Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands sendi frá sér yfirlýsingu vegna frétta fjölmiðla þess efnis að stéttarfélagið Framsýn hafi ákveðið að afturkalla samningsumboð sitt frá Starfsgreinasambandinu. Samninganefnd SGS segir það miður að í tengslum við þá ákvörðun hafi Framsýn þurft að bera félaga sína þungum sökum. Í yfirlýsingunni segir að samninganefnd SGS muni aldrei taka þátt í því að semja um að rýra kjör síns fólks, hvort sem það líti að vinnutíma, álagsgreiðslna eða annarra þátta.
Segir að einstaklingar innan hreyfingarinnar hafi viljað skoða vinnutímabreytingu
Framsýn, stéttarfélag Þingeyinga, samþykkti á fundi sínum í gærkvöldi að afturkalla samningsumboðið sem félagið veitti Starfsgreinasambandinu. Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar, sagði í samtali við mbl.is í gær að félagið eigi mikla samleið með VR, Eflingu, VLFA og VLFG þar sem þau séu þau einu sem hafi alfarið hafnað tillögum að vinnutímabreytingum sem Samtök atvinnulífsins hafi lagt til. Aðalsteinn sagði að Framsýn hafi ávallt haft sömu afstöðu gagnvart þessum tillögum SA og því eðlilegt að félögin starfi saman.
Jafnframt sagði hann að innan hreyfingarinnar hafi verið einstaklingar sem hafi viljað skoða vinnutímabreytingar. „Því miður er það þannig að innan hreyfingarinnar hafa verið einstaklingar sem hafa viljað skoða þetta, en maður áttar sig ekki á því. Þetta er bara bullandi kjaraskerðing fyrir fólk að skera niður yfirvinnutíma og lengja dagvinnutíma,“ sagði Aðalsteinn.
Samninganefnd SGS segir Framsýn hafa borið félaga sína þungum sökum
Í yfirlýsingunni frá SGS segir að það sé í samræmi við forræði einstakra félaga að Framsýn hafi ákveðið að afturkalla samningsumboð sitt frá sambandinu. SGS hafnar hins vegar ásökunum Framsýnar og segir það vera miður að vera borin þungum sökum af félögum sínum. „Það er miður að í tengslum við þessa samþykkt þurfi að bera félaga sína þungum sökum. Samninganefnd Starfgreinasambandsins mun aldrei taka þátt í því að semja um að rýra kjör okkar fólks, hvort sem það lítur að vinnutíma, álagsgreiðslna eða annara þátta.“
Þá segir í yfirlýsingunni að í viðræðum SGS við Samtök atvinnulífsins hafi þessi afstaða komið fram með „mjög sterkum og afdráttarlausum hætti“ og að samninganefndarmönnum ætti því að vera það „algerlega ljóst“. Þá er minnt á það í yfirlýsingunni að SGS sleit viðræðunum við SA vegna þessara þátta.
„Samninganefnd Starfsgreinasambandsins mun ekki standa í skeytasendingum við félaga sína í fjölmiðlum. Verkefni okkar er að ná samningum um bætt kjör okkar fólks, við einbeittum okkur að því í samhljómi við félaga okkar í Eflingu, Verkalýðsfélagi Akraness og Grindavíkur, “ segir að lokum í yfirlýsingunni.