Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, telur að það hafi verið rétt ákvörðun hjá Sigríði Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, að segja af sér embætti í síðustu viku.
„Það sem hún gerir, og er auðvitað hennar ákvörðun, er að hún ákveður að stíga til hliðar til þess að skapa frið um það hvernig við förum í næstu skref. Ég tel að þetta hafi verið rétt hjá henni að gera þetta með þessum hætti.“
Þetta er meðal þess sem kom fram í viðtali Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, við Lilju í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni. Þar ræddi hún nýlega niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu, róttækar breytingar til að mæta kennaraskorti, fjölmiðlafrumvarpið sitt og margt fleira.
Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan:
Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu um að það væri brot á mannréttindum þeirra sem koma fyrir Landsrétt að fjórir ólöglega skipaðir dómarar dæmi í málum þeirra hefur mikilli spennu í íslensku samfélagi. Dómararnir fjórir geta ekki dæmt og um tíma starfaði Landsréttur ekki.
Nú er hart tekist á um hvort hvort það eigi að reyna á að vísa niðurstöðu dómstólsins til efri deildar hans eða una niðurstöðunni og vinda sér í að eyða þeirri óvissu sem er til staðar.
Lilja sagði að fram undan væri hagsmunamat á því hvað sé best að gera. Það mikilvægasta væri að eyða þeirri óvissu sem sé til staðar um starfsemi Landsréttar. „En það er þannig að það mun taka tíma.“
Lilja segist hafa verið þeirrar skoðunar að skynsamlegast væri að áfrýja niðurstöðunni, en hún eigi eftir að sjá hagsmunamatið og hvernig það komi út. „Ég vil að við gerum þetta þannig að þetta liggi allt fyrir.“
Hennar endanlega afstaða mun síðan liggja fyrir að því loknu.