Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, tilkynntu í dag um 3,5 milljarða úthlutun til uppbyggingar innviða og annarra verkefna á 130 fjölsóttum stöðum í náttúru Íslands og á öðrum ferðamannastöðum vítt og breitt um landið. Einnig var tilkynnt um rúmlega 500 milljón króna styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og 1,3 milljarða úthlutun til landvörslu.
Leggja hjólaleið við Jökulsárgljúfur
Ráðherrarnir kynntu í dag í sameiningu verkefnaáætlun Landsáætlunar um uppbyggingu innviða til næstu þriggja ára. Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu segir að markmiðið sé að halda áfram þeirri miklu uppbyggingu innviða sem hafin er til verndar náttúru landsins og menningarsögulegum minjum, sem og uppbyggingar ferðamannastaða. Dæmi um framkvæmdir sem átt hafa sér stað eða eru hefjast í verkefnaáætlun Landsáætlunar er Snorralaug og minjasvæðið í Reykholti. Í verkefnaáætluninni segir að umhverfi Snorralaugar hefur látið mjög á sjá vegna mikillar umferðar ferðamanna við hana. Því er unnið að því að lagfæra skemmdir og styrkja umgjörð laugarinnar, sem og annarra minja á svæðinu.
Þá hefur átt sér stað mikil uppbygging í Þjóðgarðinum á Snæfellsnesi, meðal annars með framkvæmdum við gestastofu við Malarrif og uppbyggingu innviða við Djúpalónssand. Fram undan í áætluninni er að bæta göngustíg við Öndverðarnes, stækka og malbika bílastæði við Skarðsvík og setja upp útsýnispalla.
Meðal nýrra verkefna í áætluninni er meðal annars að ráðast í fyrsta áfanga hjólaleiðar við Jökulsárgljúfur sem liggur frá Ásbyrgi í átt að Dettifoss. En gríðarleg aukning hefur orðið í reiðhjólaumferð á því svæði.
Hæsti styrkurinn í innviðauppbyggingu við Goðafoss
Auk þess tilkynntu ráðherrarnir tveir um styrki til fjörutíu verkefna úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Í heildina nemur styrkupphæðin 505 milljónum króna en hæsti styrkurinn fer til innviðauppbyggingar við Goðafoss sem er samkvæmt tilkynningunni komin á lokastig eftir markvisst uppbyggingarstarf á undanförnum árum. Önnur verkefni sem fá hærri en 30 milljóna króna styrki eru Breiðin á Akranesi, Laufskálavarða í Álftaveri, Reykjadalur og Hveradalir í Ölfusi.
Auk þeirra ráðstafana sem gerðar eru með úthlutun Landsáætlunar og Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða er áætlað að verja um 1,3 milljörðum króna sérstaklega til landvörslu á næstu þremur árum. Þetta er gert til að tryggja ráðningu heilsársstarfsmanna sem og mönnun á háannatíma á fjölsóttum stöðum og friðlýstum svæðum.
Náð að lyfta grettistaki
Guðmundur Ingi Guðbrandsson segir í tilkynningunni að í dag kynntu hann og Þórdís Kolbrún áframhaldandi stórsókn við uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum og náttúruperlum um land allt. „Aldrei hefur meiri fjármunum verið varið til slíkrar uppbyggingar en í tíð núverandi ríkisstjórnar og samhliða hefur fengist betri yfirsýn svo hægt er að forgangsraða verkefnum eftir því hvar þörfin er brýnust.“
Þórdís Kolbrún tekur í sama streng og segir ferðaþjónustu vera ein af grunnstöðvum íslensk atvinnulífs. „Hún á allt sitt undir því að við varðveitum töfra íslenskrar náttúru. Fyrir ári síðan kynnti ríkisstjórnin markvissa sókn í uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum í náttúru Íslands og sannarlega höfum við náð að lyfta grettistaki. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða og Landsáætlun um innviðauppbyggingu gegna hér lykilhlutverki og saman ætlum við að tryggja að íslensk náttúra og ferðaþjónusta geti blómstrað hlið við hlið.“