Landssamband veiðifélaga hefur gert alvarlegar athugasemdir við frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi. Sambandið mótmælir því sérstaklega að í frumvarpinu er kveðið á um að setja eigi á fót samráðsnefnd með fulltrúum hagsmunaaðila sem fjalla á um áhættumat erfðablöndunar. Sambandið segir að með þessu háttalagi muni ráðherra grafa undan áhættumatinu.
Í fréttatilkynningu frá Landssambandinu segir að áhættumatið sé í raun gert að tillögu Hafrannsóknarstofnunnar en í frumvarpinu er einnig kveðið á um að ráðherra eiga að staðfesta matið. Þessar breytingar eru að mati sambandsins „skýlaust brot“ á undirrituðu samkomulagi sem náðist um meðferð áhættumatsins í lögum sem samþykkt var í starfshópi um stefnumótun í fiskeldi. Kristján Þór hefur boðað til málþings um áhættumatið í næstu viku.
Frumvarpsdrögin meingölluð
Kristján Þór lagði fram frumvarp um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi á Alþingi í síðustu viku. Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að frumvarpið byggi á sáttmála ríkisstjórnarinnar og var við undirbúning þess byggt að verulegu leyti á skýrslu starfshóps um stefnumótun í fiskeldi sem skilaði tillögum sínum með skýrslu hinn 21. ágúst 2017. Frumvarpsdrögin voru birt á samráðsgáttinni í desember síðastliðnum og alls bárust 31 umsögn um frumvarpið.
Landssamband veiðifélaga skilaði inn umsögn um frumvarpsdrögin í janúar. Í umsögninni segir að frumvarpsdrögin séu svo „meingölluð“ að óhjákvæmilegt væri að gerðar yrðu grundvallarbreytingar á drögunum. Þá segir jafnframt í umsögninni að ámælisvert sé að ekki sé að finna skýra stefnumörkun í frumvarpinu um greiðslu fiskeldisfyrirækja fyrir afnot af sameiginlegri auðlind. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar komi fram að gæta skuli varúðar við uppbyggingu fiskeldis á Íslandi og stuðla skuli að sjálfbærni með vernd lífríkisins að leiðarljósi.
Í umsögn sinni leggur sambandið áherslu á að við lagabreytingar verði þessi stefna ríkisstjórnar mörkuð og stuðlað verði að ábyrgu fiskeldi þar sem sjálfbær þróun og vernd lífríkis er höfð að leiðarljósi á grundvelli vísinda og rannsókna, líkt og segir í sáttmála ríkistjórnarinnar. Í umsögn sambandsins segir hins vegar að frumvarpsdrög gangi þvert gegn þeirri fullyrðingu og að engin tilraun sé gerð til að móta slíka stefnu. Jafnframt segir að mörg ákvæði séu til þess fallin að veikja stöðu þeirra sem vilja ekki óheft sjókvíaeldi á norskum laxi í sjó við Ísland frá því sem nú er. Þá segir í umsögninni að „verði það frumvarp sem hér er til umfjöllunar óbreytt að lögum er verið að efna til stórfelldra átaka stjórnvalda og löggjafans við okkur sem gætum hagsmuna veiðiréttareigenda að lögum“
Jafngildir vantraustsyfirlýsingu ráðherra á Hafrannsóknarstofnun
Í umsögn sambandsins og í fréttatilkynningu þess sem birt var í morgun segir að sambandið mótmæli því sérstaklega að kveðið er á um sett verði á laggirnar samráðsnefnd um áhættumat erfðablöndunar. Í frumvarpinu segir að ráðherra muni skipa samráðsnefnd um fiskeldi til fjögurra ára í senn. Nefndin á að vera stjórnvöldum til ráðgjafar vegna málefna fiskeldis. Í því felst meðal annars að leggja mat á forsendur og úrvinnslu þeirra gagna sem áhættumat erfðablöndunar byggir á. Í henni eiga sæti sjö fulltrúar. Þrír fulltrúar skulu skipaðir án tilnefningar og er einn þeirra formaður, einn samkvæmt tilnefningu Hafrannsóknastofnunar, einn samkvæmt sameiginlegri tilnefningu fiskeldisstöðva, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands veiðifélaga og einn samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Sambandið gagnrýnir meðal annars að hvergi sé að finna rökstuðning í greinargerð fyrir nauðsyn nefndarinnar. „Hvergi má finna rökstuðning í greinargerð um nauðsyn þess að leikmenn skuli endurskoða verk okkar fremstu vísindamanna á Hafrannsóknarstofnun. Þegar ráðherra vegur með þessum hætti að einni mikilvægustu vísindastofnun Íslands sem undir hans ráðuneyti heyrir, þarfnast slíkt rökstuðnings og nákvæmra útskýringa. Landssambandið lítur þannig á að þetta ákvæði í fyrirliggjandi frumvarpsdrögum jafngildi vantraustsyfirlýsingu ráðherra á Hafrannsóknarstofnun og þá vísindamenn sem þar starfa.“
Jafnframt segir í frumvarpinu að ráðherra staðfesti áhættumat efðablöndunar að fenginni tillögu Hafrannsoknarstofnunar. Að mati sambandsins er ráðherra með þessu ákvæði fært „óskorðað vald“ til að hafa niðurstöður áhættumats að engu þegar hann annað hvort staðfestir áhættumat eða synjar því. Í umsögninni segir jafnframt að þá sé áhættumat Hafrannsóknarstofnunar orðin tillaga Hafrannsóknarstofnunar að áhættumati sem eigi síðan eftir að „sæta þvæling til svonefnds samráðsvettvangs sem er þá orðin nokkurskonar yfirvísindstofnun og enn síðar rannsóknar til staðfestingar.“
Virðist gert í þeim tilgangi að færa ráðherra geðþóttavald yfir umhverfismálum fiskeldis
Í nóvember 2016 skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp um stefnumótun í fiskeldi á Íslandi. Í starfshópinn voru fulltrúar frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu, Matís, Landssambandi fiskeldisfyrirtækja og Landssambandi veiðifélaga. Hópurinn skilaði af sér skýrslu með tillögum í ágúst 2017. Í fyrrnefndri umsögn Landssambands veiðifélaga segir að í núverandi frumvarpi séu gerbreyttar reglur um meðferð áhættumats í lögum frá þeim tillögum sem starfshópurinn gerði skriflegt samkomulag um og fram kom í skýrslu hópsins. Þær tillögur voru teknar upp óbreyttar að efni til stjórnarfrumvarpi sem lagt var fyrir 148. löggjafarþing Alþingis.
Sambandið segir að ráðherra þurfi að upplýsa hvaða nauðsyn liggi að baki þeim „viðamiklu“ breytingum sem nú finna má í fyrirliggjandi frumvarpsdrögunum. Sambandið segir að þær breytingar hafi ekki verið ræddar eða kynntar Landssambandinu. „Virðist það gert í þeim tilgangi einum að færa ráðherra málaflokksins geðþóttavald yfir umhverfismálum fiskeldisins enda sýnist ráðherra ekki þurfa að rökstyðja ákvörðun sína um hvort áhættumat skuli gilda hverju sinni eður ei,“ segir í umsögninni.
Auk þess leggst sambandið einnig gegn þeirri fyrirætlan sem kveðið er á um í frumvarpinu að Hafrannsóknarstofnun verði veitt víðtækar heimildir til að stunda eldistilraunir í sjó þegar fyrir liggur að stjórnvöld hyggjast nýta þá heimild til að setja niður 3000 tonna eldi á frjóum laxi í Ísafjarðardjúp þvert á niðurstöðu áhættumats og fram hjá öllum reglum í umhverfisrétti. Í fréttatilkynningu sambandsins segir að í ljósi þessarar stöðu hefur sambandið boðað til formannafundar allra veiðifélaga í landinu þann 18. mars þar sem þessi staða verður rædd og viðbrögð við henni.
Málþing um áhættumatið
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur boðað til málþings um áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi fimmtudaginn 14. mars. Í fréttatilkynningu segir að ráðherra hafi nýlega lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingar á ýmsum lögum sem tengjast fiskeldi og þar er lagt til að áhættumatið verði lögfest og jafnframt að það verði tekið til endurskoðunar í sumar. Á málþinginu verður farið yfir áhættumatið og þá vinnu sem liggur að baki því auk þess sem rædd verða næstu skref í þróun þess.