Þingflokkur Pírata gerir kröfu um tafarlausa afsögn Sigríðar Á. Andersen, dómsmálaráðherra. Þá hefur Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður flokksins, kallað eftir því að dómsmálaráðherra komi á opinn fund í allsherjar- og menntamálanefnd vegna dóms Mannréttindsdómstóls Evrópu og að fram fari sérstakar umræður við forsætisráðherra á Alþingi um áhrif dómsins á réttarríkið á Íslandi.
Þetta kemur fram í tilkynning frá þingflokki Pírata sem send var út í dag.
Í henni segir jafnframt að niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu um málsmeðferð dómsmálaráðherra við skipan dómara í Landsrétt sé áfellisdómur yfir athöfnum ráðherrans. Með þessu séu staðfestar ítrekaðar viðvaranir þingflokks Pírata, fyrst við skipan dómara í Landsrétt árið 2017 og svo í umræðu um vantrauststillögu á dómsmálaráðherra ári síðar.
„Dómurinn sýnir svo ekki verður um villst að með ólögmætri skipan sinni hafi dómsmálaráðherra stuðlað að mannréttindabrotum í garð allra þeirra sem hafa þurft að sæta málsmeðferð af hálfu ólöglega og pólitískt skipaðra dómara. Píratar hafa ítrekað bent á að skipanin væri ólögmæt og athafnir Sigríðar Á. Andersen óforsvaranlegar og brot á 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð. Það hefur nú verið staðfest bæði af Hæstarétti og af Mannréttindadómstól Evrópu.
Landsréttarmálið er skýrt dæmi um óeðlileg afskipti framkvæmdavaldsins af dómsvaldinu og pólitíska spillingu. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar í dag munu koma til með að skera úr um traust almennings til Alþingis, dómstóla og framkvæmdavaldsins til framtíðar,“ segir í tilkynningunni.