Benedikt Bogason, formaður stjórnar dómstólasýslunnar, segir stjórnvöld hafa farið nokkuð geyst í að fullyrða að vísa ætti dómi Mannréttindadómstólsins til yfirdeildar hans áður en faglegt mat var lagt á slíkt, í samtali við Morgunblaðið í dag. Stjórn dómstólasýslunnar samþykkti á föstudaginn að meta skuli áhrif málskots til yfirdeildar Mannréttindadómstólsins áður en ákvörðun um slíkt er tekin. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun tilkynna Alþingi viðbrögð stjórnvalda við dómnum í dag.
Leggja til að dómurum við Landsrétt verði fjölgað í 19
Lesa meira
Stjórn dómstólasýslunnar lét einnig fær til bókunar á fundinum að ráðlagt sé að fjölga dómurum við Landsrétt. Fjórir dómarar af fimmtán geta nú að óbreyttu ekki gengið í dómsstörf við Landsrétt eftir dóm Mannréttindadómstólsins auk þess sem einn af þeim ellefu sem eftir eru fer í leyfi næst haust. Stjórnin leggur því til að lagabreyting þess efnis verði lögð fram um að fjölga dómurum við réttinn úr fimmtán í nítján, þar sem dómarinar fjórir hafi skipunarbréf og því verði ekki breytt. Stjórn dómstólasýslunnar fundaði á föstudag með Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, sem tók við embætti dómsmálaráðherra á fimmtudag, og gerði ráðherra grein fyrir bókun sinni.
Skýrsla um viðbrögð stjórnvalda við dómi MDE
Áformað er að Landsréttur komi saman að nýju í dag, en hlé var gert á störfum dómsins eftir að dómur Mannréttindadómstólsins var kveðinn upp í síðustu viku. Þrír af dómurunum verða þó áfram frá störfum vegna niðurstöðu Mannréttindadómstólsins og sá fjórði er í námsleyfi.
Fréttastofa Rúv hefur greint frá því að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun flytja Alþingi skýrslu klukkan tvö í dag um viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu sem féll í síðustu viku.