Ríkisstjórnin hefur í marga mánuði fylgst náið með þeirri stöðu sem upp er komin á flugmarkaði og er hún með tilbúnar áætlanir ef rekstur WOW air stöðvast. Þetta kemur fram í máli Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.
„Við höfum haft sérstakan starfshóp að störfum í marga mánuði sem hefur undirbúið viðbragðsáætlun stjórnvalda eftir ólíkum sviðsmyndum. Ég hef sagt það nokkrum sinnum opinberlega að ég telji það ekki réttlætanlegt að setja skattfé inn í áhætturekstur eins og þennan. Og þess vegna er það ekki hluti af okkar áætlunum að gera neitt slíkt,“ segir Bjarni.
Hann telur hins vegar að stjórnvöld þurfi að vera viðbúin ef einhver meiri háttar röskun verður, meðal annars til þess að huga að orðspori landsins og vegna þeirrar áhættu sem gæti fylgt röskuninni. Eins nefnir Bjarni stöðu farþega og segir hann að stjórnvöld þurfi að vera viðbúin að greiða úr stöðunni ef á þarf að halda. „En þær aðstæður hafa ekki enn skapast, sem betur fer. En við erum viðbúin því ef það gerist,“ segir hann.
Mikil óvissa ríkir nú um framtíð flugfélagsins WOW air en Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, reynir til þrautar að bjarga flugfélaginu eftir að það slitnaði upp úr viðræðum við Icelandair Group í gær. Samkvæmt tilkynningu WOW air frá því í gær vinnur félagið nú að því að ná samkomulagi við meirihluta lánardrottna sinna um að skuldum félagsins verði að stórum hluta umbreytt í hlutafé og að sömu aðilar tryggi félaginu fjármagn til rekstrarins uns það nái „sjálfbærum rekstri til framtíðar“.