Iðnaðarmenn slitu samningaviðræðum við Samtök atvinnulífsins fyrir hádegi og fara nú að skoða næstu skref og aðgerðir. Þetta kemur fram í frétt RÚV.
Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Halldór Benjamín Þorbergsson, segir í samtali við RÚV að staðan sé grafalvarleg.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, talsmaður iðnaðarmanna, segir að nú hefjist undirbúningur verkfallsaðgerða. „Við mátum bara hvernig staðan er fram undan hjá okkur og það var niðurstaðan að það var bókaður árangurslaus fundur hjá sáttasemjara. Það þýðir að viðræður slitna á þessum tímapunkti,“ segir hann.
Of langt á milli viðsemjenda
Kristján Þórður segir jafnframt að of langt sé á milli viðsemjenda. „Við teljum að það þurfi að auka þrýsting á viðsemjendur okkar til að komast lengra.“ Hann vill ekki upplýsa um ágreiningsmálin í smáatriðum en segir að þau séu mörg, til dæmis vinnutíminn. Næstu skref verða að heyra í félagsmönnum og undirbúa aðgerðir. „Við munum þurfa að nýta tímann vel til að undirbúa okkur fyrir næstu skref,“ segir hann.
Fram kom í fréttum í gær að Starfsgreinasamband Íslands hefði slitið viðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins.
Halldór Benjamín segir að Starfsgreinasambandið og iðnaðarmenn hafi verið í sama takti í kjaraviðræðunum hjá ríkissáttasemjara. Samkvæmt RÚV var þetta áttundi sáttafundur iðnaðarmanna en þeir hafa verið í viðræðum við atvinnurekendur síðan í nóvember. „Staðan er auðvitað orðin grafalvarleg og það er öllum augljóst sem með þessu fylgjast að við þurfum að ná lendingu í þetta mál á breiðum grunni gagnvart öllum almenna vinnumarkaðnum á tiltölulega skömmum tíma ef ekki á illa að fara,“ segir hann.
Hann vill ekki upplýsa í hverju ágreiningurinn er fólginn. „Ég vil hins vegar árétta það að kjarasamningar eru flókið fyrirbæri. Við getum ekki tekið einn þátt út fyrir sviga.“