„Pólitískt held ég að þá eru skilaboðin þau að það framferði sem menn höfðu tamið sér hérna fyrir nokkrum árum, og þeim áratugum sem liðu á undan, þar sem stjórnmálamenn fóru bara fram í krafti valds síns og gerðu nokkurn veginn það sem þeim sýndist með því að teygja skilning laganna að einhverju leyti í þær áttir sem þeir sjálfir vildu helst túlka, að sú tíð er kannski liðinn. Og að menn verði að átta sig á því að það sé ekki hægt að fara fram með sama hætti.“
Þetta er meðal þess sem Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði, sagði um dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu og afsögn Sigríðar Á. Andersen úr embætti dómsmálaráðherra í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni. Eiríkur var gestur Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, í þættinum. Hægt er að sjá stiklu úr honum hér að neðan.
Eiríkur minnti á að það væri líka persónupólitík í málinu sem hafi áhrif á stjórnarsamstarf þeirra flokka sem mynda ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. „Í fyrri ríkisstjórn þá er það Sigríður Andersen sem að tekur út úr hópi hæfustu helsta lögfræðilega ráðgjafa Vinstri grænna, Ástráð Haraldsson, sem hefur starfað með vinstrihreyfingunni í áratugi. Það er ekki bara að hann sé faglega og pólitískt nátengdur Vinstri grænum heldur er hann tengdur forystufólki þar fjölskylduböndum. Á sama tíma og hann er tekinn út þá er eiginkona núverandi þingmanns Sjálfstæðisflokksins færð úr neðri sætum og situr í dómnum í staðinn fyrir Ástráð og hina.“
Þar á Eiríkur við Arnfríði Einarsdóttur, einn þeirra fjögurra umsækjenda í Landsréttinn sem hæfisnefndin mælti ekki með að skipa í réttinn en Sigríður ákvað samt að skipa. Arnfríður er eiginkona Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.
Fleiri hafa bent á þessa stöðu. Í greinargerð sinni fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu, í málinu sem Ísland tapaði síðastliðinn þriðjudag, hélt Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður því meðal annars fram að dómsmálaráðherra hefði handvalið umsækjendur á þann lista sem hún lagði fyrir Alþingi til samþykktar. Það hafi hún gert á grundvelli vináttu og pólitískra tengsla. Í málatilbúnaði Vilhjálms var því haldið fram að Arnfríður hafi verið skipuð sem hluti af hrossakaupum innan Sjálfstæðisflokksins þar sem Brynjar Níelsson gaf í staðinn eftir oddvitasæti sitt í öðru Reykjavíkurkjördæminu í síðustu kosningum til Sigríðar Á. Andersen.
Eiríkur sagði að þessi staða geri samstarfið innan ríkisstjórnarinnar flókið. „Og er til að bæta ofan á flækjustigið þar sem menn eru persónulega tengdir leikendunum sem að eru þarna á bakvið.“
Hann segir að þetta sýni að það þurfi að taka það alvarlegar að aftengja flokkspólitík frá skipun í stöður innan dómsvaldsins.