Bresti fjárfestingarstjóðurinn Actis hefur tvöfaldað hlut sinn í Creditinfo Group úr 10 prósentum í 20 prósent. Í fréttatilkynningu frá félaginu segir að Actis sé leiðandi fjárfestir í Asíu, Afríku og Rómönsku-Ameríku á sviði áhættustýringar, miðlunar fjárhagsupplýsinga og stafrænna lausna. Fjárfestingin eigi að fara í að fjármagna alþjóðlegan vöxt og vöruþróun Creditinfo.
Ali Mazanderani og Sigrún Ragna Ólafsdóttir taka sæti í stjórn félagsins
Actis stýrði áður 10 prósent hlut í Creditinfo Group í gegn um fjárfestingu sína í Credit Services Holdings ásamt fleiri fjárfestum. Með þessari fjárfestingu tekur Ali Mazanderani, meðeigandi hjá Actis sæti í stjórn félagsins. Sigrún Ragna Ólafsdóttir tekur jafnframt sæti í stjórn félagsins á ný en hún situr einnig í stjórn Creditinfo Lánstraust hf. á Íslandi. Fyrir eru í stjórn Creditinfo Group þau Reynir Grétarsson stjórnarformaður, Nora Kerppola og Hákon Stefánsson.Creditinfo Group var stofnað á Íslandi árið 1997 og hefur félagið nú opnað yfir 30 starfsstöðvar í fjórum heimsálfum Félagið hefur að geyma lánshæfis upplýsingar ríflega 200 milljón einstaklinga og 2 milljónir fyrirtækja í 32 löndum um allan heim. Í tilkynningu frá félaginu segir að hröð uppbygging félagsins hafi falist í því að hefja starfsemi á jaðarmörkuðum þar sem fjárhags- og viðskiptaupplýsingar eru að skornum skammti og því erfitt að meta lánshæfi aðila í viðskiptum. Markmiðið sé að auka fjárhagslega þátttöku minni og meðalstórra fyrirtækja og einstaklinga og skapa þannig aukinn hagvöxt á hverju svæði fyrir sig. Meðal samstarfsaðila Creditinfo er Alþjóðabankinn, IFC, Millennium Challenge Corporation, og fleiri alþjóðastofnanir.
Hlakkar til frekari vaxtar
Reynir Grétarsson, stjórnarformaður, stofnandi og meirihlutaeigandi Creditinfo Group, segir fjárfestingu Actis koma til með að efla starfsemi félagsins og viðskiptaáætlanir fyrirtækisins á alþjóðavísu. „Við höldum áfram að útvíkka á mörkuðum þar sem tækni okkar og lausnir stuðla að uppbyggingu fjármálamarkaða. Við munum vinna áfram í nánu samstarfi við Actis og hlökkum til frekari vaxtar með samstarfsaðila sem deilir gildum okkar og markmiðum,“ segir Reynir í tilkynningunni.