Níu þingmenn sem sitja í velferðarnefnd hafa óskað eftir því að ríkisendurskoðandi geri stjórnsýsluendurskoðun á starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins. Óskað er eftir því að í skýrslunni verði dregið fram hvernig stofnuninni hefur tekst að uppfylla lögbundið hlutverk sitt. Í greinargerð beiðninnar segir að Tryggingastofnun hafi skert lífeyrisgreiðslur örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega í um áratug án lagaheimildar. Þúsundir manns hafi orðið fyrir skerðingu vegna bresta í málsmeðferð stofnunarinnar. Því sé það mikilvægt að við slíkar aðstæður sé kannað hvort réttindi lífeyrisþega séu tryggð að fullu í samskiptum þeirra við stofnunina. Óskað er eftir að ríkisendurskoðandi skili Alþingi skýrslu eigi síðar en 1. júní 2019.
Tryggingastofnun skert lífeyrisgreiðslur án heimilda
Í stjórnarskránni er kveðið á um að stjórnvöld hafi skyldu til að tryggja í lögum aðstoð við örorku-, endurhæfingar- og ellilífeyrisþega. Í greinargerðinni segir að það sé því afar mikilvægt að sú stofnun sem hefur það hlutverk að annast framkvæmd lífeyristrygginga almannatrygginga gæti í hvívetna að réttindum einstaklinganna, ellegar bregðist stjórnvöld stjórnarskrárbundinni skyldu sinni gagnvart almenningi.
Í greinargerðinni segir að þeir sem þiggi bætur frá Tryggingastofnun ríkisins séu oft í tekjulægstu hópum samfélagsin og sá lífeyrir sem þeir hljóti frá stofnunni sé oftast eina eða helsta uppistaðan í takmörkuðum tekjum þeirra. Þessir hópar reiði sig því að miklu leyti á greiðslur Tryggingastofnunar til lífsviðurværis og því afar mikilvægt að staða þeirra í samskiptum við stofnunina sé trygg og réttindi þeirra virt í hvívetna. Því telji þingmennirnir það því sérstaklega nauðsynlegt að vönduð stjórnsýsla sé viðhöfð við meðferð mála þegar íþyngjandi ákvarðanir um skerðingu lífeyrisréttinda eru teknar. Í því sambandi sé jafnframt nauðsynlegt að þau lög sem um stofnunina gilda tryggi að ákvarðanir um skerðingu réttinda verði ekki teknar nema fyrir þeim sé viðhlítandi lagaheimild.
Aftur á móti hafi að undanförnu komið í ljós dæmi um bresti í málsmeðferð Tryggingastofnunar. Þúsundir manns hafi orðið fyrir skerðingum vegna túlkunar stofnunarinnar á ákveðnum ákvæðum í lögum um almannatryggingar. Þá hafi einstaklingar sem búið hafa erlendis, en innan EES-svæðisins, orðið fyrir skerðingum á rétti sínum til örorkulífeyris á grundvelli beitingar ákvæðanna. Umboðsmaður Alþingis hafi hins vegar komst að þeirri niðurstöðu að slíkt væri rangt í áliti í máli nr. 8955/2016. „Þannig hefur Tryggingastofnun ríkisins skert lífeyrisgreiðslur örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega í um áratug án lagaheimildar. Mikilvægt er við slíkar aðstæður að kanna hvort réttindi lífeyrisþega séu tryggð að fullu í samskiptum þeirra við stofnunina,“ segir í greinargerðinni.
Óskað eftir ábendingum um hvaða aðgerðir þurfi að grípa til
Skýrslubeiðnin er lögð fram af öllum nefndarmönnum velferðarnefndar Alþingis að frátöldum Ásmundi Friðrikssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Í skýrslubeiðninni er meðal annars óskað eftir því að að ríkisendurskoðandi meti árangur Tryggingastofnunar við framkvæmd lífeyristrygginga almannatrygginga samkvæmt lögum. Auk þess að kannað sé hvort að starfsemi Tryggingastofnunar og þær verklagsreglur sem stofnunin hefur sett sér um meðferð stjórnsýslumála sé í samræmi við sjónarmið um málefnalega og viðurkennda stjórnsýsluhætti.
Jafnframt óska þingmennirnar eftir að kannað verði hvort framlög ríkisins til stofnunarinnar tryggi með fullnægjandi hætti að hún geti sinnt því hlutverki sem henni er falið. Að auki sé stuðningur félagsmálaráðuneytis við starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins kannaður og viðbrögð ráðuneytisins við athugasemdum um meinbugi á lögum og reglugerðum sem torveldað gætu störf Tryggingastofnunar metin. Að lokum er óskað eftir því að Ríkisendurskoðun komi með ábendinguar um til hvaða aðgerða þurfi að grípa þannig að Tryggingastofnun megi sem best sinna lögbundnu hlutverki sínu svo að vönduð og málefnaleg stjórnsýsla verði tryggð í starfsemi stofnunarinnar.