Arnar Gauti Reynisson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Heimavalla hf. en hann hefur verið fjármálastjóri félagsins frá því í maí 2015. Hann tekur við starfinu um næstu mánaðarmót en tilkynnt var að Guðbrandur Sigurðsson, sem hefur verið framkvæmdastjóri félagsins á undanförnum árum, myndi láta af störfum fyrr á þessu ári. Heimavellir er stærsta leigufélag landsins á almennum markaði.
Í tilkynningu sem send var til Kauphallar Íslands er haft eftir Arnari Gauta að hann sé spenntur fyrir því að taka þátt í þeirri vegferð sem fram undan sé hjá Heimavöllum. „Félagið hefur stækkað hratt á undanförnum árum og er stærsta íbúðaleigufélag landsins með um 1.800 íbúðir í leigu. Á næstunni verður enn frekari áhersla lögð á umbreytingu eignasafns félagsins sem miðar af því að bæta rekstur þess og arðsemi."
Heimavellir var skráð í Kauphöll Íslands í maí í fyrra. Vera félagsins í henni gekk ekki sem skyldi og í byrjun febrúar 2019 var tilkynnt um áform þess efnis að afskrá Heimavelli. Það var síðan samþykkt á aðalfundi félagsins sem fram fór í síðustu viku.
Eigið fé félagsins í lok árs 2018 var 18,8 milljarðar króna og námu heildareignir félagsins, þar helst íbúðir í útleigu, 56,8 milljörðum króna, en skuldir 38 milljörðum.
Félög í eigu fjárfestanna Finns R. Stefánssonar og Tómasar Kristjánssonar lögðu upphaflega fram tillögu um afskráningu. Þeir hafa ásamt framtakssjóðnum Alfa, Vörðu Capital ehf. og Eignarhaldsfélaginu VGJ ehf. boðið í 27 prósent hlut í Heimavöllum, fyrir samtals fjóra milljarða króna, gegn því að félagið verði afskráð.
Á síðasta aðalfundi voru kosin í stjórn Árni Jón Pálsson, Erlendur Magnússon, Halldór Kristjánsson, Hildur Árnadóttir og Rannveig Eir Einarsdóttir.