Gengi bréfa í Icelandair hefur sveiflast mikið, frá degi til dags, á undanförnum vikum á mánuðum en á síðustu viðskiptadögum hefur verðmiðinn á fyrirtækinu rokið upp.
Í dag hækkaði gengi bréfa félagsins um 6,35 prósent og nemur markaðsvirði félagsins nú um 42 milljörðum króna. Á undanförnu ári hefur verðmiðinn hins vegar lækkað verulega eða um 47 prósent.
Ástæðan fyrir miklum sveiflum á gengi bréfa félagsins á undanförnum mánuðum má að miklu leyti rekja til tíðinda af WOW air, en félagið hefur frá því í haust reynt að tryggja sér fjármagn til rekstrarins sem dugar til að tryggja framtíð félagsins. Tíðindi af þessum helsta keppinaut Icelandair, þegar kemur að flugi til og frá Íslandi, hafa mikil áhrif á markaði.
Rekstur Icelandair hefur gengið erfiðlega undanfarin misseri en félagið tapaði 6,8 milljörðum króna á fjórða fjórðungi síðasta árs.
Eins og greint var frá fyrir helgi, þá ætla WOW air og bandaríska félagið Indigo Partners að taka sér mánuð til viðbótar, til 29. mars, til að reyna að ná samkomulagi um fjárfestingu síðarnefnda félagsins í WOW air.
Stjórnvöld fylgjast nú náið með stöðunni, eins og greint hefur verið frá í umfjöllun Kjarnans, og það við um ríkisstjórn, yfirmenn Samgöngustofu, ISAVIA og eftirlitsstofnanna í fjármálakerfinu, Seðlabankans og FME.
Ríkisstjórnin átti fund seinni partinn á fimmtudaginn síðastliðinn, þar sem málefni er tengdust WOW air voru meðal annars rædd, þó fundurinn hafi verið boðaður af öðru tilefni.
Í ljósi þess að staða WOW air er metin fallvölt, samkvæmt heimildum Kjarnans, ef ekki tekst að útvega félaginu fjármagn á næstu misserum, þá hafa yfirvöld sett sig í þær stellingar að illa geti farið en vonir standa þó alltaf til þess að það takist að tryggja fjármögnun félagsins. Arion banki á töluverða hagsmuni undir sem lánveitandi, en bankinn hefur nú þegar farið illa út úr falli flugfélags þegar Primera Air fór í gjaldþrot í lok síðasta árs.
Ljóst er að fall WOW air gæti haft víðtækar neikvæðar afleiðingar á hagkerfi landsins, eins og fram hefur komið áður, og var meðal annars ein sviðsmynd stjórnvalda, sem greind var í fyrra, á þá leið að hagvöxtur gæti farið niður um 3 prósent við fall félagsins.
Undanfarna mánuði hefur þó tekist að vinna mikilvægan tíma til að endurskipuleggja stöðuna, bæði hjá Icelandair og WOW air, en félagið greip meðal annars til sársaukafullra aðgerða í desember þegar 350 starfsmenn misstu vinnuna hjá félaginu í hagræðingaraðgerðum.
Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, sagði við það tilefni að aðgerðirnar hefðu verið nauðsynlegar til að styrkja fjárhaginn og endurskipuleggja framtíðarstefnuna, í takt við væntingar og mat Indigo Partners.
Staðan í viðræðum WOW air og Indigo er gerð að umtalsefni í umfjöllun á breska viðskiptavefnum City AM. Þar segir að helst sé deilt um það í viðræðunum hversu mikið Skúli Mogensen eigi að fá stóran eignarhlut í félaginu ef Indigo ákveður að fjárfesta.
Eru heimildarmenn City AM meðal annars hafðir fyrir því að staða WOW air sé alvarleg, og það sé ekki óeðlilegt að Indigo geri kröfu um að fá stóran eignarhlut, og að hlutur Skúla þynnist út.
WOW air tapaði 33,6 milljónum dala, sem jafngildir um 4,2 milljarði króna, á fyrstu níu mánuðum ársins í fyrra. Á sama tímabili árið á undan nam tap félagsins 13,5 milljónum dala, jafnvirði tæplega 1,7 milljarða króna miðað við núverandi gengi.
Mikið er í húfi fyrir íslenskt efnahagslíf, eins og áður segir, enda hefur WOW air verið í lykilhlutverki við uppgang í ferðaþjónustu og efnahagslífi landsins, á undanförnum árum, og flutt til landsins 600 til 700 þúsund ferðamenn á ári, með tilheyrandi margfeldisáhrifum á efnahag landsins.