Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, lét færa til bókar á borgarráðsfundi í gær að það væri óeðlilegt að Stefán Eiríksson borgarritari sæti fund með kjörnum fulltrúum sem hann hafi gagnrýnt „harðlega“ opinberlega. Sagði hún alla fulltrúa minnihlutans liggja undir grun vegna ásakana hans í garð kjörinna fulltrúa, auk þess sem hann hefði opinberlega lýst því yfir að hann sækist ekki eftir að njóta trausts þeirra. Vigdís sagði þessa stöðu því óásættanlega.
Borgarfulltrúar meirihlutans lögðu þá einnig fram bókun á fundinum þar sem fram kom að borgarritari sé æðsti embættismaður borgarinnar að borgarstjóra undanskildum og því eigi hann að sjálfsögðu sæti á fundum borgarráðs. Í bókun meirihlutans segir jafnframt að það sé dapurlegt að nærvera starfsfólks borgarinnar á fundum borgarráðs skuli misbjóða borgarfulltrúa Miðflokksins.
Fáeinir borgarfulltrúar vænt starfsfólk borgarinnar um óheiðarleika
Stefán Eiríksson borgarritari skrifaði stöðuuppfærslu í lokaðan Facebook-hóp starfsmanna Reykjavíkurborgar þann 21. febrúar síðastliðinn þar sem hann sagði fáeina borgarfulltrúa ítrekað hafa vænt starfsfólk borgarinnar um óheiðarleika og vegið með ýmsum öðrum hætti að starfsheiðri þeirra, bæði beint og óbeint. Sagði hann þessa hegðun, atferli og framkomu vera til skammar og um leið til mikils tjóns fyrir Reykjavíkurborg, starfsfólk hennar og íbúa alla. Stefán nefnir hins vegar engan borgarfulltrúa í færslu sinni.
Vigdís Hauksdóttir skrifaði einnig Facebook-færslu eftir að fjallað hafði verið um færslu Stefáns í fjölmiðlum en þar segir hún að Stefán verði að rökstyðja þær ásakanir sem settar væru fram í færslu hans. Í bókun hennar á fundi borgarráðs í gær gagnrýndi hún sérstaklega að Stefán hefði ekki enn séð sér fært að koma á fund forsætisnefndar þar sem óskað var eftir því sérstaklega að hann kæmi og gerði grein fyrir máli sínu.
Á sér ekki fordæmi í sögu borgarinnar
Borgarráðsfulltrúar meirihlutans lögðu einnig fram bókun á fundinum þar sem fram kemur að borgarritari sé æðsti embættismaður borgarinnar að borgarstjóra undanskildum, og eigi hann því að sjálfsögðu sæti á fundum borgarráð. Það sé í samræmi við verklagsreglur um fundi ráðsins þar sem segir að skrifstofustjóri borgarstjórnar, borgarlögmaður og borgarritari sitji fundi ráðsins. „Tilefni þess að borgarritari skrifaði starfsfólki borgarinnar er hegðun, atferli og framkoma kjörinna fulltrúa. Nú þegar hafa tveir starfsmenn borgarinnar hrökklast úr starfi vegna slæms starfsumhverfis og hegðunar kjörinna fulltrúa auk þess sem fulltrúar um 70 manns hafa leitað til mannauðsþjónustu borgarinnar vegna meiðandi og særandi ummæla, orðræðu og framkomu kjörinna fulltrúa, “ segir í bókun meirihlutans.
Enn fremur segir í bókuninni að það að fulltrúar 70 starfsmanna sjái ástæðu til að koma á framfæri kvörtunum vegna hegðunar kjörinna fulltrúa eigi sér ekki fordæmi í sögu borgarinnar. Jafnframt hafi þolinmæði starfsmanna gagnvart ummælum kjörinna fulltrúa verið mikil og því hafi borgarritari metið það nauðsynlegt að stíga fram fyrir hönd starfsfólks borgarinnar og segja að nú sé komið nóg. „Þetta gerði hann vegna þess að starfsfólk og embættismenn borgarinnar geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér þegar kjörnir fulltrúar ganga fram með slíkum hætti. Það er dapurlegt að nærvera starfsfólks borgarinnar á fundum borgarráðs skuli misbjóða borgarfulltrúa Miðflokksins,“ segir enn fremur í bókun borgaráðsfulltrúa.
Þá er tekið fram í bókuninni að borgarritari kom ekki á fund forsætisnefndar þar sem forseti borgarstjórnar ákvað í samráði við fulltrúann sem hafði óskað eftir umræðunni að bíða með málið á þeim vettvangi.