Festi hf. hefur keypt 15 prósent hlut í Íslenskri orkumiðlun. Íslensk orkumiðlun er alfarið í eigu einkaaðila en hluthafar Íslenskrar orkumiðlunar eru Sjávarsýn ehf., Betelgás ehf., Kaupfélag Skagfirðinga svf., Ísfélag Vestmannaeyja hf. og Festi hf. Í fréttatilkynningu frá félaginu segir að Festi telur mikil tækifæri felast í eignarhaldi á fyrirtækinu. Íslensk orkumiðlun starfar á sviði raforkusölu til fyrirtækja og einstaklinga.
Samkeppni á raforkumarkaði jafn mikilvæg og á öðrum orkumörkuðum
Festi hf. rekur meðal annars verslanir Krónunnar og vöruhúsið Bakkann. Samkeppniseftirlitið samþykkti í lok júlí á síðasta ári kaup N1 á öllu hlutafé Festi hf. Forstjóri sameinaðs félags N1 og Festar er Eggert Þór Kristófersson. Eggert segir að með kaupunum í Íslenskri orkumiðlun fær Festi tækifæri til að lækka rafmangaskostnað sinn umtalsvert og jafnframt bjóða viðskiptavinum sínum rafmagn á lægra verði en áður hefur þekkst. „Samkeppni á raforkumarkaði er jafn mikilvæg og á öðrum mörkuðum með orku, það þekkjum við vel hjá Festi,“ segir Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi hf.
Jafnframt segir í tilkynningunni að Festi hf. sé aðili að loftlagsyfirlýsingu Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð, sem feli í skýr skýr og mælanleg markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með markvissum aðgerðum. Eggert segir því kaup félagsins á hlut í Íslenskri orkumiðlun styrki félagið enn frekar á þeirra vegferð.
Íslensk orkumiðlun var stofnuð árið 2017 af Magnúsi Júlíussyni og Bjarna Ármannssyni. Í febrúar sama ár fékk fyrirtækið leyfi frá Orkustofnun til þess að stunda raforkuviðskipti. Í tilkynningunni segir að eitt af megin markmiðum fyrirtækisins sé að ýta undir samkeppni í sölu á raforku til fyrirtækja og einstaklinga.