert skráð félag hefur ráðið konu sem forstjóra eftir skráningu. Ekki eitt einasta.

Þá ber þess að geta að forstjóri Kauphallar Íslands er áfram sem áður karlinn Páll Harðarson.

Vert er að taka fram að þau eftirlitsskyldu fyrirtæki sem eru líka skráð á markað eru ekki tvítalin í þessari úttekt.

Lifeyrissjóðirnir haldast áfram karllægir

Stærstu fagfjárfestar á Íslandi eru annars vegar lífeyrissjóðir og hins vegar tryggingafélög, sem þurfa að ávaxta þau iðgjöld sem skjólstæðingar og viðskiptavinir þeirra greiða til þeirra.

Til að setja umfang þeirra í samhengi þá áttu lífeyrissjóðir landsins eignir sem metnar voru á 4.239 milljarða króna í lok desember síðastliðins. Þeir eiga nú þegar um þriðjung af heildarfjármunum á Íslandi og það hlutfall mun bara hækka á næstu árum og áratugum. Spár gera ráð fyrir að árið 2060 muni þeir eiga um 40 prósent af þeirri köku. Þeir hafa stækkað mjög hrátt á árunum eftir hrun og fjármagnshöftin sem sett voru á í nóvember 2008 gerðu það að verkum að þeir þurftu að uppistöðu að fjárfesta innanlands. Umfang þeirra á Íslandi hefur því aukist mjög hrátt. Sem dæmi má nefna að árið 2006 áttu þeir um sex prósent allra skráðra hlutabréfa í íslensku kauphöllinni. Tíu árum síðar áttu þeir 41 prósent þeirra. Árið 2006 áttu lífeyrissjóðirnir 41 prósent allra markaðsskuldabréfa og víxla á Íslandi. Áratug síðar hafði hlutfallið hækkað í tæp 70 prósent.

Alls eru 22 lífeyrissjóðir starfandi á landinu. Sumum er stýrt af sömu einstaklingum og því eru stjórnendur þeirra 16 talsins. Af þeim eru 14 karlar og tvær konur. Þrír sjóðir: Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Gildi lífeyrissjóður, eru langstærstu sjóðir landsins og stýra um helmingi af fjármagninu sem lífeyrissjóðakerfið hefur yfir að ráða.

Tryggingafélög landsins eru miklu mun minni en samanlagðar eignir þeirra námu samt sem áður 195,6 milljörðum króna í lok síðasta árs. Öllum fjórum tryggingafélögunum, VÍS, Sjóvá, TM og Verði er stýrt af körlum.

Framtakssjóður Íslands, sem var umsvifamikill umbreytingarfjárfestir á Íslandi á undanförnum árum, og þá í eigu lífeyrissjóða og um tíma ríkisbanka, hætti störfum snemma á árinu 2018. Honum var stýrt af konu, Herdísi Fjelsted, og með niðurlagningunni fækkaði því kvennkyns stjórnendum áhrifamikilla fjárfesta í íslensku viðskiptalífi um einn.

Þá eru átta orkufyrirtæki í landinu. Lengi vel var þeim öllum stýrt af körlum en fyrr á þessu ári var Berglin Rán Ólafsdóttir ráðin framkvæmdastjóri Orku Náttúrunnar í kjölfar mikilla átaka innan þess fyrirtækis vegna meintrar kynferðislegrar áreitni.

Samtals gera þetta 90 stöður. Í þeim sitja, líkt og áður sagði, 80 karlar og tíu konur.

Karlar með sterkari stöðu víða annars staðar í samfélaginu

Víða annarsstaðar í áhrifastöðum á Íslandi er enn aðeins í land með að ná jafnri stöðu kynjanna. Í ríkisstjórn er kynjahlutfallið til að myndalíka körlum í hag. Þar sitja sex karlar og fimm konur. Forsætisráðherra er hins vegar konan Katrín Jakobsdóttir. Það er í annað sinn í lýðveldissögunni sem kona situr í því embætti. Sú fyrsta var Jóhanna Sigurðardóttir sem var forsætisráðherra 2009-2013.

Þá er seðlabankastjóri karl en sú breyting varð á í fyrra að annar aðstoðarseðlabankastjórinn er nú kona, þegar Rannveig Sigurðardóttir hagfræðingur var skipuð í stöðuna. Auk þess er forstjóri Fjármálaeftirlitsins konan Unnur Gunnarsdóttir.

Á Alþingi eru 24 konur. Þær dreifast ójafnt á flokka. Miðflokkurinn, nú stærsti stjórnarandstöðuflokkur landsins, samanstendur til að mynda af átta körlum og einni konu. Hjá Sjálfstæðisflokknum eru tólf karlar og fjórar konur.Hjá Pírötum eru karlarnir fjórir en konurnar tvær og hjá Samfylkingu eru karlarnir fjórir en konurnar þrjár. Kynjahlutfallið í tveimur minnstu þingflokkunum, hjá Viðreisn og Flokki fólksins sem samanlagt eru með sex þingmenn, eru jafnt.

Einungis tveir þingflokkar eru með fleiri konur innanborðs en karla: annars vegar Vinstri græn, þar sem konurnar eru sex og karlarnir fimm, og hins vegar Framsóknarflokkurinn, þar sem konurnar eru fimm en karlarnir þrír. Allir karlarnir þrír hjá Framsóknarflokknum eru þó í mjög áhrifamiklu stöðum: tveir eru ráðherrar og sá þriðji formaður fjárlaganefndar, áhrifamestu þingnefndar Alþingis.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar