Mikil umræða skapaðist um Mannréttindadómstól Evrópu í liðinni viku í kjölfar niðurstöðu dómstólsins í Landréttarmálinu svokallaða. Sigríður Andersen, fyrrum dómsmálaráðherra, sagði af sér í kjölfar dómsins en lýsti á sama tíma yfir áhyggjum af framsali valds til túlkunar á íslenskum lögum til erlendra dómstóla. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra tók í svipaðan streng og sagði það umhugsunarefni um hvort dómstólinn væri að „stíga yfir línuna.“ Í kjölfarið hafa aðrir þingmenn komið dómstólnum til varnar og kallað eftir því að tekin sé skýr afstaða með dómstólnum í kjölfar þess að ráðherrar hafi ráðist á trúverðugleika hans.
Mannréttindadómstóll Evrópu var stofnaður á grundvelli mannréttindasáttmála Evrópu en dómstólnum er ætlað að tryggja að aðildarríki Evrópuráðsins virði þau réttindi sem kveðið er á um í sáttmálanum. Hér á landi var sáttmálinn lögfestur árið 1994 en í annarri grein laganna er kveðið á um að úrlausnir Mannréttindadómstólsins séu ekki bindandi að íslenskum landsrétti. Engu að síður hafa ákveðnir dómar dómstólsins haft víðtæk áhrif á íslenska löggjöf og fært Íslendingum fjölda réttarbóta. Þá sérstaklega í kjölfar innleiðingar sáttmálans en einnig er aðskilnaður umboðsvalds og dómsvalds í íslenskum lögum rakinn til dómstólsins.
Mannréttindadómstólinn farinn að stíga yfir línuna
Á mánudaginn var niðurstaða Mannréttindadómstólsins birt í Landsréttarmálinu. Niðurstaða dómstólsins var að Ísland hefði brotið gegn 6. grein mannréttindasáttmála Evrópu, sem fjallar um rétt til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi, í máli gegn manni sem dæmdur var í 17 mánaða fangelsi í Landsrétti. Ástæðan er sú að maðurinn fékk ekki réttláta málsmeðferð fyrir Landsrétti vegna þess að Arnfríður Einarsdóttir, sem er dómari við réttinn, hafi ekki verið skipuð í hann með lögmætum hætti.
Í kjölfar niðurstöðu dómsins sköpuðust umræður í samfélaginu um þýðingu dómsins fyrir íslenskt réttarfar og hlutverk dómstólsins. Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, lýsti dómi dómstólsins sem „árás á fullveldi Íslands“ í skoðanagrein á vef lögfræðistofu hans. Í grein sinni skorar hann á Íslendinga að taka saman höndum og hrinda „þessari aðför sem Ísland hefur nú sætt frá erlendri stofnun sem blygðunarlaust sækir sér vald sem hún fer alls ekki með.“
Sigríður Andersen véfengdi einnig hlutverk dómstólsins þegar hún tilkynnti afsögn sína á blaðamannafundi á miðvikudaginn. „Ég mun ekki láta það átölulaust að dómstólar séu notaðir í pólitískum tilgangi,“ sagði hún á fundinum. Auk þess sagði hún heldur ekki ætla að láta það átölulaust að íslenskir dómstólar „framselji vald til túlkunar á íslenskum lögum til erlendra dómstóla.“
Flokksmaður hennar Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, tók í svipaðan streng á blaðamannafundi eftir tilkynningu Sigríðar. Hann sagði að niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu hefði komið honum í „opna skjöldu“ og það væri umhugsunarefni hvort dómstólinn væri farinn að „stíga yfir línu“ með þeirri gagnrýni á íslenska stjórnsýslu sem birtist í dómnum. Hæstiréttur væri æðsti dómstóll Íslands, ekki Mannréttindadómstóll Evrópu.
Jafnframt sagði hann niðurstöður dómstólsins hafa í gegnum tíðina oft verið mjög umdeildar.„ Þannig er í mörg ár lifandi umræða í Bretlandi um hvort þeir vilji segja sig frá dómstólnum, í Danmörku hefur einnig verið færð fram gríðarlega mikil gagnrýni, “ sagði Bjarni. Í kjölfarið sagðist hann aðspurður ekki vera að boða það að Ísland ætti að segja sig frá dómstólnum. Hann væri að vekja athygli á því að starfsemi dómstólsins væri ekki yfir gagnrýni hafin og það fælist ekki nein yfirlýsing um að grafa undan dómstól með því að áfrýja niðurstöðu hans, ekki frekar en að þegar dómur fellur í héraði og honum er áfrýjað.
Ummæli ráðherranna um dómstólinn vöktu hörð viðbrögð nokkurra þingmanna. Þar á meðal var Þórhildur Sunna, þingflokksformaður Pírata, en í stöðuuppfærslu á Facebook sagði hún dómstóllinn vera ein dýrmætasta réttarverndin sem Íslendingar eiga. „Það er grafalvarlegt ef ráðherrar Íslands ætla sér að ráðast að honum með dylgjum, samsæriskenningum og ósannindum eins og Sigríður Andersen og Bjarni Benediktsson gerðust uppvís að í gær,“ sagði hún í færslunni. Jafnframt sagði hún að það væri eitt að finnast rétt að áfrýja málin en að það væri með öllu óásættanlegt að ætla að gera Mannréttindadómstólinn að „blóraböggli fyrir pólitískar skipanir Sjálfstæðisflokksins í dómstóla.“
Stendur vörð um réttindi einstaklinga
Mannréttindadómstóll Evrópu var stofnaður árið 1959 á grundvelli mannréttindasáttmála Evrópu sem undirritaðar var á ráðherrafundi Evrópuráðsins í Róm árið 1950. Honum var ætlað að virða þau réttindi sem kveðið er á um í sáttmálanum en sáttmálinn skyldar aðildarríkin til að tryggja öllum einstaklingum á þeirra yfirráðasvæði þau réttindi og frelsi sem eru skilgreind í sáttmálanum og viðaukum við hann, svo sem rétt til lífs og frelsis, til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi, bann við pyndingum, friðhelgi einkalífs og tjáningar-, trú- og félagafrelsi svo dæmi séu tekin.
Einstaklingar geta leitað til dómstólsins ef þeir telja ríki hafa brotið gegn þeim réttindum sem kveðið er á um það að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Dómstóllinn tekur ekki mál til meðferðar nema kærandi hafi fyrst tæmt innlend réttarúrræði, í því felst að oftast þarf að vera búið að fara með málið fyrir innlenda dómstóla.
Ísland undirritaði sáttmálann árið 1950 og fullgilti hann árið 1953. Sáttmálinn var síðan loks lögfestur hér á landi árið 1994. Í kjölfarið var mannréttindakafla stjórnarskrár Íslands breytt árið 1995 til að koma til móts við skuldbindingar Íslands. Í lögum um sáttmálann segir í annarri grein lagan að úrlausnir Mannréttindanefndar Evrópu, Mannréttindadómstóls Evrópu og Ráðherranefndar Evrópuráðsins séu ekki bindandi að íslenskum landsrétti, samkvæmt sáttmálanum.
Nauðsynlegt að íslenskir dómstólar taki mið af dómum MDE
Róbert R. Spanó tók til starfa sem dómari við Mannréttindadómstól Evrópu í nóvember 2013. Í viðtali við Fréttablaðið í október 2014 sagði Róbert að þær breytingar sem urðu á íslenskum lögum með lögfestingu sáttmálans og breytingunum á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar árið 1995 væru tvímælalaust ein mesta réttarbót sem Ísland hefur innleitt. Hann benti jafnframt á að í framhaldinu hefði Ísland séð afleiðingarnar af þessum breytingum í dómaframkvæmd og einnig hefði þetta haft áhrif á þjóðfélagsumræðuna. Að hans mati hafði innleiðing sáttmálans haft áhrif á hvernig borgarar skilji og skilgreini sinn rétt.
Í viðtalinu benti Róbert á að ljóst væri að dómar Mannréttindadómstólsins væru ekki bindandi íslenskum rétti en aftur á móti væri mannréttindasáttmálinn bindandi þjóðréttarsamningur fyrir íslenska ríkið. „Það leiðir af ákvæðum laganna um Mannréttindasáttmála Evrópu. Á hinn bóginn er ekki nóg með að sáttmálinn sé lögfestur, hann er bindandi þjóðréttarsamningur fyrir íslenska ríkið. Það er viðurkennd lögskýringaraðferð í íslenskum rétti að við túlkum landsrétt til samræmis við þjóðarétt,“ sagði Róbert.
Því sagði hann að til þess að tryggja að landsréttur væri túlkaður til samræmis við þjóðarrétt væri nauðsynlegt að íslenskir dómstólar tækju mið af og tækju tillit til dómafordæma Mannréttindadómstólsins þegar þeir túlkuðu mannréttindasáttmálann.
Hættuleg þróun
Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu, tekur í sama streng og Róbert í samtali við Kjarnann. Hún segir að mannréttindasáttmálinn hafa haft mikil áhrif hér á landi sem og alls staðar í Evrópu. Að hennar mati ættu dómar Mannréttindadómstólsins að vera fordæmisgefandi hér á landi í ljósi þess að Ísland innleiddi sáttmálann í landslög. Hún segir jafnframt að þegar mannréttindakaflanum í stjórnarskránni var breytt hafi mannréttindasáttmálinn verið hafður til hliðsjónar. Því hafi sumir fræðimenn haldið því fram að mannréttindasáttmálalögin hafi því stjórnarskrárígildi.
Margrét segir að það sé gríðarlega mikilvægt að standa vörð um mannréttindi. Hún bendir á að undanfarin ár hafi verið til umræðu í nokkrum löndum að undanskilja lög frá áhrifum Mannréttindadómstólsins. „Að heimurinn sé að stefna í þá átt að mannréttindum verði meira og meira ýtt til hliðar, það finnst mér vera hættuleg þróun,“ segir Margrét.
Dómur mannréttindadómstólsins leiddi til aðskilnaðar dómsvalds og umboðsvalds
Margrét segir það jafnframt ótvírætt að dómar Mannréttindadómstólsins hafi haft áhrif á löggjöf hér á landi og knúið fram ýmsar réttarbætur. Nefnir hún þar sérstaklega mál Jón Kristinssonar sem leiddi til aðskilnaðar dómsvalds og umboðsvalds og þá dóma sem hafa fallið um tjáningarfrelsi.
Fyrsti Íslendingurinn sem leitaði réttar síns hjá Mannréttindadómstólnum var Jón Kristinsson. Árið 1984 var hann sakfelldur fyrir umferðarlagabrot í Sakadómi Akureyrar. Jón undi ekki dómnum og benti á að sami maður hafði sinnt málinu í umboði lögreglustjóra, framkvæmdavalds, annars vegar og bæjarfógeta, dómsvalds, hins vegar. Fullyrti hann að með því væri réttlát málsmeðferð ekki tryggð. Eftir að dómurinn hafði verið staðfestur í Hæstarétti leitaði Jón til Mannréttindadómstóls Evrópu sem ákvað að veita honum áheyrn fyrstum Íslendinga.
Niðurstaða MDE var að málsmeðferð í kjölfar meints umferðarlagabrots Jóns Kristinssonar braut í bága við 6. grein Mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta dómsmeðferð fyrir dómstólum. Í kjölfarið varð umbylting á réttarfari hér á landi með gildistöku laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði. Í því fólst að dómsvaldið var flutt frá sýslumönnum og bæjarfógetum til héraðsdómstóla í því skyni að koma á fullkominni þrígreiningu ríkisvalds hér á landi. Framkvæmdavald og dómsvald var áður sameinað í höndum sýslumanna og bæjarfógeta á landsbyggðinni en sú réttarfarsskipan stangaðist á við ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu um dómsmeðferð fyrir óháðum, óhlutdrægum dómstólum, að mati Mannréttindadómstólsins.
Blaðamenn ekki ábyrgðir fyrir ummælum viðmælenda sinna
Mannréttindadómstólinn er einnig talinn hafa gegnt veigamiklu hlutverki í að tryggja tjáningarfrelsi og fjölmiðlafrelsi hér á landi. Fyrir rúmum þrjátíu árum kærði Þorgeir Þorgeirsson dóm Hæstaréttar til Mannréttindadómstólsins. Hann hafði verið sakfelldur vegna skrifa hans um störf lögreglumanna í Morgunblaðinu. Þorgeir leitaði til Mannréttindadómstólsins en hann taldi að brotið hefði verið á rétti sínum þar sem dómari í málsmeðferð hans hafði ítrekað tekið sér stöðu ákæruvalds þegar saksóknari var fjarri. Hann væri því ekki hlutlaus sem dómari en það væri á skjön við 6. grein Mannréttindasáttmála Evrópu. Auk þess taldi Þorgeir að með dómnum hefði verið brotið á rétti hans til tjáningarfrelsis. Um kæruna til Mannréttindadómstólsins sagði Þorgeir í Þjóðviljanum sama ár: „Ég kæri ekki til mannréttindanefndarinnar út af neinum smáatriðum, heldur er ég í raun að kæra allt íslenska réttarkerfið sem ég álít meingallað og vart sæmandi nokkru lýðræðisríki.“
Mannréttindadómstóllinn komst einróma að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið gegn Þorgeiri, í 10. grein um tjáningarfrelsi. Samkvæmt dómi dómstólsins hafði dómur Þorgeirs ekki falið í sér brot á íslenskum lögum heldur verið í samræmi við 108. grein hegningarlaga og dómahefð á landinu. Samkvæmt dómstólnum voru lögin því ekki í samræmi við mannréttindasáttmálann en ekki dómurinn gegn Þorgeiri einn og sér.
Mál Þorgeirs og dómur Mannréttindadómstólsins eru talin hafa haft veruleg áhrif á íslenskt réttarfar en árið 1995 var 108. grein hegningarlaga felld úr lögum. Enn fremur var mannréttindasáttmáli Evrópu lögfestur hér á landi árið 1994 en með honum voru ýmis mannréttindi og borgarlega réttindi lögfest. Þar má nefna rétt til lífs, skoðanafrelsi og tjáningarfrelsi, félagafrelsi, trúfrelsi, rétt til bóta vegna rangrar sakfellingar og svo framvegis.
Á seinni árum hafa fleiri málum verið áfrýjað til Mannréttindadómstólsins vegna skerðingar á tjáningarfrelsi þar sem íslenskir dómstólar gerðu blaðamenn persónulega ábyrga fyrir ummælum viðmælenda sinna og dæmt þá bótaskylda. Ein þeirra er Erla Hlynsdóttir en dómstólinn hefur þrisvar sinnum dæmd henni í hag og komist að því að íslenska ríkið hafi brotið gegn 10. grein mannréttindasáttmála Evrópu með því að dæma Erlu fyrir meiðyrði fyrir ummæli sem hún hafði eftir viðmælendur sína. Íslenska ríkinu var gert að greiða Erlu skaðabætur. Mannréttindadómstólinn komst einnig að sömu niðurstöðu í máli annarrar blaðakonu, Bjarkar Eiðsdóttur, sem dæmd hafði verið fyrir meiðyrði vegna ummæla sem höfð voru eftir viðmælanda.
Þurfti að fella niður fjölmörg mál
Annar nýlegur dómur Mannréttindadómstólsins sem hefur haft víðtækar afleiðingar hér á landi er dómur dómstólsins í máli Jón Ásgeirs Jóhannessonar. Þann 18. maí 2017 komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Tryggva Jónssyni þegar þeir voru dæmdir í skilorðsbundið fangelsi fyrir skattalagabrot í rekstri Baugs og fjárfestingafélagsins Gaums árið 2013, ásamt Kristínu Jóhannesdóttur. Þeir kærðu þann dóm til Mannréttindadómstólsins á þeim forsendum að þeir hefðu þegar hlotið dóm fyrir sömu brot. Þeir höfðu verið dæmdir til að greiða álag ofan á endurákvörðun skatta af yfirskattanefnd árið 2007. Málin tvö hefðu verið byggð á sama grunni. Og því væri verið að refsa þeim tvívegis fyrir sama brotið.
Fram að þeim tíma hafði það tíðkast hérlendis að þeir sem sviku stórfellt undan skatti skyldu greiða hátt álag ofan á þá vangoldnu skatta sem þeir skyldu endurgreiða. Ef um meiriháttar brot var að ræða þá var viðkomandi einnig ákærður fyrir meiri háttar skattalagabrot, en við slíkum brotum liggur allt að sex ára fangelsi auk þess sem viðkomandi þarf að að greiða sekt. Þegar Mannréttindadómstóllinn hafði komist að niðurstöðu þá þurfti að falla dómur í Hæstarétti um sambærilegt efni til að fram komi hver áhrif niðurstöðunnar verði á íslenska dómaframkvæmd. Sá dómur féll í lok september 2017.
Niðurstaðan hafði áhrif á fjölmörg önnur mál og varð til þess að héraðssaksóknari þurfti að fella niður að að minnsta kosti 66 mál þar sem grunur var um að einstaklingar hefðu framið skattsvik. Stór hluti málanna snerist um einstaklinga sem geymdu fjármuni utan Íslands til að komast hjá skattgreiðslum.