Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra telur dóm Mannréttindadómstóls Evrópu ekki vera tilefni til þess að segja af sér. Í hádegisfréttum Bylgjunnar sagðist Sigríður áfram njóta trausts hjá ríkisstjórninni allri og hefur því ekki í hyggju að segja af sér. Hún segir dóminn bæði vera óvæntan og fordæmalausan og þá komi líka á óvart að dómurinn hafi klofnað í afstöðu sinni til málsins.
Tilefni til að skoða hvort hægt sé að skjóta niðurstöðunni til yfirdómsins
Dómsmálaráðherra segir jafnframt að verið sé að greina málið en bendir á að dómurinn sé afar yfirgripsmikill. Hún segir dóminn kunna að hafa áhrif um alla Evrópu. Auk þess segir Sigríður að það sé mat bæði sérfræðinga í dómsmálaráðuneytinu og hjá ríkislögmanni að það sé tilefni til að skoða vandlega og alvarlega hvort ekki sé hægt að skjóta niðurstöðunni til yfirdómsins en slíkt þarf ríkið að gera innan þriggja mánaða.
Sigríður segir það ekki koma sér á óvart að fólk sé að krefjast afsagnar hennar en hún telur að þessi dómur gefi ekki tilefni til þess. „Menn hafa haldið því á lofti eins og þeir mögulega geta. En nei, ég tel nú ekki að þessi dómur gefi tilefni til þess og ég minni á og bendi á og árétta að afstaða íslenskra dómstóla til lögmætis skipunar dómaranna í Landsrétti liggur alveg skýr fyrir. Það voru nú allar þrjár greinar ríkisvaldsins sem einmitt komu að þeirri skipun og endaði núna síðast með Hæstarétti sem dæmdi þessa skipun lögmæta, “ sagði Sigríður í samtali við Bylgjuna.
Greint var frá því í fréttum fyrr í dag að Ísland hefði tapað Landsréttarmálinu fyrir Mannréttindadómstólnum en Ísland braut gegn 6. grein mannréttindasáttmála Evrópu sem fjallar um rétt til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi í máli gegn manni sem dæmdur var í 17 mánaða fangelsi í Landsrétti. Ástæðan er sú að maðurinn fékk ekki réttláta málsmeðferð fyrir Landsrétti vegna þess að Arnfríður Einarsdóttir, sem er dómari við réttinn, hafi ekki verið skipuð í hann með lögmætum hætti. Sigríður tilnefndi dómarana sem skipaðir voru í Landsrétt og Alþingi samþykkti þá skipan.
Gera kröfu um tafarlausa afsögn
Þingflokkur Pírata hefur gert kröfu um tafarlausa afsögn dómsmálaráðherra. Auk þess hefur Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar-og eftirlitsnefndar, sagt að Sigríður verði að víkja. Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir hins vegar dóm Mannréttindadómstóls Evrópu breyta engu um stöðu dómsmálaráðherra.