Hin sextán ára Greta Thunberg hefur verið tilnefnd til Friðarverðlauna Nóbels en hún hefur öðlast heimsfrægð fyrir baráttu sína og aktívisma gegn loftslagsbreytingum.
Stjórnmálamenn og ýmsir háskólaprófessorar mega nú tilnefna einstaklinga eða samtök til Friðarverðlauna Nóbels en athöfnin mun fara fram í desember næstkomandi. Samkvæmt frétt The Guardian um málið er 301 tilnefning komin, þar af fyrir 223 einstaklinga og 78 samtök.
„Við höfum tilnefnt Gretu Thunberg vegna þess að ef við gerum ekkert til að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar þá verður það tilefni til stríða, átaka og fjölgun flóttamanna,“ sagði norski þingmaðurinn Freddy André Øvstegård í samtali við The Guardian. „Greta Thunberg hefur komið af stað fjöldahreyfingu sem ég lít á sem mikið framlag til friðarmála.“
Þakklát fyrir tilnefninguna
Greta sjálf segist vera þakklát fyrir tilnefninguna og að sér sé sýndur sómi í Twitter-færslu sem hún birti í dag.
Honoured and very grateful for this nomination ❤️ https://t.co/axO4CAFXcz
— Greta Thunberg (@GretaThunberg) March 14, 2019
Skólaverkfall fyrir loftslagið
Greta er fædd í Stokkhólmi þann 3. janúar 2003 og er dóttir leikarans Svante Thunberg. Í fréttaskýringu RÚV um þessa athyglisverðu stelpu segir að afskipti hennar af loftslagsmálum hafi byrjað fyrir alvöru í maí í fyrra þegar hún var meðal vinningshafa í ritgerðasamkeppni sem Svenska Dagbladet efndi til. Upp úr því hafi ýmsir haft samband við hana og næstu vikur hafi verið lagt á ráðin um aðgerðir sem skólakrakkar gætu gripið til til að vekja athygli á loftslagsmálum.
Hún hafi hins vegar ekki séð fram á að þær aðgerðir myndu gera mikið gagn, þannig að hún ákvað að gera þetta bara ein og sjálf. Það fyrsta sem hún hafi gert var að útbúa stórt spjald á stofugólfinu heima hjá sér með áletruninni Skolstrejk för klimatet eða Skólaverkfall fyrir loftslagið.
Þann 20. ágúst hafi hún skrópað í skólanum og setið þess stað ein með spjaldið fyrir utan þinghúsið í Stokkhólmi, ákveðin í að vera þar á skólatíma hvern einasta dag fram yfir sænsku þingkosningarnar 9. september. Krafa hennar var einföld. Að ríkisstjórn Svíþjóðar myndi draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við Parísarsamkomulagið.
Neitaði að ferðast með flugvél
Eftir 9. september hafi Greta farið að mæta í skólann fjóra daga í viku og látið nægja að vera í verkfalli á föstudögum. Og smátt og smátt hafi fleiri farið að veita þessu uppátæki eftirtekt, ekki bara í Stokkhólmi og ekki bara í Svíþjóð, heldur út um allan heim.
Athygli vakti þegar Greta ferðaðist með lest til Katowice í desember síðastliðnum – þar sem hún ávarpaði aðildarríkjafundinn COP-24 – og aftur til Davos í janúar til að ávarpa árlegan fund Alþjóðaviðskiptaráðsins.