Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, býst við því að arðgreiðslur fyrirtækisins muni tvöfaldast hið minnsta fyrir árið 2018 og verði á bilinu 3 til 4 milljarðar. Landsvirkjun, sem er að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins, hagnaðist um 14 milljarða króna á síðasta ári. Rekstrartekjur félagsins hækkuðu til muna og fyrirtækið hefur staðið í skuldaniðurgreiðslum á undanförnum árum. Nú þykir því hafa skapast skilyrði til að auka arðgreiðslur í skrefum til eiganda síns, íslenska ríkisins. Fyrir liggur frumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um nýtingu arðgreiðslna Landsvirkjunar í svokallaðan Þjóðarsjóð.
Skapast skilyrði til að auka arðgreiðslur
Landsvirkjun, hagnaðist um 121 milljón dala, eða 14 milljarða króna, í fyrra. Rekstrartekjur félagsins hækkuðu um 50,8 milljónir dala á milli ára og námu 533,9 milljónum dala, eða 61,9 milljörðum króna. EBITDA hagnaður, rekstrarhagnaður fyrir fjármagnskostnað, skatta og afskriftir, var 45,2 milljarðar króna og EBITDA hlutfall fyrirtækisins var 73 prósent af tekjum. Þetta kemur fram i ársreikning Landsvirkjunar
Í ársreikningum er haft eftir Herði Arnarssyni, forstjóra Landsvirkjunar, að árið 2018 hafi verið gott ár í rekstri fyrirtækisins. „Tekjur hækkuðu um 11% milli ára og hafa aldrei verið meiri, en þar munaði mestu um aukið selt magn og hækkandi álverð.“
Hörður segir jafnframt að eftir framkvæmdir síðustu ára, sem hafi að mestu verið fjármagnaðar með sjóðsstreymi, haldi nettó skuldir nú áfram að lækka. „Hlutfall nettó skulda á móti EBITDA-rekstrarhagnaði er nú komið niður í 4,8 og hefur skuldsetning á þennan mælikvarða aldrei verið minni í sögu fyrirtækisins. Nú hafa skapast skilyrði til að auka arðgreiðslur Landsvirkjunar í skrefum til eiganda síns, en síðastliðinn áratug hefur fyrirtækið fjárfest fyrir um einn milljarð dollara í nýjum orkumannvirkjum og á sama tíma greitt niður skuldir fyrir einn milljarð dollara.“
Í fyrra nam hagnaður Landsvirkjunar 108 milljónum Bandaríkjadala, sem nemur um 13 milljörðum króna. Þá nam arðgreiðsla Landsvirkjunar 1,5 milljörðum í fyrra en forstjóri Landsvirkjunar telur að talan muni tvöfaldast hið minnsta fyrir árið 2018. „Það verður ákveðið á aðalfundi í apríl en ég geri ráð fyrir að arðgreiðslur muni tvöfaldast fyrir árið 2018 og fara í 3 til 4 milljarða. Síðan mun það jafnvel tvöfaldast árið eftir. Ég myndi segja að við munum komast í 10-20 milljarða á tveimur árum,“ sagði Hörður í samtali við Morgunblaðið.
Frumvarp um Þjóðarjóð
Frumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um þjóðarsjóð, sem ávaxtar ávinning íslenska ríkisins af orkuauðlindum, er komið fram og í meðferð á þingi. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um stofnun þjóðarsjóðs en málið er engu síður umdeild og ekki einhugur um það hjá stjórnarflokkunum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að sjóðurinn verði fjármagnaður með fjármagni sem kemur frá orkuauðlindum á forræði ríkinu.
Kjarninn fjallaði ítarlega um Þjóðarsjóðinn í síðustu viku en þar segir að þegar horft er til þess að arðgreiðslur Landsvirkjunar munu stigmagnast á næstu árum, þá geti heildareignir Þjóðarsjóðsins farið í allt að tæplega 400 milljarða króna miðað við 3,5 prósent ávöxtun á ári, á tiltölulega skömmum tíma, 10 til 20 árum.
Það gætu því verulegar fjárhæðir safnast í sjóðinn en í sáttmála núverandi ríkisstjórnar segir: „Þjóðarsjóður verður stofnaður utan um arð af auðlindum landsins og byrjað á orkuauðlindinni. Hlutverk sjóðsins verður að byggja upp viðnám til að mæta fjárhagslegum áföllum. Afmarkaður hluti ráðstöfunarfjár sjóðsins verður notaður til að efla nýsköpun og styðja við vöxt og þroska sprotafyrirtækja. Með því verður fræjum sáð til eflingar nýrra vel launaðra starfa í framtíðinni. Einnig verður hluti nýttur til átaks í uppbyggingu hjúkrunarrýma fyrir elstu kynslóðina.“
Frumvarp Bjarna sýnir hins vegar að horft er fyrst og fremst til þess að sjóðurinn verði nýttur til mótvægisaðgerða í áföllum í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þannig er í frumvarpinu gengið út frá langtímasjónarmiðum um uppbyggingu á mjög burðugum sjóði sem geti tekist á við afleiðingar af stórum, ófyrirséðum og fátíðum áföllum á opinber fjármál, fremur en að sjóðurinn sjálfur fjármagni beinlínis bætur vegna t.d. tjóns tiltekinna atvinnugreina eða hópa.
Eins og áður sagði er ekki einhugur meðal stjórnarflokkanna um Þjóðarsjóðinn en nýlegar yfirlýsingar Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgönguráðherra og formanns Framsóknarflokksins, sýna glögglega að það sé ekki einhugur meðal ríkisstjórnarflokkanna um það hvernig eigi að ráðstafa þeim fjármunum sem koma munu frá Landsvirkjun á næstu árum. Sigurður Ingi nefndi að hægt væri að nýta arðgreiðslur frá Landsvirkjun til að fjármagna tug milljarða vegaframkvæmdir, fremur að horfa til veggjalda. Þetta samræmist ekki áformum um að safna arðgreiðslum Landsvirkjunar í Þjóðarsjóð.