Ferðir hryðjuverkamannsins Brentons Tarrant eru nú til rannsóknar embættis ríkislögreglustjóra, en hann hefur meðal annars komið hingað til landsins. Þetta er meðal þess sem fram kemur í stefnuyfirlýsingu hans, sem telur 74 síður.
RÚV greindi frá því að embætti ríkislögreglustjóra væri með ferðir hans til rannsóknar.
Upplýsingar um þetta hafa borist frá yfirvöldum í Nýja-Sjálandi en hann kom til Íslands árið 2017, samkvæmt svari ríkislögreglustjóra við fyrirspurn fréttastofu RÚV.
Að öðru leyti verst embætti ríkislögreglustjóra frétta af málinu.
Í stefnuyfirlýsingunni kemur Ísland fyrir, þar sem Tarrant segir að það sé hvergi að finna skjól í heiminum, ekki einu sinni í Nýja-Sjálandi, Póllandi, Íslandi og Argentínu. Það viti hann af reynslu, þar sem hann hafi verið þar.
Tarrant hefur verið ákærður fyrir hryðjuverkið í tveimur moskum í Christchurch þar sem 50 lét lífið, og tugir særðust, margir alvarlega.
Yfirvöld í Nýja-Sjálandi hafa heitið því að velta við öllum steinum í rannsókn á málinu, og styðja aðstandendur fórnarlamba árásarinnar.