Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing hefur ákveðið að kyrrsetja allar 737 Max farþegaþotur í heiminum eftir ný sönnunargögn fundust á vettvangi flugslyssins þar sem þota Ethiopian Airlines fórst á sunnudaginn. Rannsakendur komust að því að ákveðin líkindi eru með flugslysinu í Eþíópíu og flugslysinu í Indónesíu í október en þá létust 189, eða allir um borð. Báðar flugvélarnar voru Boeing 737 Max þotur. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins, BBC.
Líkindi milli slysanna
Bandaríska flugmálaeftirlitið, Federal Aviation Administration, ákvað að kyrrsetja allar 737 Max vélar í Bandaríkjunum þegar í ljós kom ákveðin líkinda á milli slysanna tveggja. Auk þess höfðu nýjar upplýsingar úr gervihnöttum ýtt undir þá niðurstöðu. Fyrr í vikunni höfðu flugmálayfirvöld í Bretlandi, Kína, Suður-Afríku, Singapúr, Indónesíu, Ástralíu og Mexíkó bannað umferð flugvéla af þessari gerð. Auk þess höfðu flugfélögin Easter Jet, Norwegian og Icelandair kyrrsett allar 737 Max þoturnar sínar.
Skömmu eftir ákvörðun bandaríska flugmálaeftirlitsins ákvað flugvélaframleiðandinn Boeing að kyrrsetja flotann eins og hann leggur sig, en 371 þota hefur verið smíðuð af þessari gerð.
Boeing hafði sagt í yfirlýsingum í vikunni að ekki hafi komið fram nein gögn sem benti eindregið til þess að rétt væri að banna flug á öllum flugvélum af gerðinni 737 Max 8. Í umfjöllun BBC er greint frá því að Boeing hafi enn mikla trú öryggi 737 Max flugvélarnar en eftir að hafa ráðfært sig við FAA hafi fyrirtæki ákveðið að kyrrsetja vélarnar til að gæta fyllstu varúðar og til að vinna aftur traust farþega á öryggi vélanna.
Íslenska flugfélagið Icelandair á þrjár 737 Max flugvélar og á von á fleirum í nánustu framtíð.