Til þess að eiga 65 prósent líkur á að mannkynið haldi sig við markmið um hlýnun undir tveimur gráðum þá þarf þrekvirki. Þetta segir Guðni Elísson, prófessor í bókmenntafræði við Háskóla Íslands, sem verið í tvo áratugi að velta fyrir sér loftslagsmálum en hann var í Silfrinu á RÚV í morgun. „Við þurfum í rauninni að endurmóta hagkerfið, alla innviði og það er mjög flókið. Og við þurfum að gera það mjög hratt.“
Ungmenni hvaðanæva að úr heiminum mótmæltu aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum í vikunni og létu íslensk börn og unglingar sig ekki vanta en mörg hundruð marseruðu frá Hallgrímskirkju niður á Austurvöll þar sem hópurinn safnaðist saman. Mikil stemning var meðal ungmennanna og voru kröfurnar skýrar; þau vilja aðgerðir í loftslagsmálum og þau vilja þær núna.
Guðni segir stórkostlegt að sjá slík mótmæli. „Maður finnur alveg að það sé einhvers konar vitundarvakning í gangi í núna sem ég hef í rauninni ekki séð áður,“ segir hann og bætir því við að breytingar séu í aðsigi í umræðunni.
Tímaramminn naumur
Guðni bendir á að tímaramminn fyrir það sem gera þarf sé ansi naumur. Hvað merkir það þegar almenningur allur heyrir það að stjórnmálamenn ætli að reyna að halda sig innan tveggja gráðu markanna og jafnvel fara niður í 1,5 gráður? Það sé eitthvað sem fólk telji að Parísarsamkomulagið snúist um en að hans mati snýst það strangt til tekið ekki um það.
Í samkomulaginu sé mótuð ákveðin stefnumörkun en þær skuldbindingar sem eru á borðinu núna eru í 2,8 til 3 gráðum. „Þ.e.a.s. ef við fylgjum því sem hinar viljugu þjóðir eru búnar að leggja á borðið þá erum við að tala um svona 2,8 til 3 gráður og inn í þeim er gríðarlega mikið af neikvæðri losun. Við veðjum á að framtíðarkynslóðir dragi koltvísýringinn úr andrúmsloftinu og dæli honum niður í jörðina. Þarna erum við að veðja á tækni sem við búum í rauninni ekki yfir núna. Við erum að tala um niðurhal á koltvísýringi á stærðargráðu sem er slík að það yrði algjört þrekvirki ef við ætlum að ná því fram,“ segir hann.
Hin hliðin sé sú að þegar talað er um 1,5 gráðurnar þá verði að spyrja hvað liggi þar að baki. „Að mínu mati er marklaust að tala um það að halda sig innan 1,5 gráðu markanna. Það er einnig nánast útilokað að ná 2 gráðu mörkunum.“
Staðan verri en talað er um
„Staðan er verri en talað er um,“ segir Guðni og bendir á að auðvitað séu þessi mál flókin. Samt sé tiltölulega auðvelt að setja sig inn í það af hverju þetta sé svona erfitt vegna þess að „við erum búin að dæla ákveðnu magni af koltvísýringi upp í andrúmsloftið á síðustu 150 árum og þessi koltvísýringur er þar. Við getum áætlað það hversu mikið af koltvísýringi við þurfum að setja upp í andrúmsloftið til að ná tveggja gráðu mörkunum, 2,5 gráðu mörkunum og 3 gráðu mörkunum.“
Nú hafi umhverfisverndarsinnar árum saman alltaf sagt: Við höfum 10 ár til þess að bjarga jörðinni. Guðni segir að fólk sé búið að heyra þessi orð í 20 til 30 ár og þá sé vert að spyrja hvað þau þýði. Þarna verði að spyrja: Hverju er verið að bjarga? „Ef við hefðum byrjað 1990 þá hefðum við getað bjargað þeirri jörð sem var til þegar við vorum guttar,“ segir hann og á þar við þá jörð sem til var þegar hann og Egill, umsjónarmaður Silfursins, voru litlir. Sú jörð sé aftur á móti farin. „Sú jörð sem við björgum núna verður ekkert í líkingu við þá jörð sem við ólumst upp í. Það verður allt öðruvísi veðurfar og vistkerfið verður af öðrum toga. En við getum ennþá bjargað henni, en við erum að tala um það á allt öðrum forsendum.“
Fólk hefur meiri áhyggjur af einhverju öðru
Hann bendir ennfremur á að þrátt fyrir að fólk hafi áhyggjur af loftslagsmálum þá hafi það allajafna meiri áhyggjur af einhverju öðru, til að mynda efnahagsmálum, atvinnuleysi og heilbrigðismálum.
Guðni samsinnir því þegar Egill spyr hann hvort fólk vilji í rauninni ekki breyta neinu. „Menn vilja að aðrir fórni einhverju, það er eiginlega lykilatriðið. Og þetta er svona alls staðar. Menn eru alltaf að kasta þessari heitu kartöflu á milli sín, alveg endalaust. Og þeir átta sig til dæmis ekki á umfangi vandans. Þetta er risavaxinn vandi.“
Hann segir að í einhverjum skilningu þurfi fólk að fara að glíma við hluti sem sé búið að segja því að séu eftirsóknarverðir og góðir, til að mynda aukin velmegun, aukin hagvöxtur og aukinn kaupmáttur. „Allt í einu er kaupmáttur orðinn vesen. Vegna þess að hvað þýðir kaupmáttur? Við kaupum vörur sem allar hafa einhvers konar kolefnisbindingu í sér. Þannig að við þurfum á einhvern hátt – á skömmum tíma – að snúa við þessum hugsunarhætti. Og það er flókið,“ segir hann.
Ekki komið inn í hjartastöðvarnar
Guðni bendir á að fólk haldi áfram að lifa þessu lífi og þar gagnrýnir hann kollega sína til að mynda fyrir að tala á klukkutímafyrirlestri um að fólk þurfi að breyta hegðun sinni en geri það ekki sjálfir.
„Þótt við skiljum þetta með heilanum þá er þetta einhvern veginn ekki komið inn í hjartastöðvarnar hjá okkur,“ segir hann.
Guðni segir að þrátt fyrir að fólk myndi breyta háttum og hegðun, þá væri 18. öldin ekki komin. „Við þyrftum að gefa upp ansi margt af því sem við göngum að sem vísu núna. Og þarna liggur svolítið vandinn; að menn eru ekki til í það. Og skiljanlega.“
Hann bendir á að mannfólkið sé alltaf að nota meira jarðefnaeldsneyti ár eftir ár. Notkunin sé ekki að minnka. Þvert á móti sé hún að aukast.
Hægt að vera umhverfissóði og á sama tíma landverndarsinni
Guðni segir að árekstrar geti orðið milli umhverfisverndar og loftslagsmála. „Íslendingar hafa fókuserað á landverndar- eða náttúruverndarsjónarmiðin, þ.e. ekki þessar stóru víðu spurningar,“ segir hann en Guðni hefur stundum velt því fyrir sér af hverju Landsvirkjun og stóru orkufyrirtækin hafi ekki einbeitt sér meira að loftslagsmálunum. „Og stundum hef ég fólk grunað um það að fókusera á landverndina vegna þess að hún er hólfuð af. Þú getur verið umhverfissóði og landverndarsinni,“ segir hann.
Ennfremur bendir hann á falda neyslu Íslendinga. Þeir séu að flytja inn ofboðslega mikið af losun. Losun sem á sér annan upprunastað. „Ég held til dæmis að tveir þriðju af allri losuninni í Kína fari í útflutning.“
Hann endar mál sitt á því að segja að við eigum ekki að láta það mistakast að ná þremur gráðum. „Það er alveg nóg að berjast fyrir,“ segir hann.