Meirihluti landsmanna er andvígur því að slakað verði á reglum um innflutning á ferskum matvælum í samræmi við EES-samninginn eða alls 52 prósent. Flestir svarenda sögðust vera mjög andvígir tilslökun slíkra reglna eða um 34,4 prósent en frekar andvíg voru um 15 prósent. Um þriðjungur landsmanna eða rúm 32 prósents sagðist vera frekar fylgjandi tilslökun. Þeir sem svöruðu hvorki né eða vildu ekki svara voru um 20 prósent. Þetta kemur fram í könnun sem Zenter rannsóknir unnu fyrir Fréttablaðið. Könnunin var framkvæmd dagana 28. febrúar og 1. mars.
Stuðningsfólk Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata hlynnt tilslökun
Í könnuninni var spurt var „Hversu hlynntur eða andvígur ertu því að slakað verði á reglum um innflutning á ferskum matvælum í samræmi við EES samninginn?“ Sé litið til afstöðu eftir stjórnmálaflokkum þá má sjá að stuðningsfólk Viðreisnar og Samfylkingarinnar eru líklegust til að vera hlynnt innflutning eða tæp 60 prósent af stuðningsfólki Viðreisnar og 53 prósent stuðningsfólks Samfylkingarinnar. Meirihluti stuðningsfólks Pírata voru einnig hlynnt tilslökun á reglunum eða um 52 prósent. Af þeim sem sögðust styðja Vinstri grænna voru aðeins 19 prósent hlynntir tilslökuninni en alls 67 prósent andvíg.
Rétt rúmur helmingur stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins, 52 prósent, er andvígur tilslökun, stór hluti þeirra vildi hins vegar ekki taka ekki afstöðu en um 32 prósent þeirra segjast hlynnt þeim. Andstaða við innflutninginn er þó mest meðal stuðningsmanna Framsóknarflokksins þar sem einungis 10 prósent eru hlynnt innflutningi á ferskum matvælum. Af stuðningsmönnum Miðflokksins sögðust 15 prósent vera hlynnt tilslökuninni.
Í niðurstöðum könnunarinnar kemur einnig fram að mun fleiri eru andvígir tilslökun reglanna á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt kemur fram að að stuðningur við innflutning eykst með menntunarstigi fólks og auknum tekjum, með þó þeirri undantekningu að færri eru andvígur meðal þeirra sem hafa lægstu tekjurnar. Afstaðan er nokkuð breytileg eftir aldri en þeir sem eru 65 ára og eldri eru þó tölvört andvígari tilslökuninni en aðeins 20 prósent þeirra sögðust vera fylgjandi tilslökun.
Brot á EES-samningnum
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnti í lok febrúar frumvarp sem felur í sér að frystiskylda á innfluttu kjöti verði afnumin og heimilt verði að flytja inn ferskt kjöt, fersk egg og vörur úr ógerilsneyddri mjólk. Frumvarpið er lagt fram í kjölfar þess að á síðustu tveimur árum hafa bæði EFTA-dómstóllinn og Hæstiréttur Íslands staðfest að íslensk stjórnvöld hafa brotið gegn EES-samningnum með núverandi leyfisveitingakerfis vegna innflutnings á ákveðnum landbúnaðarafurðum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þá hefur skaðabótaskylda íslenska ríkisins vegna þessa verið staðfest.
Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að markmið frumvarpsins sé að íslensk stjórnvöld standi við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Ísland hafi undirgengist á sama tíma og öryggi matvæla og vernd lýðheilsu og búfjárstofna sé tryggð. Ráðherra kynnti því samtímis aðgerðaáætlun með mótvægisaðgerðum með það fyrir augum að verja íslenska búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Nái frumvarpið fram að ganga munu hömlur á innflutningi falla niður þann 1. september næstkomandi.
Frumvarpsdrögin eru nú í samráðsgátt stjórnvalda en skiptar skoðanir eru um frumvarpsdrögin. Bændasamtök Íslands hafa gagnrýnt frumvarpið harðlega í umsögn sinni um frumvarpið sem og grasrót Framsóknarflokksins. Félag atvinnurekanda sem hafa barist fyrir að reglunum sé breytt undanfarin ár fagna hins vegar frumvarpinu.