Neðri deild breska þingsins samþykkti í gær tillögu um að óska eftir að útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu yrði frestað. Útgöngudagur Breta er settur 29. mars næstkomandi. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands mun því í þriðja sinna leggja útgöngusamning fyrir breska þingið á næstu dögum og í kjölfarið óska eftir frestun. Frá þessu er greint á vef BBC.
Samþykktu að hafna samningslausri útgöngu
Á þriðjudaginn hafnaði breska þingið í annað sinn Brexit-samning Theresu May um hvernig útgöngu Breta úr Evrópusambandinu ætti að vera háttað. Á miðvikudaginn lagði May síðan fram tillögu um að þingið hafnaði útgöngu úr Evrópusambandinu án samnings þann 29. mars næstkomandi en héldi opnum þeim möguleika að Bretland gengi úr sambandinu án samnings síðar.
Áður en kosið var um tillögu May samþykkti þingið breytingartillögu um að hafna því að Bretland gengi nokkurn tíma úr Evrópusambandinu án samnings. Sú breytingartillagan var síðan samþykkt af þinginu með 43 atkvæðum en samkvæmt umfjöllun BBC er það er þó ekki lagalega bindandi kosning. Forsætisráðherrann lagði áherslu á það eftir atkvæðagreiðsluna og sagði að samkvæmt gildandi lögum Bretlands og Evrópusambandsins gengi landið úr ESB án samnings „nema eitthvað annað yrði ákveðið“.
Í gær samþykkti síðan neðri deild þingsins tillögu um að leita á náðir Evrópusambandsins um frestun útgöngu. Tillagan var samþykkt með 412 atkvæðum gegn 202.
Þriðja atkvæðagreiðslan um samning í næstu viku
Þó að þingið hafi nú tvisvar kolfellt Brexit-samning forsætisráðherrans þá boðar May þriðju atkvæðagreiðsluna um nýjan samning í næstu viku. Samkvæmt BBC vill hún leggja nýjan samning fyrir þingið sem fyrst til að að freista þess að þurfa ekki að fresta útgöngu enn frekar. May segir að ef þingdeildin samþykki samninginn eigi síðar en á miðvikudaginn kemur ætli hún að óska eftir því að útgöngunni verði frestað til 30. júní næstkomandi. Ef þingið fellur hins vegar samninginn þarf ríkisstjórnin að fara fram á að fresta útgöngunni til lengri tíma. May varaði því þingheiminn við í gær að ef samningurinn er ekki samþykktur í næstu viku, þá gætu Bretar þurft að taka þátt í kosningum til Evrópuþingsins sem eiga að fara fram í maí.
Öll hin aðildarríki Evrópusambansins þurfa það samþykkja beiðni Bretlands um að fresta útgöngunni úr Evrópusambandinu. Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, sagði í gær að sambandið myndi samþykkja að Brexit yrði frestað í langan tíma ef Bretar teldu það nauðsynlegt til að ná samstöðu um útgöngu. Aðrir leiðtogar sambandins hafa þó varað við að að þeir geti ekki fallist á beiðni um að fresta Brexit nema breska þingið komast að samkomulagi um hvað þeir vilja.